28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2107)

61. mál, samvinnufélög

Björn Hallsson:

Það voru nokkur atriði í ræðum hv. flutningsmanna, sem þeir viku að mjer út af ræðu minni áðan, er jeg vil svara nokkrum orðum. Fyrst og fremst var það hv. þm. Mýra. (PÞ). Hann sagði það vel farið, að mótstöðumenn frv. vildu viðurkenna þörfina á breytingum á samvinnulögunum síðar; en að þá væri það þrái úr okkur að vilja ekki ganga inn á hana nú. Jeg svaraði því áðan, að við vildum innleiða takmörkuðu ábyrgðina síðar, og það sem fyrst, en að við vildum ekki samþykkja hana nú, eins og sakir stæðu, vegna þess hve tímarnir væru vondir til þess. Tel nóg gert að því undanfarið að veikja lánstraust kaupfjelaganna, þótt fjelagsmenn geri það ekki sjálfir.

Þá var það háttv. þm. Borgf. (PO), sem jeg þarf að svara, út af tveimur atriðum, sem hann vjek að í ræðu minni. Hann taldi, að Borgfirðingar væru búnir að reyna þetta ábyrgðarfyrirkomulag innanfjelags. Jeg er því að vísu ekki vel kunnugur, en hefi heyrt, að sú reynsla sje lítil og ófullnægjandi. Hann gat þess enn fremur, að Kaupfjelag Borgfirðinga hefði hallast fjárhagslega, eftir að það hefði tekið upp sameiginlega ábyrgð innanfjelags. En samkvæmt því, sem mjer hefir verið sagt af kunnugum nú um þetta, hygg jeg, að Borgfirðingar hafi aldrei breytt lögum sínum í þá átt að hafa sameiginlega ábyrgð, heldur aðeins að hver deild ábyrgðist sig sjálfa.

Þó að kaupfjelagið hafi tapað eitthvað nú á síðari árum, þá hygg jeg, að það stafi mikið af óhagstæðri verslun og viðskiftakreppu, fóðurkaupum bænda og fleiru, en eigi af ábyrgðarfyrirkomulaginu; enda mun þar ekki hafa verið um samábyrgð að ræða, hvorki innbyrðis og því síður út á við með öðrum kaupfjelögum. Hún hefir aldrei verið lögleidd hjá þessu fjelagi.

Annað atriði hjá sama hv. þm. (PO) var það, er hann sagði, að jeg hefði verið að gefa hv. frsm. minni hl. (GunnS) ofanígjöf. En það var alls ekki; jeg var ekki að bera nein vopn á hann, þó að jeg teldi óþarft að blanda deilum blaða og tímarita frá síðasta hausti inn í umr. hjer í deildinni. Jeg gat þess aðeins, frá mínu sjónarmiði persónulega. Að öðru leyti ætla jeg ekki að gera hjer upp á milli manna í þessari deilu.