17.03.1923
Efri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2025)

73. mál, bifreiðaskattur

Guðmundur Ólafsson:

Jeg stóð upp af því að ummæli háttv. flm. (GGuðf) voru ekki sem allra vinsamlegust í minn garð og þeirra, sem samþyktu bifreiðalögin 1921. Jeg heyri, að þetta er nákvæmlega sami sónninn og þá heyrðist. Háttv. flm. (GGuðf) sagði, að skemdir á vegum af völdum bílanna væri ímyndun ein. Hann gat þess þó, að þeir myndu ekki skemma mikið meira en önnur flutningatæki. — En þá vil jeg nú segja, að þeir skemmi vegina ekki alllítið, því mjer virðast vegirnir þannig, að skemdirnar á þeim sjeu ekki tómur hugarburður. Þeir eru víða sundurgrafnir og stórskemdir. Það kom greinilega fram í umr. um þetta mál á þinginu 1921, að dýrara væri að ferðast á hestum en í bílum. Finst mjer því, að þessi skattur komi ekki svo tilfinnanlega niður á ferðamönnum nje bílunum, að þörf sje að fella hann niður þess vegna, því þar sem bílarnir gátu þá kept við hesta, og síðan hefir taxtinn verið færður stórum niður, sjest ljóslega, að hjer er ekkert í vegi. — Og þegar litið er á það, að skatturinn gengur til þess að bæta og auka vegi, sem bifreiðar geta gengið um, þá ætti hann að borga sig fyrir alla hlutaðeigendur.

Fyrst ástæðurnar eru svona góðar nú, þá vona jeg, að meiri hluti hv. deildar fallist ekki á frv. þetta. En hins vegar get jeg sýnt því þá kurteisi að greiða atkv. með því til 2. umr., einkum þar sem hv. flm. (GGuðf) gerði það að tillögu sinni, að því yrði vísað til nefndar, sem jeg er í.