12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2126)

58. mál, kosningar til Alþingis

Þorleifur Jónsson:

Það getur verið, að þörf sje á að lengja frest þann, sem kjörstjórn er skylduð að bíða á kjörstað, þar sem hann er nú minst 3 stundir. En mjer finst þetta frumvarp ganga of langt, er það ákveður frestinn 3 daga; því ef veður hamlar ekki, kæmu allir á sama degi, er hafa ætlað sjer að kjósa, og það þótt langt sje sótt hjá sumum. Þyrfti því ekki lengri frest en sólarhring. En það er önnur athugasemd, sem jeg vildi koma með í þessu sambandi. Jeg teldi rjett, ef hægt væri að skifta víðlendum hreppum þannig, að þar væru 2 kjörstaðir. Jeg þekki t. d. einn hrepp á Austurlandi, þar sem er alt að dagleið til kjörstaðar, enda kjörstaður á öðrum enda hreppsins, og erfitt yfirferðar að auki. Það hefir og komið til orða, að breyta lögunum þannig, að kjörfundur yrði haldinn í hverri kirkjusókn, og í þessum hreppi, sem jeg gat um, eru tvær sóknir. Tel jeg þetta vera meiri rjettarbót en þótt kjörstjórn sæti marga daga á kjörstaðnum, og vil jeg benda nefnd þeirri, er um frv. þetta fjallar, á þetta atriði.