28.04.1923
Efri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2090)

102. mál, bankaráð Íslands

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Ólafsson):

Mjer þykja kynlega langar umræður hafa orðið um mál þetta, og hafði jeg ekki búist við því. Nefndin var að mörgu leyti sammála um frv. þetta og m. a. var hún á einu máli um það, að það ætti ekki fram að ganga að þessu sinni. Leiðirnar skiftust um það, hvernig ganga skyldi frá því. Fyrri ræða hv. frsm. minni hl. (BK), sem var nokkurskonar líkræða yfir frv., var því óþörf, og þar að auki varðar engan um orðalag á frv., sem ekki á fram að ganga. Hins vegar er ekki nema eðlilegt, að hv. flm. (JJ) forsvari sínar gerðir.

Annars hafa umræður um mál þetta farið um alla heima og geima. Menn hafa farið að skemta sjer og talað um Íslandsbanka, og enda skeggrætt um mestalt stjórnmálaástand vort.

Jeg ætla mjer ekki að tala langt mál, enda hefir hv. þm. G.-K. (BK) kallað hv. 5. landsk. þm. (JJ) frsm., en það átti jeg að heita. Aðeins vil jeg endurtaka það, að óþarfi virðist að deila um orðalag frv., sem enginn mun ætlast til að samþykt verði, nema ef til vill hv. flm. (JJ) sjálfur. Frá mínu sjónarmiði er frv. þetta, að svo komnu máli, ekki til annars en, ef dagskrá meiri hl. verður samþykt, að ýta undir stjórnina að athuga málið fyrir næsta þing, og þá um leið að sjálfsögðu nál. hv. minni hluta.

Út af því, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. (SE), og hann hefir fyrir nokkru síðan tekið hjer fram, að von væri á frv. um að skipa eftirlitsmann með öllum bönkum og sparisjóðum landsins, skildist mjer helst á hv. 2. þm. S.-M. (SHK), að þetta frv. væri því óþarft. En jeg er alls ekki þeirrar skoðunar, þar sem nú er mjög liðið á þingtímann, og frv. þetta er ekki komið til 1. umr. í Nd. enn þá. Get jeg því búist við, eftir þeim vinnubrögðum, sem eru hjer á hinu háa Alþingi, að frv. þetta komist aldrei til þessarar háttv. deildar á þessu þingi. Annars vona jeg að allir þeir, sem telja, að bankamálin þurfi að athuga eitthvað frekar en gert hefir verið hingað til, greiði dagskrá meiri hl. atkvæði.