21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2043)

95. mál, eftirlaun handa Birni Kristjánssyni

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi samið þetta frv. eftir eldri fyrirmyndum. Það eru lög frá 1917 um afnám laga um alidýrasjúkdóma. Það er fágætt, að slík lög sjeu afnumin, eins og þetta frv. fer fram á, og því hafði jeg þessi eldri lög til hliðsjónar og fyrirmyndar.

Það hefir veitt mjer hugrekki til þess að bera fram þetta frv., að hjer í þinginu er allfjölmennur flokkur, sem hefir verið kallaður sparnaðarbandalagið, og samkvæmt stefnu þess mun það vera með öllum sparnaði, sem er framkvæmanlegur. Jeg treysti því þess vegna, að þessi flokkur verði með frv., sem fer fram á sparnað og hann ekki óverulegan.

Eins og kunnugt er, voru gerð lög um það 1918 að veita þáverandi bankastjóra Birni Kristjánssyni 4000 kr. eftirlaun auk dýrtíðaruppbótar, og þessi upphæð hefir jafnvel komist yfir 10000 kr. eitt árið. Þetta er álitleg fjárupphæð, og þó að dýrtíðaruppbótin lækkaði, þá hefði þessi maður hærri laun en flestallir starfsmenn landsins. Fleiri en jeg hafa tekið eftir því, að þessi upphæð geti orðið þung á metunum áður en lýkur. Jeg man ekki betur en að það hafi verið tekið fram á fundi í G.-K.- sýslu af vel reikningsfróðum manni, að ef styrkþegi lifði til hárrar elli, sem flestir vona, þá yrði upphæðin með vöxtum um 1/2 milj. kr. Jeg vil ekki taka ábyrgð á þeirri tölu, en þetta er reiknað af manni, sem alment er talinn mjög reikningsglöggur. Hvað sem því viðvíkur, þá er víst, að sú upphæð, sem til styrkþega fer, verður mikil, og mætti með henni komast langt til þess að gera nauðsynleg og óhjákvæmileg mannvirki eða undirbúa þau, svo sem landsspítala, aðra spítala, sundhöll og íþróttaskála, eins og jeg hefi talað um í öðru sambandi. Jeg segi þetta til þess að menn geti áttað sig á, að hjer er um fje að ræða, sem gæti annarsstaðar komið að mjög góðum notum.

Þá ætla jeg lítillega að víkja að sögulegri hlið málsins. Þessi hugmynd kom fyrst fram í Nd. 1918, og var þá borið fram frv. af hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) um, að veita styrkþega þennan styrk, af því að hann mundi láta af bankastjórastöðunni. Í umr. kom það skýrt fram, að styrkþegi var frv. mjög fylgjandi, líklega hvatamaður þess, því að það var tekið fram, að frv. væri flutt eftir ósk styrkþega, samkvæmt vilja hans og vitund. Það varð talsvert þjark um málið, bæði í Ed. og Nd., og með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa kafla úr nál. frá allsherjarnefnd Ed.:

„Nefndin hefir haft tal af Birni bankastjóra Kristjánssyni um málið. Lýsti hann yfir því, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, væri borið fram eftir ósk sinni, og að það væri ósk sín og vilji að fara úr bankastjórninni sem fyrst, helst 1. júlí næstkomandi. Liggja atvik svo að, að heilsa hans er í veði, ef hann neyðist til að vera lengur við bankann. Sjálfur er hann nú efnalaus, því að þegar hann fór að bankanum, fjekk hann syni sínum í hendur verslun þá, er hann rak áður. …

Guðjón Guðlaugsson, form., með fyrirvara.

Jóh. Jóhannesson. Magnús Torfason.“

Málið fjekk ekki góðar undirtektir í Ed. Frv. var mótmælt af Sigurjóni Friðjónssyni. Taldi hann að öll aðalskilyrði vantaði til þess að veita styrkinn, þar sem styrþegi hafi verið stutt í stöðu sinni. Eggert Pálsson vildi að vísu veita styrk, en ekki svo háan; aðeins helming af upphæðinni. Hv. þm. Seyðf. (Jóh Jóh) benti á, að frv. væri flutt eftir ósk styrkþega. Hann væri veikur, og væri því óviðkunnanlegt að svelta hann úr bankanum. Og við aðra umr. urðu 5 á móti frv.: Eggert Pálsson, Guðmundur Ólafsson, Halldór Steinsson, Karl Einarsson og Sigurjón Friðjónsson. Við 3. umr. fórust Magnúsi Torfasyni svo orð, og ætla jeg að lesa þau með leyfi hæstv. forseta:

