28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2100)

61. mál, samvinnufélög

Frsm. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

Áður en jeg sný mjer að sjálfu frv., vildi jeg með fám orðum leiða athygli hv. deildarmanna að því, hvernig kaupfjelögin og samvinnufjelagsskapurinn er til orðinn og athuga út frá því, hvernig afstaða þess er nú og hver áhrif það gæti haft, að breyta samvinnulögunum, eins og nú standa sakir.

Kaupfjelögin í ýmsri mynd eru, eins og mönnum er kunnugt, gamlar stofnanir hjer á landi. Þau voru upphaflega, og eru enda að nokkru leyti enn þá, knúin fram af nauðsyn bænda til að sameina sig gegn verslunarkúgun, sjerstaklega þó erlendra kaupmanna, sameina sig til að afla sjer lánstrausts og veltufjár, því eins og kunnugt er, hafa bankarnir til skamms tíma verið svo að segja lokaðir fyrir bændastjett landsins. Þegar kaupfjelögum fór að fjölga og þau stækkuðu, tók að brydda á því, að kaupstaðir þeir, sem fjelögin störfuðu í, tóku að nota sjer þau sem fjeþúfu, og það stundum allfreklega. Þá bundust bændafulltrúar samtökum um land alt og settu samvinnufjelög, og reyndust samtök þessi svo vinsæl á Alþingi, að margir fleiri en bændafulltrúar samþyktu lögin, eins og sjá má af atkvæðagreiðslunni um þau í Alþt.; efri deild afgreiddi frv. mótmælalaust, en í neðri deild voru aðeins 5 á móti.

Alþingi 1921 hafði rjettan skilning á verslunarsamtökum bænda og lýsti því nær einróma yfir stuðningi sínum við þau. En svo virðist nú, sem sumum þeim hv. þm., sem samþyktu samvinnulögin, hafi snúist hugur æði skjótlega. Að minsta kosti er það kunnugt orðið um einn þeirra, að hann hefir hafið allsvæsna árás á kaupfjelögin. Hann vill leggja Sambandið niður og kaupfjelögin í þeirri mynd, sem þau eru nú. Þessi árás er þannig vaxin, að hún hlýtur að spilla lánstrausti kaupfjelaganna, ef tekið er mark á henni; þess vegna er, eins og síðar verður tekið fram, afaróheppilegt að breyta samvinnulögunum í nokkru nú. Það kemur fram hjá ýmsum, sem hafa horn í síðu kaupfjelaganna og Sambandsins, að óvild þeirra stafar í raun og veru af því, að fjelagsskapurinn er nú sem stendur að meira eða minna leyti pólitískur. Það þarf í þessu sambandi engan dóm að leggja á rjettmæti þess; hitt hljóta allir að skilja, að verslunarsamtök bænda, og þá enda þjóðin öll, eiga ekki að gjalda þess, þótt sumum mönnum kunni að vera pólitískt illa við þá, sem við fjelagsskapinn eru riðnir. Það væri að hengja bakara fyrir smið.

Jeg þykist geta talað hjer úr flokki frjálslyndra manna, þar sem jeg hefi aldrei amast við því, að kaupmenn versluðu samhliða kaupfjelögunum. Því fer fjarri. Jeg álít það aðeins til bóta. En hins vegar vil jeg á engan hátt veikja dug og dáð bænda til verslunarsamtaka. Jeg hefði líka helst kosið, að samábyrgð þyrfti ekki að vera milli kaupfjelaganna í Sambandinu, en það var þá álitið nauðsynlegt til að efla lánstraust og tiltrú fjelaganna. Enda skal jeg lýsa yfir því fyrir mína hönd, og enda mun það álit margra í Framsóknarflokknum, að þá breytingu beri að gera, svo fljótt sem auðið er, á aðalskipulagi samvinnufjelaganna, að samábyrgðin milli fjelaganna verði leyst innan Sambandsins, og í sambandi við það mætti taka til athugunar aðrar smærri breytingar á lögunum í heild sinni.

