28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (2106)

61. mál, samvinnufélög

Pjetur Ottesen:

Hv. þm. S.-Þ. (IngB) hefir nú aftur risið upp til andmæla þessu frv.

Í þessari ræðu viðurkennir hv. þm. þó heilbrigði og gagnsemi deildafyrirkomulagsins og sagði, sem rjett er, að það væri hið elsta skipulag samvinnufjelaganna hjer á landi, og skildist mjer á honum, að Kaupfjelag Þingeyinga mundi halda deildafyrirkomulaginu enn. En háttv. þm. telur það villandi hjá mjer, að þessi breyting, sem hjer er farið fram á að gera á samvinnulögunum, sje til þess að hlynna að deildafyrirkomulaginu.

háttv. þm. kemst að þessari niðurstöðu eða slær þessu fram, hlýtur að stafa af því, að hann annað tveggja gerir sjer ekki ljósa grein fyrir því, á hvern hátt deildafyrirkomulagið veitir kaupfjelagsskapnum þá tryggingu, sem hann þó viðurkennir, að það geri, hvort það er í þessu fyrirkomulagi, sem verkar þannig, eða hann vitandi vits gengur á snið við það af ofurkappi því, sem virðist í það lagt að koma þessu máli fyrir kattarnef.

Eins, og jeg tók, að jeg held, fullljóst fram áðan, er aðalkosturinn og ávinningur við deildafyrirkomulagið með sameiginlegri ábyrgð, sem takmarkast við hverja deild fyrir sig, sá, að þá er það svo vel trygt, eða hyggilega um það búið, að enginn einstakur fjelagsmaður stofnar til meiri úttektar eða skuldar við fjelagið en hann sje fær um að endurgreiða eða standa full skil á á rjettum tíma. Og slík viðskifti eru vitanlega grundvöllur heilbrigðs, og farsæls fjelagsskapar. Innan þessa þrönga hrings þekkir hver annan og hver annars hag, og þetta skapar samvinnu og samúð milli meðlima deildarinnar, til þess að styðja hver annan og hjálpa hver öðrum með ráðum og dáð, til þess að standa við skuldbindingar sínar við fjelagið, og með þessu fyrirkomulagi er ekki um aðrar skuldbindingar að ræða en þær, sem stofnað er til á skynsamlegan hátt. En sje aftur sameiginleg, ábyrgð innan alls fjelagsins, eða ótakmörkuð samábyrgð, eins og samvinnulögin gera ráð fyrir, er sú raunverulega trygging, sem deildafyrirkomulaginu fylgir, og sá upphaflegi tilgangur með því mjög skertur, alvarlega skertur, og það í verulegustu grundvallaratriðum viðskiftanna.

Að halda því fram, eins og hv. þm. gerði, að þetta sje blekking hjá mjer, þrátt fyrir það, þótt hægt sje að benda á ótvíræða reynslu í þessu efni, er vandræðafyrirsláttur og ekkert annað en óbein viðurkenning á því, að þm. lætur sjálfur teymast af ímynduðum ávinningi af hinni ótakmörkuðu samábyrgð.

En svo jeg snúi mjer að deildafyrirkomulaginu aftur, sem hv. þm. sagði, að Kaupfjelag Þingeyinga hefði, og ef til vill fleiri fjelög, sem gengist hafa undir samvinnulögin, þá held jeg nú satt að segja, að það fyrirkomulag sje ekki allskostar samrýmanlegt samvinnulögunum, eða að það mundi ekki vera hægt að praktisera deildafyrirkomulagið eins og við hugsum okkur það, svo að í fullu samræmi væri við samvinnulögin.

Því þó, til dæmis að taka, að nokkrir menn innan einnar deildar í kaupfjelagi, sem gengið hefði undir samvinnulögin, þó ákveðin væri sameiginleg ábyrgð innan deildarinnar sjerstaklega, þó þessir menn gætu ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar við fjelagið og þó hinn hluti deildarmannanna væri fullkomlega fær um að greiða alt fjeð, þá væri það gagnstætt anda samvinnulaganna, að hægt væri að ganga að þeim sjerstaklega, heldur yrði tapið að falla á alla fjelagsheildina. Jeg er ekki í nokkrum efa um, ef þetta atriði kæmi til dóms, að þá mundi dómurinn falla svo og ekki öðruvísi.

Það ætti því að vera öllum augljóst, að þetta fyrirkomulag, sem Borgfirðingar vilja hafa á sinni kaupfjelagsstarfsemi, tryggir betur en alt annað trygg og heilbrigð viðskifti, og eins og áður hefir verið lýst, byggist þetta á margra ára reynslu.

Það er því með öllu rangt, að þetta sje til að veikja lánstraust fjelagsins, heldur er það þvert á móti til að auka fjelaginu tiltrú og styrkja lánstraust þess.

Þá vildi háttv. þm. vefengja það, að Kaupfjelag Borgfirðinga hafi tekið upp í lög sin sameiginlega ábyrgð innan fjelagsins, en þetta er þó svo, og hefir fjelagið verið starfrækt á þeim grundvelli um nokkur undanfarin ár, en sú breyting var alt annað en til bóta.

Jeg held, að það sje svo ekki fleira, sem ástæða er til að svara hjá háttv. þingm.