„Það stendur svo á þessu, að jeg fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um það, að bankastjórinn er sjúkur. Öll framkoma hans í bankanum síðan hann hvarf í hann aftur sýnir, að hann er sjúkur og að alt hugsanalíf hans er sjúkt, enda er það vitanlegt, að hann. hefir ekki gegnt starfi sínu nema með höppum og glöppum.

Það er frágangssök fyrir bankann að hafa sjúkan yfirmann á þessum vandræða tímum …. menn, sem eru í einskonar millibilsástandi eða sjúkir, duga þar ekki.“

Eftir þessa meðferð í þinginu var svo frv. samþykt.

Nú býst jeg við, að því verði haldið fram, að ekki sje hægt að nema slík lög sem þessi úr gildi. Þó þetta sje við 1. umr., þá ætla jeg að fara nokkrum orðum um það atriðið, um lagalegu hlið málsins. Það er vitanlega ekki hægt að halda því fram með rjettu, að ekki sje hægt að afnema einföld lög, því það er aðalstarf Alþingis, auk nýrrar lagasetningar, að afnema og breyta eldri lögum. Frá þessu sjónarmiði verður því ekki haldið fram, að ekki sje hægt að afnema lögin. Þá er sú mótbáran, að ekki sje hægt að afnema lögin vegna þess, að þau fari fram á laun til einstaks manns. En til þessa eru þó fordæmi. Jeg held, að hjer sjeu staddir í deildinni í dag tveir þm., sem farið hafa fram á svipað, þeir háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) og hv. 1. þm. Eyf. (StSt). Þeir báru fram frv. um það í fyrra, að afnema dósentsembættið í grísku, en það hefði komið í sama stað niður fyrir þann, sem það embætti skipar, þ. e. hann hefði mist landssjóðslaun, sem honum höfðu verið veitt með eldri lögum. Eins hefir verið farið fram á að afnema prófessorsembætti í hagnýtri sálarfræði, og hefir ekki verið að því fundið, að slíkt sje ógerningur frá lagalegu sjónarmiði. Sumir af elstu þm. hafa flutt þessi frv., og verður það þá varla talið óþinglegt. Um þessi embætti hafa lögfræðingar sagt mjer, að mennirnir, sem þau skipa, hefðu ekki haft rjett til biðlauna. Jeg vil líka benda á, að jeg hefi borið þetta undir einn dómara landsins, og áleit hann, að ekkert væri lagalega út á það að setja, en hann taldi það harðræði gagnvart styrkþega. Hann áleit, að styrþegi mætti ekki missa þetta fje.

