09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2049)

123. mál, skipun prestakalla

Jónas Jónsson:

Eins og jeg tók fram áðan, hefi jeg enga ástæðu til að mæla sjerstaklega á móti þessu frumvarpi, því að jeg get vel unt Mosfellssókn að hafa sjerstakan prest.

En það er stefna þess, sem jeg finn ástæðu til að vera á móti, því að málið er í raun og veru partur af stærra máli. Í fyrra, eða mjög nýlega, er talið eftir skýrslum presta, að á landinu sjeu um 3000 messuföll á ári. Sýnir það berlega, að prestaþörf fólksins er ekki eins mikil og hún var áður. Og þar sem þjóðin notar presta sína ekki betur en þetta bendir til, virðist síst þörf að vera að fjölga þeim meira en lög ákveða.

Hv. 2. þm. G.-K. (BK) misskildi mig gagnvart fríkirkjuhreyfingunni. Það, sem jeg sagði, var, að ef þjóðkirkjumenn færu að heimta fleiri og fleiri presta, gæti það orðið til þess að gefa fríkirkjuhreyfingunni byr undir vængi.

Þegar það nú sýnir sig, að þjóðkirkjan hefir altaf minni og minni tök á fólkinu, eins og messuföllin virðast ótvírætt benda til, þá hlýtur þjóðin að fara að líta í kring um sig um það, hvort rjett sje að eyða eins miklu fje í presta þessa lands eins og gert hefir verið. Því að meðan verið er að rjetta landið við úr því fjárhagslega feni, sem það er nú í, verður að gera alt, sem hægt er, til þess að spara.