14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2120)

61. mál, samvinnufélög

Jakob Möller:

Jeg get ekki gert hv. þm. Mýra. (PÞ) aðra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls en þá, sem jeg áður hefi gert í ræðu minni. Mjer finst afstaða mín líka að öllu leyti skiljanleg og fult samræmi í því, að þeir menn, sem upphaflega voru andstæðir ívilnun samvinnufjelaganna, sjeu það enn þá. Hinu játa jeg, að úr því einu fjelagi hafa verið veitt þessi rjettindi, þá sje sanngjarnt, að önnur fjelög fái þau líka. En jeg er og hefi verið stefnunni mótfallinn, og mun því skorast undan að greiða atkvæði í málinu. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Mýra. (PÞ) sagði, að fjelagið hefði lengst af starfað með takmarkaðri ábyrgð, skal þess getið, að jeg hefi þó skilið orð hans svo, að ábyrgðin hafi verið ótakmörkuð út á við, að minsta kosti hin síðari árin, og jeg sje ekki betur en svo verði að vera framvegis, ef fjelagið ætlar að halda áfram að starfa sem ein heild út á við.