En þá er siðferðislega hliðin. Er rjett að svifta aldraðan mann eftirlaunum Jeg skal þegar koma að því, sem fyrir mjer er aðalatriðið í þessu máli. Það er ekki sparnaður. Jeg býst við, að sparnaðarbandalagið verði með frv. eingöngu af þeirri ástæðu, og er ekkert út á það að setja. En lögin eru bygð á skökkum grundvelli; þau eru bygð á því, sem Danir kalla „bristende Forudsætning“. Lögin eru bygð á þeirri hugsun, að styrkþegi sje öregi. Þetta kemur glögt fram í umr. um málið, sem jeg vitnaði í, og í nál., sem jeg las fyrir háttv. deild. Styrkþegi upplýsir nefndina um, að frv. sje borið fram samkvæmt ósk sinni, og nefndin getur ekki haft það frá öðrum en honum, að hann sje efnalaus. Jeg geri ráð fyrir, að menn sjeu ófúsir til að veita þeim manni hæstu eftirlaun, sem er sannanlega ríkur. Jeg geri að minsta kosti ekki ráð fyrir, að sparnaðarbandalagið fallist á það. Nú hefir það upplýst, að styrkþegi muni ekki vera eða sje mjög sennilega ekki eins mikill öregi, eins og þingið 1918 bygði á. Menn rekur ef til vill minni til þess, að einhver, sem kallaði sig Egil, skrifaði í blað nokkurt hjer í bænum, sem talar venjulega máli sparnaðarbandalagsins og birtir jafnaðarlega greinar um styrkþega þann, sem hjer er um að ræða, greinarkorn um styrkþega, og hafði þessi Egill tekið upp þykkjuna fyrir hann, því annað blað hafði gefið í skyn, að hann hafi ekki verið gæfumaður. Egill bendir á að styrkþegi hafi alist upp í fátækt, hafi með dugnaði komist til æðstu valda, orðið bankastjóri og ráðherra og hafi safnað auði. Þetta telur Egill auðnuveg, og eru margir á sömu skoðun. Nú er það vitað, að fyrir 20–40 árum bárust styrkþega í hendur mikil auðæfi eftir íslenskum mælikvarða. Dómari hjer hefir sagt mjer, að það hafi varla getað verið minna en um 50 þús. kr. og ætti það nú að svara til 300–350 þús. kr. Síðan rekur styrkþegi verslun í yfir 20 ár með miklum umsvifum, og þessi verslun er talin með arðsömustu fyrirtækjum þessa bæjar. Það er ekki vafi á því, að þessi verslun hefir tæplega grætt minna sum stríðsárin en um 100 þús. kr. á ári. Jeg býst ekki við að það geti orkað tvímælis, að sá, sem slíka verslun hefir rekið allan þennan árafjölda, hljóti að vera stórauðugur. Nú fær allsherjarnefnd þær upplýsingar, að maðurinn sje orðinn öregi, og þá er spurningin þessi: Hvernig hefir auðurinn horfið? Það hefir ekkert komið fram í málinu, sem hefir getað bent á tap. Verslunin hefir alt af grætt, og þegar styrkþegi hættir verslun, sest hann í eitt best launaða embætti landsins. Jeg satt að segja skil þetta ekki og vona að fá upplýsingar um það, hvernig á þessu stendur.

Nú er sagt í nál., að styrkþegi hafi afhent syni sínum verslunina. Eftir öllu venjulegu skipulagi milli barna og foreldra, þá sjá börnin um foreldra sína eftir bestu getu, enda þótt börnin sjeu fátæk og verði að vinna baki brotnu og hafi engin efni eða styrk þegið af foreldrum sínum. En því ríkari er skyldan, ef barnið er vel efnum búið og hefir máske þegið mikil efni, frá foreldrum sínum. Og engin ástæða er að borga þeim manni 10000 krónur á ári í öreigastyrk, sem afhent hefir auð sinn til barna sinna, því auðvitað hefir framfærsluskyldan fylgt með afhendingu auðæfanna.

Um bankastarfsemi styrkþega (BK) skal jeg fara nokkrum orðum, en þó ekki mörgum, enda þótt það í sjálfu sjer skifti nokkru máli. Nægir að vitna í ummæli sjera Eggerts Pálssonar, sem nefnd hafa verið áður. Efaðist hann mjög um verðleika mannsins til að fá þennan styrk, og styður dómur hans, þá skoðun, að rjett sje að afnema lögin. Einnig kom það fram í blöðunum í vetur, að núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sem einnig var hjer í bæ, þegar styrkþegi starfaði sem bankastjóri og var nákunnugur öllum gangi mála í bænum, hafði talið, að Björn Kristjánsson hefði stýrt bankanum mjög illa. Og álit Magnúsar Torfasonar, sem áður er getið, bendir á hið sama.

Eftirlaun Björns Kristjánssonar virðast því ekki hafa við verðleika að styðjst, sje bygt á áðurgreindum ummælum kunnugra manna. Og skýrsla sú, er þingið fjekk um efnahag hans, virðist þó enn vafasamari.

Styrkþegi sýnist því naumast hafa verðleika til þessara háu launa, sem eru mjög tilfinnanleg fyrir fátækt land að greiða, og mega frá því sjónarmiði teljast óhæfilega há.

En álitamál gæti þó máske talist, hvort rjett væri að fella niður eftirlaunin af þessum ástæðum einum saman, og kem jeg þá að aðalatriðinu, sem ætti að geta ráðið atkvæði þeirra þingmanna, sem ekki telja ofangreindar ástæður nægar. En það er lífsskoðun styrkþega sjálfs, sem sýnir, að það muni vera honum ógeðfelt og móti skoðunum hans sjálfs að taka við þessum styrk.

