28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2108)

61. mál, samvinnufélög

Hákon Kristófersson:

Jeg skal lýsa því yfir strax, að mjer er ekki vel við víðtæka samábyrgð. En þó vil jeg fara varlega í alt það, sem raskar kaupfjelagsstefnunni. Það getur vel verið, að það stafi af skilningsleysi mínu, að jeg álít þetta frv. muni leiða til þess, ef fram nær að ganga í þeirri mynd, sem það liggur nú fyrir. Jeg fæ ekki sjeð annað, ef frv. verður samþykt, og þessi fyrirhugaða breyting á samvinnulögunum nær fram að ganga, en að þá verði það til þess, að los kemur á fjelagsskapinn. Jeg get t. d. nefnt kaupfjelag, sem starfar í mínu kiördæmi. Það nær yfir aðeins einn hrepp og er í fjórum deildum. Ef þetta frv. yrði að lögum, gæti svo farið, að þar losaði hver deildin sig frá annari, og af því teldi jeg að gæti stafað mesta óreiða.

En mjer er spurn: Getur ekki hverju fjelagi stafað hætta og skaði frá óskilamönunum, þó að þetta frv. verði að lögum? (GunnS: Ómótmælanlega, hvort sem er). Jeg skal ekki segja það; jeg tel nú þennan háttv. þm. (GunnS) ekki óskeikulan í þessu nje öðru. Ef óskil verða í deildum einstakra hreppsfjelaga, koma þau þá ekki harðara niður, heldur en ef ábyrgðin nær til alls fjelagsins? Það virðist augljóst, ef hver deildin styður aðra, að þá eru það vitanlega fleiri efnamenn, sem styðja þá fátækari, og það er sú regla, sem ætti að vera innan hvers kaupfjelags. Þar með vil jeg ekki segja, að hin viðtæka samábyrgð um land alt sje hagkvæm kaupfjelagsskapnum.

Það sje fjarri mjer að ætla það um háttv. flutningsmenn þessa máls, að þeir komi fram með þetta frv. af því, að þeir sjeu fjandsamlegir kaupfjelögunum, eins og háttv. frsm. minni hl. (GunnS) leyfði sjer að segja að jeg væri, af því jeg taldi frumvarpið fara í rjetta átt að því leyti, að takmarka víðtæka samábyrgð. (GunnS: Jeg hefi aldrei sagt það). Ja, að minsta kosti hefir hann sagt það við mig privat, að jeg væri einn hinna verstu í þeirra garð.

Það sje fjarri mjer að standa á móti heilbrigðum kaupfjelagsskap; og jeg get ekki sjeð, að samábyrgð innan smærri fjelaga megi ekki koma mönnum að gagni, þar sem hver þekkir annan, án þess að þeim þurfi að standa hætta af. Þó sje jeg ekki annað en öllu sje fullkomlega borgið, fjárhagslega sjeð. Alt öðru máli er að gegna, ef ábyrgðin næði svo að segja yfir alt land, eins og hin svokallaða samábyrgð nær. Kaupfjelagi í Barðastrandarsýslu, t. d., er ókunnugra fjelögum á öðru landshorni heldur en meðlimum sínum innan kaupfjelagsins. Þar af leiðandi er sú samábyrgð ólíku hættuminni en þegar hún nær yfir land alt. Þá veltur mest á forstöðumönnunum, og verður að treysta drengskap þeirra, ef þetta á að vera óhætt. Eftir því sem ábyrgðarhringurinn er minni, koma óþægindin á færri herðar, eins og gefur að skilja. Skuldir geta safnast af óhagstæðum tímum og verið eðlilegar. Jeg skil þá ekki tilgang og hugsunarhátt samvinnustefnunnar, ef hún á ekki að styðja gegn ósjálfráðum óhöppum, en sporna við vísvitandi hirðuleysi. Ef einn vill ekki hjálpa öðrum, þá fer að verða lítið úr samvinnunni. Því að skoðun samvinnumanna ætti að vera sú, að þeir sterku eigi að styðja þá veiku, þ. e. a. s. hinir efnuðu hina fátæku. Það virðist mjer helst mega verða með þeim hætti, að hver ábyrgist fyrir annan, svo lengi, sem skynsamlegt mætti heita, miðað við efnahag hvers eins.

Jeg get vel skilið hv. þm. Borgf. (PO), að hver og einn eigi að bera ábyrgð sinna eigin gerða og eigi stofna til skulda á ábyrgð fjarlægra manna, því vitanlega er þetta að nokkru leyti rjett. En á að útiloka menn frá því hagræði, sem kaupfjelagsskapurinn heimilar, ef menn komast ekki hjá að skulda af eðlilegum ástæðum? Aftur á móti fæ jeg ekki skilið, að það sje rjett hjá þeim háttv. þm., sem því halda fram, að þetta frv., þótt fram nái að ganga, skaði á nokkurn hátt Sambandið. En það getur orðið fjelögunum sjálfum til óheilla og valdið sundrung innan þeirra, þannig að þeir efnameiri og sterkari klofni frá þeim fátækari, og geti þannig unnið góðu máli stórskaða.

Jeg hefi litið svo á, að kaupfjelög, kaupmenn og útgerðarmenn ættu að vera óáreittir hver af öðrum hver í sínum verkahring, og best færi á, að sem mestur friður væri milli allra atvinnu- og iðnrekenda í landinu. En illu heilli eru verslunarmál landsins orðin argasta pólitík.

Öll óhöpp, sem að atvinnuvegunum steðja, hvort sem þau stafa af slæmu tíðarfari, viðskiftakreppu o. fl. þ. h„ eru ógæfa, sem ekki má saka málefnin eða starfsemina um.

Vænti jeg svo, að þessi orð mín gefi ekki tilefni til andsvara, enda vona jeg, að þeim hafi verið svo í hóf stilt, að enginn finni sig móðgaðan.