21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

87. mál, samkomutími reglulegs Alþingis

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Þetta frv. er ekki fyrirferðarmikið nje margbrotið. Lýtur það að því einu, að færa þinghaldið til sumarsins og sleppa við vetrarþingin hveimleiðu. Sje jeg ekki, að verið geti mikið rúm fyrir ágreining um svona frv., en auðvitað geta skifst skoðanir um það, hvað hentast er fyrir einstaklingana sjálfa — þingmennina.

Jeg veit að hjer sitja flestir sömu þm. nú, sem áttu þátt í undirbúningi nýju stjórnarskrárinnar 1919 og ákváðu þá, að þing skyldi haldið að vetri til. Jeg veit líka, að á tímabilinu síðan hafa ekki komið í ljós lökustu annmarkar vetrarþinganna, veit, að vetrarríki hefir þessi síðustu ár ekki tafið þingferðir eða aftrað þeim, og að þessu hafa þingferðir að vetri gengið slysalaust. En niðurlag 31. gr. stjórnarskrárinnar sýnir, að sú hugsun var eigi fjarri þinginu 1919, að vetrarþingin kynnu að reynast viðsjál, því að þar er heimild veitt til að breyta ákvæðum um vetrarþing með einföldum lögum. Það er því alls ekki ósennilegt, að ýmsum kunni að hafa snúist hugur um vetrarþingin.

Að þessu hafa aðeins 4 regluleg þing verið vetrarþing, 1909 og 1911 fyrir stríð og eftir stríð 1921 og 1922, en auk þess hafa 2 aukaþing verið haldin að vetri til, 1916–17 og 1920.

Má því segja, að reynsla vetrarþinganna sje ekki löng, og þegar þau fyrst voru tekin upp með lögum 1905, sem komu þó ekki til framkvæmda fyr en 1909, þá varð endingin þó eigi nema til 1911.

Það er hrein tilviljun, að ekki hefir enn þá tepst þinghald um miðvetur af vetrarríki og ísreki, eins og líka hitt, að slysalausar hafa þingferðirnar verið að þessu. En enginn, sem kunnugur er veðurfari norðanlands og austan, þegar ísrek er að vetri, lætur sjer víst til hugar koma, að land vort sje orðið veðurblíðara en áður eða að ætið muni tálmunarlaus verða þingferð um miðvetur frá Norðurlandi, og það væri vissulega illa farið, ef bíða þyrfti eftir slysi eða skipreka á þessum þingferðum að vetri, til þess að sannfæra menn um óhaldkvæmi vetrarþinganna.

Og þótt menn, sem búa og búið hafa hjer á suðvesturhorni landsins, og ef til vill þekkja litið til ísabylja, nema úr annálum, líti á slíkar sagnir eins og ýkjur, þá vil jeg þó ætla, að ýmsa þeirra reki minni til byljanna í öndverðum janúar 1918, þegar nærri lá, að Lagarfoss og Villemoes týndust báðir í ísreki nyrðra og eystra. Sennilega muna líka ýmsir þessara manna eftir skiprekanum 1881, er póstskipið Fönix hleypti á land hjer við Faxaflóa í miðsvetrarbyl, vegna klakabrynju og ísþunga.

Mörg dæmi um skipreka af íshættu má telja frá Austur- og Norðurlandi frá því gufuskipaferðir hófust þangað um 1880, og man jeg þó eigi öll: 1882 fórst norska gufuskipið „Rask“ í ísi á Austfjörðum og 1888 enska gufuskipið „Miner“. Um líkt leyti fórust með nokkru millibili einnig í ísi við Norðurland 2 norsk gufuskip, „Eljan“ og „Brave“, en siðast mun þar hafa týnst danska gufuskipið „Kong Tryggve“ Allir þessir skiprekar og margir aðrir, sem jeg ekki man, eru vottur þess, hve hæpnar og hættulegar vetrarferðirnar geta verið með ströndum fram. En það má heita óbrigðult, að samhliða ísreki að vetri sje sú fannfergja, að landferðir sjeu ósækjandi eða illsækjandi. Og þótt ekki sje gert ráð fyrir skipskaða og manntjóni á þingferðum að vetri, sem auðveldlega getur þó að borið, þá blasir þó beint við, að skip geti þegar minst varir lokast inni af ís á höfnum, jafnvel mánuðum saman, og eyðilagt með öllu þinghaldið eða tafið það, svo kostnaði nemi í tugum þúsunda króna; þarf ekki langt að leita um dæmi. 1918 teptist Villemoes í ís á Siglufirði um 5 vikur og 1902 festist skip í ís á Austfjörðum um þriggja mánaða tíma.