Mjer er kunnugt um það frá mönnum, sem hlustað hafa á einstaka fræðifyrirlestra styrkþega í vetur, að ekkert sje til í launamálum, sem heitið geti þurftarlaun. Í landi, þar sem atvinnuvegir bera sig illa, megi ekki sniða launin eftir þörfunum, heldur verði launamenn að svelta, ef launin duga ekki. Það eigi jafnan að sníða stakk eftir vexti, lækka kröfurnar eftir því sem launin lækka.

Nú er landið illa statt fjárhagslega, og hefir því þörf að spara. Og þegar því hefir verið slegið föstu, að þurftarlaun skuli ekki viðurkend, er sjálfsagt að beita því viðvíkjandi þeim, sem viðurkenna gildi slíkrar ráðstöfunar sjálfir.

En það var fleira í þessum fyrirlestrum, sem bendir í sömu átt. Ræðumaður hjelt því fram, að í heiminum væru aðallega tveir flokkar manna. Í öðrum væru lítið greindir menn, sem strituðu baki brotnu, en söfnuðu ekki auði. Þessir menn væru hamingjusamir. Í hinum flokkinum væru aftur menn, sem búnir væru meiri andlegum hæfileikum og væru búnir þeim krafti og hyggindum, sem í hag kæmu og gerði þá auðuga. En fyrir kaldhæðni örlaganna væru þessir menn þó óhamingjusamir.

Þetta er að vísu í samræmi við algengar lífsskoðanir, og kemur meðal annars fram í sumum trúarbrögðum, að því auðugri sem maðurinn er, því óhamingjusamari verði hann.

Þessar kenningar styrkþega tel jeg mjög styðja frv. mitt.

Þá er eitt atriði enn, sem vert er að athuga, en það er viðhorf styrkþega, að því leyti sem hann hefir haldið því fram í fyrirlestrum sínum, að illa fenginn auður hyrfi fljótt. Þetta er líka gömul trú. Jeg álít, að þessi skýring geti hjálpað til að átta sig á málinu, ef samrýma ætti þessa kenningu þeirri staðreynd, að ungur maður tekur við miklum auðæfum og ávaxtar þau vel til elliára, en svo tapast þessi mikli auður skyndilega. Ályktunin af því væri þá sú, að þessi mikli auður hefði þá verið ógætilega saman dregin.

Jeg tek þetta fram sem kenningu, en trúi alls ekki, að þetta eigi sjer stað í þessu tilfelli. Jeg álít einmitt, að auðurinn sje til enn, að hann hafi aðeins verið afhentur til erfingjans, sem svo sje skyldugur að ala önn fyrir styrkþega.

Sje nú þetta tekið saman verður niðurstaðan þessi:

Á þessum launum þarf Björn Kristjánsson ekki að halda sem þurftalaunum, því hvorttveggja er, að styrkþegi viðurkennir ekki rjettmæti þurftarlauna sjálfur, og þar sem hann var ríkur og ganga má út frá því, að sá auður hafi verið vel fenginn og sje því til enn hjá arfa hans, þá beri honum skylda til að sjá um styrkþega. — Hafi þar á móti auðurinn tapast, af því hann var illa fenginn, þá er gagnslaust að auka við hann, því að það er að sporna á móti náttúrulögmálinu.

Í öðru lagi hefir styrkþegi sjálfur komist að þeirri niðurstöðu, að vansæla fylgi peningunum; hinir fátæku sjeu hamingjusamir, en hinir ríku ógæfumenn. Er því rangt að neyða hann, þvert ofan í sannfæringu sína, til að hirða þennan styrk. — Landið er á hinn bóginn sælla að þurfa ekki að borga þessa upphæð af fátækt sinni.

Í frv. þessu mætast því hagsmunir beggja aðilja, landsins og styrkþega. Jeg geri því ráð fyrir, að frv. þetta gangi greiðlega fram, og treysti því sjerstaklega, að sparnaðarbandalag þingsins styðji að framgangi þess.

Þar sem gera má ráð fyrir því, að allir sjeu mjög svo einhuga um nauðsyn og nytsemi þessa máls, þá legg jeg til, að frv. fari nefndarlaust til 2. umr.