17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2057)

123. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg get að mestu látið mjer nægja, að vísa til nál. Eins og sjá má af því, hefir nefndin ekki talið fært að fá fullnægjandi þjónustu í þetta gamla prestakall frá nágrannaprestunum. Jeg verð að segja það, að það er gersamlega óhugsandi, að Lágafellssókn sje þjónað af dómkirkjuprestunum í Reykjavík. Jeg hefi átt tal um þetta við prestana, og þeir eru óhlífnir við sjálfa sig, en þeir telja óhugsandi að þessi vegur verði farinn. Auk þess hefi jeg talað um þetta við einn sæmdarprest, sjera Ólaf Ólafsson, og hann ljet í ljósi það álit sitt, að slíkt væri öldungis óhugsandi. Og hann kann glögg skil á þessu, því að, hann hefir unnið mikið verk á þessu sviði. Þetta hljóta allir að kannast við, að rjett muni vera. En hins vegar mætti kannske orða það, að Lágafellssókn væri þjónað frá Görðum. Um slíkt mætti tala. En víst er um það, að einn prestur getur ekki þjónað prestakalli, sem nær frá Vogastapa að Esju, nema því aðeins, að Kálfatjörn væri undanskilin. Það vita allir, hversu örðugt það er í svona stóru prestakalli, sem telur um 3000 manns, og auk þess er svæði þetta allilt yfirferðar. Jeg sje nú, að þáltill. er komin fram um það, að veita litla fjárupphæð til þess að þjóna þessu prestakalli. Það var nú alveg óþarft; það hefði verið betra að leggja til að veita fje í fjárlögunum í þessu skyni. En ekki þarf þessa heldur. Nefndin hefir ekki sjeð sjer annan veg færan í þessu máli en að leggja til, að þessi sókn verði gerð að sjerstöku prestakalli, þótt henni sje það nauðugt og allir nefndarmenn sjeu annars á móti fjölgun nýrra embætta. En hún sá ekki, að á annan veg væri hægt að útvega þjónustu í þetta prestakall.