Jeg tel að vísu þetta torleiði og hættur vetrarferðanna þegar vetrarríki er mikið gildustu ástæðuna gegn þinghaldi að vetri, en mjög margt fleira mælir á móti því, svo sem dýrari og erfiðari ferðir þingmanna, aukinn kostnaður við hitun og lýsing þinghússins að vetri, erfiðari og þunglamalegri vinnubrögð fyrir aðkomnum þingmönnum og heimilislausum, vegna kaldra og óhentugra húsakynna o. fl., og ekki síst sá drungi og deyfð við andleg störf, sem margir finna til að vetri fremur en sumri, og sem sjálfsagt á nokkurn þátt í að tefja þingstörfin og lengja þingtímann. Enn fremur tefur það allmikið þinghald á síðari hluta vetrar, að páskaleyfi og fleiri sjerstök falla inn í þingtímann og auka að óþörfu kostnað við þinghaldið.

Loks skal jeg nefna þann stóra og meinlega ókost við vetrarþingin, að meðan þau haldast, verður heimild 33. gr. stjórnarskrárinnar til þinghalds utan Reykjavíkur dauður bókstafur og þýðingarlaus með öllu, með því að ónóg húsakynni, flutningaerfiðleikar o. fl. mundi torvelda þinghaldið annarsstaðar, og aftra því með öllu í sveit, þar sem það ætti þó helst að vera.

Jeg geri fastlega ráð fyrir því, að 1000 ára þingið 1930, verði á Þingvelli háð, þótt svo kunni að fara, að þangað til kúldist það hjer í Reykjavík. Mjer finst hátíðahaldið mundi verða bragðlítið og dauft, ef þetta hátíðarþing skyldi háð hjer í Reykjavík í miðsvetrarhryðjum og myrkri, mitt í þeim fáránlega solli ljettúðar og lausingjaháttar, fjesýslugargi og fávíslegu tildri, sem yfirgnæfir hjer alt annað. Mjer finst jeg ekki mundi geta skilið þá menn, sem hafna vildu slíkri samkomu á Þingvelli, í sumardýrð og gróðurilm, fyrir dvöl hjer í Reykjavík, innan um hjegómann allan, innan um svað og fúla forarpolla.

Einmitt í þessu sambandi finst mjer rjett að minnast á áhrif Reykjavíkur á þingið, en líklega er álitið um það nokkuð breytilegt.

Öllum mun þó koma saman um það, að umhverfið og samvistamennimir móti einstaklingana eigi alllítið, stundum jafnvel meira en þeir vita sjálfir. Er það líka trúa mín, að annmarkar þingsins stafi að miklu leyti frá áhrifum umhverfisins, áhrifum bæjarins. Hvorki er hann svo prýðilegur, þríflegur eða ánægjulegur, nje heldur nágrenni hans svo gróðursælt, aðlaðandi eða fagurt, að það veki kendir ánægju eða gleði, og óvíða virðist mjer svo hátt undir loftið í andans musteri hans, að virðingu eða aðdáun veki, enda er þess vart að vænta í kaupsýslu- og fiskiþorpi, sem þar að auki er á gelgjuskeiði. Andlega andrúmsloftið hjer hefir mjer jafnan fundist svipað því líkamlega andrúmslofti, hráslagalegt og hressingarvana og síst til þess fallið að vekja og glæða háleitar hugmyndir eða að hafa göfgandi og bætandi áhrif á þingið, þingmenn eða aðra, sem að eru komnir.

Jeg veit, að fjöldi manna neitar þessum áhrifum frá umhverfi og samvistamönnum, en það haggar í engu skoðun minni um þau efni, og hún á ekki „formælendur fá“ nú á dögum.

Jeg hefi um æfina oftast dvalið í friðsælu og kyrð sveitarinnar, en líka haft nokkur kynni af andlegu harðrjetti smábæjanna og algleymisskarkala stórborganna. Þess vegna þekki jeg nokkuð af eigin reynslu þessar þrjár myndir hins borgaralega lífs og hugsunarhátt og einkunnir þeirra, og jeg hefi fyrir löngu skapað mjer skoðun um kosti hverrar um sig og ókosti.

Jeg mundi eigi hugsa mig lengi um, ef jeg mætti ráða, að velja Alþingi samkomustaðinn á Þingvelli fremur en í Reykjavík, og jeg mundi gera það í öruggri trú þess, að störf þingsins nýttust þjóðinni þar betur, í öruggri trú þess, að sjóndeildarhringurinn andlegi — eigi siður en sá líkamlegi — yrði þar víðari, hærri og bjartari. Það er engum vafa bundið í vitund minni, að þar nyti sin betur alt það besta, sem í fari hvers þingmanns býr, heldur en í fiskiþorpinu votviðrasama sunnan við Faxaflóa.