Það skal tekið fram, að þessi skoðun mín byggist ekki á því, að jeg álíti kaupfjelögin svo fjárhagslega illa stödd, enda er það á allra vitorði, að þrátt fyrir alt, sem á hefir dunið í viðskiftaheiminum, eru kaupfjelögin þó betur stödd fjárhagslega en flest önnur verslunar- og framleiðslufyrirtæki, og er það að vonum, því áhættan er hjer minni, enda hafa kaupfjelögin unnið sjer og þjóðinni stórgagn, með því að versla nær eingöngu með nauðsynjavörur, síðan hrunið skall á.

Frv. á þskj. 91, virðist í fljótu bragði mjög meinlaust, og jeg geri ráð fyrir því, að sumir þeir, er að flutningi þess stóðu, hafi litið svo á, að það skaðaði á engan hátt kaupfjelögin, en þegar dýpra er litið, kemur það berlega fram, að þetta er skaðlegt fjelagsskapnum.

Í fyrsta lagi, eins og jeg áður hefi minst á, sakir þess, að það mundi veikja lánstraust kaupfjelaganna og Sambandsins. Árásin, sem minst hefir verið á, hefir borist í útlend blöð. Á sama hátt mætti bera þessa breytingu í erlend blöð, og myndu andstæðingar kaupfjelagsskaparins ekki kynoka sjer við að telja þessa lagabreytingu veikja hann, enda tel jeg að svo sje. Með þessari lagabreytingu er gengið í sömu átt og andstæðingar kaupfjelaganna einmitt vilja, og það er, að kljúfa fjelagsskapinn í fleiri og fleiri sjálfstæðar heildir. Það viljum við ekki; við viljum hafa hvert kaupfjelag fyrir sig sem voldugast og sterkast.

Hvað vakir fyrir kaupfjelagi því, sem hjer á hlut að máli, er mjer ekki ljóst. Við skulum segja, að í því fjelagi væru 4 deildir, A, B, C og D, og fjelagið kæmi fram sem fjelagsheild út á við. D-deildin gæti ekki staðið í skilum, þá gæti fjelagið gengið að öllum fjelagsmönnum í þeirri deild, en reyndust þeir „in solidum“ ekki borgunarmenn fyrir skuldbindingum sínum, þá lenti tapið á fjelaginu í heild sinni. Hefðu deildirnar aftur á móti ekkert sameiginlegt nema ábyrgðarlausan kaupfjelagsstjóra, þá væri hver deild kaupfjelag út af fyrir sig, en það tel jeg ekki heppilegt, eins og jeg hefi áður á minst.

Jeg þykist nú hafa með þessu svarað hv. frsm. meiri hl. (MG). Fæ jeg ekki sjeð, að nein refsing á þetta kaupfjelag, sem um ræðir, sje falin í því að fella frv., enda vakir það ekki fyrir mjer. Ef þeir vilja með þessu kljúfa fjelagsskapinn, þá þeir um það, en við getum ekki gengið inn á þá braut, að fara neitt að hrófla við fjelagsakpnum, því það er hættulegt. Hv. frsm. meiri hl. (MG) vildi fá ákveðið svar um það, hve nær samábyrgðin verði leyst upp, en það segir sig sjálft, að oss er ómögulegt að segja til þess, hve nær það verður.

Yfirleitt lítur minni hlutinn svo á, að ástæðurnar með frumvarpinu sjeu harla veigalitlar, en hins vegar svo margt og mikið, sem mælir með því, að það verði felt, sjerstaklega eins og nú standa sakir. Við væntum þess því fastlega, að hv. deild leggist á móti því, og sjerstaklega væntum við þess, að þeir hv. þingmenn, sem greiddu samvinnulögunum atkvæði sitt, ljái ekki þessu frv. fylgi sitt.