12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2127)

58. mál, kosningar til Alþingis

Eiríkur Einarsson:

Jeg vil með fáum orðum láta skoðun mína í ljósi um mál þetta. Ræða hv. þm. A.-Sk. (ÞórlJ) sýndi það best, að hugir manna hneigjast hjer í ýmsar áttir, og er jeg hvorki honum nje hv. flm. (BJ) fyllilega samdóma, þótt báðir vilji rjettarbót í þessum efnum, er jeg einnig tel nauðsynlega. Jeg álít, að það sje í alt of mikið lagt, að kjörstjórnir sitji 3 daga á kjörstað; er það bæði of mikið starf og umstang fyrir kjörstjórnirnar, og auk þess kostnaður nokkur við það. En jeg er samþykkur að lengja kosningarathöfnina eitthvað, og að því er sveitirnar snertir, ætti tveggja daga seta á kjörstað að vera nægileg. Ekki er fullnægjandi, að skifta viðlendum hreppum í 2 kjörþing, þar eð kosningar fara fram á haustdegi, og allra veðra er von á þeim tíma árs, og getur oft hent, að fólk komist ekki á kjörstað þann daginn, þótt skamt hafi til að sækja, og þá ætti 2 daga seta kjörstjórnar á kjörstað að gefa mönnum nægilegt svigrúm til að ná þangað og greiða atkvæði. Vil jeg og gera það að tillögu minni, og skjóta því til nefndar þeirrar, er þetta frv. fær til meðferðar, að kjörtíminn síðari daginn sje hafður talsvert styttri en fyrra daginn; ætti það að nægja, því að flestir munu koma fyrri daginn, nema verulega vont sje í veðri, eða sjerstakt annríki eða erfiðar ástæður, og álít jeg því þessa stefnu heppilegri en það, sem hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) lagði til. Það dugir litt, þótt 2 kjörstaðir sjeu í sveit, ef veðrið er hálfófært, en þó ekki svo, að kosning farist fyrir; meiri trygging er í því, að kjósendur eigi rjett á að neyta atkvæðisrjettar síns næsta dag, ef betur gefur þá, og eru það einatt eigi síður veður en vegalengdir, er hamla lasburða fólki og konum að ferðast á haustdegi.