07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

58. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Eins og hv. deildarmenn muna, þá var þetta frv. látið ganga óútrætt til 3. umr., í því skyni, að biða eftir brtt., sem í ráði var, að kæmu fram við það. Þarf jeg ekki nú að fara út í neinar umræður um málið, en get látið mjer nægja að vísa til þess, sem jeg sagði um það við 2. umr. Komnar eru hjer fram brtt. við frv. En sökum þess, að þeim var ekki útbýtt nægilega snemma, þá hefi jeg ekki haft tíma til að bera þær undir hv. samnefndarmenn mína. Jeg skal þá segja um þær það, sem mjer þykir sjálfum vera, og jafnframt það, sem jeg get helst getið mjer í hug hv. samnefndarmanna minna.

Jeg vil þá fyrst geta um brtt. hv. þm. Dala. (BJ), á þskj. 576, að jeg get gengið inn á þær, ef allar hinar till. hans falla burtu. Mun jeg greiða þessum 2 brtt. hans atkv., ef þær eru fram bornar sem varatill. En ef hitt er meiningin, að kosning standi í 2–3 daga, og svo auk þess jafnlengi á dag og brtt. segja, þá mun jeg ekki sjá mjer fært að greiða þeim atkv. En jeg hafði skilið hv. þm. Dala. (BJ) svo, að þessar till. ættu að skoðast sem varatill., og mun jeg greiða þeim atkv. með það fyrir augum.

Þá skal jeg einnig taka það fram, að jeg hefi ekkert að athuga við brtt. á þskj. 581. Býst jeg við, að hún hafi mesta þýðingu hjer í Reykjavík. Mun með þessu vera hugsað til að reyna að draga úr þeirri atkvæðasmölun bifreiðanna, sem átt hefir sjer stað hjer við undanfarnar kosningar. Hefir það verið næsta ófagur leikur, og lítill skaði, þótt skotið yrði loku fyrir hann eða dregið úr honum eins og hægt er.

Um brtt. á þskj, 579 vil jeg geta þess, að jeg býst við, að hún verði óþörf, ef till hv. þm. Dala. (BJ) ná fram að ganga. Geri jeg ráð fyrir, ef svo fer, að hv. 2. þm. Reykv. (JB) sjái sjer fært að taka hana aftur.

Það, sem jeg vil þá vera láta í þessu máli, er það, að samþyktar verði þessar 2 brtt. hv. þm. Dala. (BJ) og ásamt þeim brtt. á þskj. 581, og svo ekkert meira. Vil jeg fella allar hinar brtt., og svo frv. að öðru leyti en þessu.