19.03.1923
Efri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2001)

19. mál, vitabyggingar

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg býst eigi við, að það þurfi langan formála um þetta mál, og jeg læt mjer því nægja að vísa til frv. sjálfs og athugasemdanna við það. Frv. var í samgöngumálanefnd í hv. Nd., og gerði hún aðeins lítilsháttar breytingu við það, sem sje við 3. gr., viðvíkjandi láni því, sem ætlast er til, að stjórnin fái til þess að byggja fyrir vita, og þannig er frv. komið fyrir þessa hv. deild. Jeg skal geta þess, að jeg tel það álitamál, hvort rjett sje að halda áfram þeirri stefnu að búa til heildarlög um brýr og síma og vitabyggingar, og þannig, að byggingar þessar verði framkvæmdar fyrir lán, sem til þeirra yrðu tekin, og sá kostnaður því alveg utan við fjárlögin. Þetta tel jeg alls ekki rjett, því jeg álít, að öll útgjöld landsins eigi að koma fram í fjárlögum eða aukafjárlögum. Þetta mætti laga með því, að tekjumegin sje sett upphæðin af láninu, sem varið er á hverju ári til vitabygginga, en gjaldamegin útgjöldin við vitabyggingarnar á sama ári. Þá koma upphæðirnar fram báðum megin í fjárlögunum, og þar með hefir þingið fengið íhlutunarrjett um það, hvernig fjenu skuli varið árlega. Annars tel jeg mikið unnið við lög, sem sjeu nokkurs konar heildaryfirlit yfir allar vitabyggingar, enda hefir hv. samgöngumálanefnd Nd. viðurkent það. — Jeg vænti þess, að frv. þetta fái góðan byr í þessari hv. deild, engu síður en í hv. Nd., og leyfi mjer að leggja það til, að því verði vísað til samgöngumálanefndar. Byggi jeg þá von mína, að frv. verði vel tekið, á því, að það er komið fram að tilhlutun Alþingis sjálfs.