09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2047)

123. mál, skipun prestakalla

Jónas Jónsson:

Jeg ætla ekki að minnst sjerstaklega á þetta frumvarp, heldur hitt, að jeg tel varhugavert að breyta lögum, sem eru til sparnaðar á embættismannahaldi landsins.

Það er nú alkunnugt, að sú þjónusta, sem prestarnir veita söfnuðum nú, er alt önnur en áður var, og kirkjan er ekki hið sama fyrir þjóðina og hún var áður og kemur það berlega fram í hinum tíðu messuföllum, sem eru nær því um alt land.

Er því alveg rangt að gera nokkuð til þess að auka ríkinu útgjöld í þessu skyni, auk þess, sem það gæti orðið til að hlynna að skilnaði ríkis og kirkju, að halda við lítilfjörlegum prestaköllum, sem vel má þjóna á annan hátt en með því að hafa þar sjerstakan prest.

Þeir, sem kunnugir eru hjer, geta vel sjeð, að það er alls ekki erfitt fyrir prestana í Reykjavík að þjóna Viðey og Mosfelli.

Þrátt fyrir þetta, mun jeg greiða frv. þessu atkvæði til 2. umr., af kurteisi. Og jeg skil vel, að þingmaður kjördæmisins ber þetta fram eftir ósk fólksins. En þingið verður að spara, og getur því tæplega farið inn á þessa braut.

Og fari það að halda Mosfellsprestakalli við, þá veit jeg alls ekki, hvar sparnaðurinn á að koma niður.