04.04.1923
Efri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2029)

73. mál, bifreiðaskattur

Jónas Jónsson:

Mig langar til að segja nokkur orð um brtt. þær, sem jeg og hv. 2. þm. Rang. (GGuðf) komum fram með.

Jeg er alls ekki viss um, að öllum sje ljóst við fyrsta yfirlestur, að í brtt. er fólgið nýmæli, einkarþarft og gott, að svo miklu leyti, sem jeg get sjeð, og vel þess vert, að þingið taki tillit til þess.

Það ber jafnvel nokkurn árangur, þótt ekki nái það fram að ganga að þessu sinni. Það er vitanlega rjett hjá hv. 1. þm. Húnv. (GÓ) — enda hefi jeg ekki mælt á móti því — að sje bifreiðaskattinum varið í að bæta vegi, þá verði það til að hjálpa bifreiðaeigendum. En samt er einn galli á þeirri hugsun að skatta bifreiðar, sem eru nú að verða, sjerstaklega á Suðurlandi, alveg ómissandi samgöngutæki. Þessi skattur er ekki rjettlátur, þar sem annarsstaðar er hlaupið undir bagga með ýmsum samgöngufyrirtækjum öðrum, eins og t. d. að láta „Svan“ á Breiðafirði hafa 20 þúsundir, til að verjast tekjuhalla. Þvert á móti ætti þá að skatta öll samsvarandi samgöngutæki, því að bátarnir á Breiðafirði, Djúpinu vestra og víðar gera þar alveg sama gagn og bifreiðarnar hjer. Það, að leggja ekki skatt á nema sjerstakar tegundir farartækja, úr því farið er að skatta sumar þeirra, er ósamræmi og alveg hugsunarrangt. Nú nýverið hafa verið gerðar umbætur á bifreiðum, sem ganga milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Er það mjög mikilsvert atriði, því að áður nam fargjaldið með bifreiðum þann vegarspotta 3 kr. fyrir sætið, — seinast í haust var það víst 2,50 kr. Nú finnur maður nokkur í Hafnarfirði, að jeg hygg, upp á því að breyta bílunum þannig, að þeir rúmi fleiri menn heldur en með hinu venjulega fyrirkomulagi. Með því að nota rúmið í bifreiðunum sem allra best, hefir fleira fólk getað komist fyrir í þeim, og við það hefir gjaldið lækkað úr 2,50 kr. niður í 1 kr. Nú nemur gjaldið ekki meiru en 10 aur. á hvern km. Ef bifreiðar þessar gengju austur yfir fjall í vor, mundi það fljótt spara Reykvíkingum og bændum á suðurláglendinu marga tugi þús.kr. Meira að segja er líklegt, að flutningsgjöldin myndu lækka svo mikið, ef ekki yrði gert of mikið að því að skatta þessi farartæki, að efamál er, hvort ódýrara yrði að ferðast, þótt hin fyrirhugaða járnbraut væri komin. Þess vegna vil jeg spyrja hv. fjhn.: Er sanngjarnt að leggja skatt á farartæki þessi, eða vex nefndinni það í augum, að bifreiðaeigendur geta loks boðið mönnum svo ódýrar ferðir? Auk þess eru þetta allra nauðsynlegustu farartækin hjer sunnanlands, og væri ranglátt gagnvart íbúum þess hluta landsins að hamla notkun þeirra, þótt hjer ræði að vísu ekki um stórt spor í þá átt. Samhliða þessu býst jeg þó við, að þingið leggi bráðlega margar miljónir í járnbraut fyrir það sama fólk.

Ef brtt. okkar verða samþyktar, þá lækka fargjöldin. Ef brtt. verða feldar, sem jeg verð líklega að gera ráð fyrir, þá vonast jeg til, að hv. fjhn. líti síðar mildilegri augum á málið, ef til tals kæmi að fá sjerstakan styrk úr ríkissjóði til fólksflutninga austur. Því að það er auðskilið, að ekki er eins arðvænlegt fyrir bifreiðaeigendur að halda uppi mannflutningum á 100 km. leið með afarlágum taxta eins og á styttri leiðum milli tveggja kauptúna, og eru ekki líkur til, að hægt sje að þrýsta taxtanum jafnlangt niður fyrir svo langa leið eins og hann er milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, nema með styrk úr ríkissjóði.