Mjer þykir rjett að geta þess hjer, hvernig tekið var undir þessa hugmynd um færslu þingstaðar, þegar jeg fyrst hreyfði henni. Það mun hafa verið 1919 í einkaviðtali nokkurra góðkunningja hjer í Reykjavík, og var nokkru síðar um þetta getið meðal samtíningsfrjetta í blaði einu. En hvað skeði? Eitt af helstu blöðum bæjarins fyltist vandlætingasemi og helti yfir mig og þessa hugmynd ókjörum mótmæla, nefndi þetta fornaldardýrkun, fávíslegt athugaleysi, skilningsskort á þjóðarhagnum o. fl. því líkum nöfnum, en aðalmótbáran virtist þó sú hjá blaðinu, að ekki væri of mikið fyrir Reykjavík gert, þótt hún fengi að halda Alþingi og byggingarprýðinni af nýju þinghúsi. Með öðrum orðum: Blaðið virtist líta svo á, að þingið ætti að vera til, starfa og haldast vegna Reykjavíkur, hvað sem liði þörfum þjóðarinnar að öðru leyti, vera til eins og kvikmyndahús fyrir Reykjavík.

Nú er þessi fásinna, um flutning þingsins, samt farin að koma í ljós víðar. Henni brá fyrir nýlega í útbreiddu tímariti, í ritgerð eftir einn háttv. þingdeildarmann, og þótt mjer, sem nærri má geta, eigi að um það. Bæði hefir hann komið auga á hátíðaþinghaldið 1930, sem þar ætti að vera, og hönd skyggir hann fyrir augu og sjer þar í hillingum framtíðarþing við Öxará.

Jeg skal nú ekki tefja tímann lengur við þessa hlið málsins, en áður en jeg sest niður verð jeg að víkja að einni mótbáru gegn sumarþingum, sem oft hefir heyrst, — í raun og veru þeirri einu, sem nokkurs er verð, — ef rjett væri. Það er sú mótbáran, að bændur geti síður sint þingstörfum þegar þinghald er að sumri og að sumarþing muni leiða til þess, að bændum fækki á þingi. Þetta væri ærin ástæða til þess að hafna sumarþingum, ef rjett væri, en jeg tel hana alls eigi rjetta.

Það er vitanlegt, að bændur geta ekki að jafnaði farið frá heimilum sínum á neinum tíma árs, án þess að setja fullgildan mann til forstöðu heimili og búi, en slíkir menn eru engu síður vandfengnir að vetri en sumri, enda vandinn oft meiri og áhættan að vetrinum en sumrinu. Í útigöngusveitum, þar sem hjörðin er höfð fjarri húsum, er hún oft — og þar með tíðum aleiga búandans — í veði, ef ekki er vel til gætt, og þekkja víst allir fjárskaðaveður á vetrum, sem komið geta svo óvörum, að heilar hjarðir farist. Það er því eigi siður áhyggjuefni fyrir búanda að fara frá hjörð sinni að vetri í hæpinni geymslu, en frá heyvinnu að sumri, sem að vísu getur gengið miður vegna fjarveru hans, en hefir enga hættu í för með sjer, slíka sem vetrarhríðar fyrir hjörðina.

Líkt er ástatt um útvegsbæhdur sem sveitabændur í þessu efni. Vertíðir eru sumstaðar að vetri, annarsstaðar að sumri, hausti eða vori. Fer það því eftir atvikum, hvort útvegsbónda er hentari heimanför að vetri en sumri.

Yfirleitt sje jeg ekki, að nein einhlít regla um hentugan tíma til þingferða verði fundin fyrir bændur alment, því að breytileg atvik ráða í hvert sinn og á hverjum stað.

Í þessu veðurharða, vegalausa og víðáttumikla landi hefir margra alda reynsla tengt þinghaldið við sumarið, og enn þá liggja þau sömu rök til þess sem fyr, að sumarið verður áð teljast hentugasti tíminn.

Eftir frv. er látið ósagt, hvort þing skuli háð annaðhvert ár eða árlega, og er þannig opin leið til beggja handa fyrir stjórnarskrárbreytingu þá, sem hjer er á ferðinni. Yrði nú með henni horfið að því tvísýna ráði að halda þing annaðhvert ár, þá væri óumflýjanlegt að hafa sumarþing, því að fráleitt væri að eiga þinghaldið þá undir dutlungum vetrarveðra, er þingin væru svo strjál.

Ákvæði 2. gr. frv. um fyrsta sumarþing 1924 ætti líklega að breytast í 1926, ef sá yrði uppi að fækka þingum, en þessu má auðveldlega breyta síðar við meðferð málsins eða síðari umræður.

Jeg geri enga tillögu um að vísa máli þessu til nefndar; það geta aðrir gert, ef þeim virðist ástæða til. Mjer virðist málið svo einfalt, að engum sje ofætlun að átta sig á því án nefndar, og ef til vill er þegar fyrirfram ákveðið fylgi þess og mótspyrna gegn því.