28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

61. mál, samvinnufélög

Frsm. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg hefi ekki mikla „praktiska“ þekkingu á þessum málum, enda hefi jeg ekki starfað neitt í kaupfjelögum, en jeg vil þó ræða málið lítið eitt frá lögfræðilegu og almennu sjónarmiði. Það hafa nú tveir kaupfjelagsstjórar talað í málinu og tekið í sama strenginn og jeg, og ættu þeir þó að hafa nokkra sjerþekkingu á þessum efnum. Get jeg því slept að tala um það, sem þeir tóku fram, en snúið mjer að þeirri hliðinni, sem mjer er kunnari.

Jeg vil þá fyrst taka það fram, að mjer þóttu rök hv. flm. (PÞ) heldur veigalítil og ekki alveg laus við mótsagnir. Hann margtók það fram, að ekki væri meiningin með frv. að hagga neitt við grundvelli samvinnulaganna. Það var undarlegt. Jeg sje þó ekki betur en hjer sje um að ræða nokkurskonar undanþágu frá einu aðalákvæði laganna. Það er rjett hjá honum, að hægt er að leysa hvert kaupfjelag upp í deildir. En jeg tel það ekki heppilegt, af þeim rökum, sem jeg tók fram áðan, og nenni jeg ekki að færa þau sömu rök aftur, enda er það ekki vani minn. Hv. flm. (PÞ) sagði, að sumar deildir Kaupfjelags Borgfirðinga hefðu skaðast á einstöku mönnum innan þeirra. En hann gleymdi að taka það fram eða sanna það, að þetta hefði ekki orðið, ef sameiginleg ábyrgð hefði ekki verið. Það voru þau rök, sem jeg saknaði.

Þá var hv. flm. (PÞ) eitthvað að rugla í því, að við hefðum lýst yfir því, að við vildum takmarka ábyrgðina eins fljótt og auðið væri innan kaupfjelaganna. Þetta gat hann ekki skilið, að ekki er sama hvernig samábyrgðinni er háttað. Það ætti þó að vera ljóst, að hættuminna er fyrir menn, sem þekkja vel fjárhag hver annars, að ábyrgjast hver fyrir annan, heldur en að ganga í ábyrgðir fyrir menn, sem þeir hafa hvorki sjeð nje heyrt. Af þeirri sök verður það óhyggilegt, að kaupfjelögin sjeu í ábyrgð hvert fyrir annað, Aftur á móti tel jeg rangt, að ábyrgðin inn á við verði klofin, og því ekki rjett að skifta kaupfjelögunum niður í smádeildir.

Háttv. flm. kvað Sambandinu enga hættu búna af þessari breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir. Ef svo er, þá er það af því, að hin kaupfjelögin kæra sig ekki um breytinguna. Og sje því þannig varið, að Kaupfjelag Borgfirðinga einu saman sje það kappsmál að koma þessu fram, þá sje jeg ekki betur en að heppilegasta lausnin verði að búa til sjerstaka undanþágu fyrir þetta kaupfjelag. Því hvaða ástæða væri til að breyta þessum lögum á þennan hátt, þegar auðsætt er, að ekkert annað kaupfjelag kærir sig um breytinguna?