28.04.1923
Efri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2091)

102. mál, bankaráð Íslands

Jónas Jónsson:

Háttv. 2. þm. G.-K. (BK) byrjaði ræðu sína eitthvað á þá leið, að „höfuðið væri stærst á hverjum hrút.“ En mjer datt þá í hug gamalt málverk, sem kallað hefir verið „kjötpottur landsins“, því að þar var málaður stór hrútshaus á dýrsskrokk einn. Var skepnan svo að stangast við bitlingakollu. Býst jeg við, að háttv. þm., sem er eldri maður en jeg og mjög hlyntur listum, hafi sjeð málverk þetta, og því munað eftir hrútnum.

Þá gerði hv. þm. ráð fyrir, að þetta bankaráð, sem hjer er um að ræða, hlyti að verða verra en bankaráð Íslandsbanka er og hefir verið að undanförnu. En jeg er alls ekki þeirrar skoðunar, að bankaráð, sem skipað yrði fjármálaráðherra og fulltrúum fyrir kaupmenn, verkamenn og kaupfjelög og landbúnaðinn, gæti orðið verra en núverandi bankaráð Íslandsbanka, sem óefað er ljelegasta bankaráð heimsins.

Þá fræddi háttv. þm. deildarmenn um það, hvernig háttað væri með bankaráð í Frakklandi, og sýndi fram á, að þar væri tortrygnin svo mikil, að enginn bankaráðsmaður væri látinn hafa endurskoðun lengur á hendi en hálfan mánuð. En þetta sýnir ekkert annað en hve fáránlegt það er að gera slíkar stöður að lífstíðarembættum. Og hve varlega verður að semja við menn til þess að hægt sje að losna við þá, ef þeir reynast illa, án þess að þurfa að kaupa þá út, eins og hjer hefir átt sjer stað.

Þá sagði háttv. þm., að öll bankaráð hefðu „kritiska“ endurskoðun á hendi, og þá einnig bankaráð Íslandsbanka. En jeg mótmæli því algerlega, því að sumir bankaráðsmenn hans, eins og t. d. hv. þm. S.-M. (SHK) og fleiri, sem átt hafa heima vestur eða norður á landi, hafa aldrei dvalið hjer, aðeins komið hingað eins og gestir einstöku sinnum. Liggur því í augum uppi, að slíkir menn hafa ekki getað haft „krítiska“ endurskoðun á bankanum á hendi. Þar að auki er öll sögusögn hv. ræðumanns um, að bankaráð erlendis framkvæmi endurskoðun, tóm endileysa, sprottin af fáfræði. Hvað heldur hann um slíka endurskoðun á Landmandsbankanum?

Þá mintist háttv. þm. á sparisjóðinn á Eyrarbakka, og neitaði, að hann væri í raun og veru útibú frá Íslandsbanka. En það er sannleikur samt, þó að það sje kallaður rógur, enda eru afturhaldsmenn þingsins vanir að nefna sannleikann því nafni. Og jafnframt neitaði hv. þm. því, að sjóðurinn væri í raun og veru illa stæður. En það er fullkomlega rjett, því að sannanlegt er, að hann hafi ekki tekið sínar eigin bækur upp í skuldir. Þetta er því sannleikur, sem ekki verður hrundið.

Þá var hv. þm. að þvæla um mínar pólitísku skoðanir. En jeg þykist ekki hafa farið í grafgötur með þær, þar sem jeg hefi skrifað meira en flestir aðrir á mínum aldri, og greinar mínar hafa birst í víðlesnasta blaði landsins.

Þá fann hann mjer það til foráttu, að jeg væri kommúnisti og vildi draga of mikið fje undir íslenska bændur. Er það vel skiljanlegt hjá hv. þm., því að honum hefir fundist rjettara, að það færi til fiskhringsins, Helga Zoega, Sandgerðis-Lofts eða slíkra karla. Annars veit jeg ekki, hvernig háttv. þm. fer að samrýma það, að jeg sje kommúnisti, en vilji þó útvega bændum sem mest rekstrarfje í einkafyrirtæki þeirra, ræktunina, og aðrar framkvæmdir á jörðum þeirra.

Annars gæti það verið eðlilegt frá einu sjónarmiði að telja mig kommúnista, en þá mætti alveg eins halda, að jeg væri kapitalisti. Og það er af því, að jeg mun skilja betur hugsunarhátt annara manna heldur en títt mun vera um samkepnismennina. Jeg hefi þess vegna skilið prýðilega allan feril hv. 2. þm. G.-K. (BK) frá því fyrst að hann braust inn í Landsbankann 1909 á hátíðisdegi hv. 2. þm. S.-M. (SHK), meðan hann var í stjórn bankans, og hjelt bankanum sem næst lokuðum fyrir bændastjett landsins, og alla tíð þangað til nú, að hann er orðinn viðurkendur öreigi á gustukaeftirlaunum og skrifar laumupjesa móti kaupfjelögunum. Að jeg skil hv. þm. svona vel, er af því, að jeg er meiri sálarfræðingur en hann, sem ekkert skilur annað en pólitík öreigans með 7–8 þús. kr. eftirlaunum.