17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2060)

123. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Jón Magnússon):

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) furðaði sig á því, að þeir menn, sem teldust varfærnir, skyldu vilja stofna hjer nýtt embætti. Á því geta nú verið tvær hliðar. Þetta prestakall hefir nú verið sjerstakt í 8 eða 9 hundruð ár, eða frá því að kristni var lögtekin hjer, svo það er því síst furða, þótt þeir menn, sem fastheldnir þykja við forna siði, vilji halda í þetta embætti. Auk þess var það nærri því tilviljun, að það var tekið upp 1907 að leggja niður prestakallið og sameina meginhlutann Reykjavíkurprestakalli. Það var gert þegar nýjum presti var bætt við í Reykjavík, og þá datt engum í hug, að bærinn mundi vaxa svo ört sem hann hefir gert og að söfnuðurinn mundi verða orðinn helmingi stærri nú en þá. Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta; nefndinni er þetta ekkert kappsmál, en hún hefir farið eftir því, sem hún taldi rjettast.

Ferðakostnaðurinn yrði meiri en 1000 krónur til Lágafells og Viðeyjar. Um Klepp er varla að ræða í þessu sambandi. Jeg veit að vísu, að geðveikralæknirinn hefir verið þeirrar skoðunar, að eigi þurfi að halda uppi messum á Kleppi. En með því að taka hann með, nær því síður nokkurri átt að þessi upphæð dugi. Ekkert er heldur sameiginlegt með þjónustunni á Kleppi, eða þeim, er geta tekið á móti þjónustunni þar, og Mosfellssveitarmönnum, nema þá að þeir eigi að sækja kirkju að Kleppi.

Jeg álít óhugsandi að leggja niður prestakallið, nema þá að hægt kynni að vera að taka prestinn úr Grindavík og setja hann að Kálfatjörn. Þetta kom til orða hjá nefndinni, og að Mosfellssveitin fengi þá þjónustu frá Görðum. En þessu eru hlutaðeigandi sveitir afar mótfallnar, vilja heldur fá þjónustu frá Reykjavík, en það er alveg ómögulegt eins og nú er komið. Eða, eins og annar presturinn hjer sagði við mig, „fysiskt ómögulegt“.