30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2154)

149. mál, löggiltir endurskoðendur

Flm. (Bjarni Jónsson):

Tjón einstakra manna, fjelaga og stofnana á fyrirtækjum er að sjálfsögðu runnið af margvíslegum rótum. Óhepni og áhrif umheims, svo sem verðlag og samkepni, verður jafnan þyngst á metunum hjá mönnum. En þó eru margar aðrar öflugar orsakir til ófarnaðarins, er mönnum verður eigi jafnljúft að viðurkenna sem hinar fyr töldu. Eru þar vanþekking og óorðheldni einna þyngstar á metunum. En auk þessara orsaka eru tvær miklar og affararíkar, sem nálega aldrei er minst á og ekkert er gert til að afstýra. Þar tala jeg um trúgirni og tortrygni. Trúgirnin veldur því, að oft og einatt komast óviturleg hættufyrirtæki á stofn, er hljóta að hrynja um koll og reita af fjelagsmönnum eignir þeirra og vinna alþjóð manna hið mesta mein og ógagn með því. En tortrygnin verður oft til þess að koma í veg fyrir góð og viturleg fyrirtæki og verður mörgum manni og margri stofnun að fótakefli.

Þess vegna er hin mesta þjóðarnauðsyn, að menn geti með nokkurri vissu vitað, út í hvað þeir ganga og sannfærast um, að tortrygni sje rjett eða röng. Til þess er nú einmitt stofnað með þessu frv.

Árið 1914 komst þetta frv., svo sem það er nú, gegnum Nd. Og sjá menn, að hjer er farið fram á heimildarlög, en upprunalega vildi jeg láta þetta vera lagaboð, að hafa eiðsvarna og lögskipaða kunnáttumenn til þess að endurskoða. Mundu öll viðskifti manna og allur atvinnurekstur miklu öruggari en nú er og rógberum óhægra um vik að bera menn og fyrirtæki rógi, því að þær öldur mundu brotna á hinum lögskipuðu endurskoðendum.

Auk þessa mundi leiða af þessari ráðstöfun, að menn yrðu gætnari í meðferð sinni á almenningsfje. Jeg gæti vel trúað því, að sparisjóðir, bankar, verslunarfjelög, kaupfjelög og samvinnufjelög o. fl. hefðu orðið varkárari í ráðstöfunum sínum en reynst hefir, ef þetta kerfi lögskipaðra manna hefði verið fast orðið og reynt í landinu. Vildi jeg hjer mega taka til dæmis Sambandið, því að það fer með fje allflestra bænda og skamtar þeim verð á útfluttum vörum og aðfluttum. Þess vegna er mjög mikið undir því komið, að fjelagsskapurinn stofni sjer ekki í óþarfan kostnað, því að alt tjón af slíkum hlutum lendir á bændum landsins og lækkar vöruverð þeirra, eða hækkar erlendu vörurnar. Nú er mönnum kunnugt um, að þessi fjelagsskapur reisti afarmikið hús fyrir nokkrum árum á dýrasta tíma og á dýrri lóð. Er mjer sagt, að húsið hafi kostað 315000 kr., en lóðin umhverfis það (hún er stór) 360000 kr. þetta verður samtals álitleg fúlga, 675000 kr. Til skatts er þetta hús nú metið 331200 kr., og er því verðfallið þegar orðið 3438001 kr. Er það hreinn skaði, og kemur aldrei aftur, Ólíklegt þykir mjer, að fjelagið hefði ráðist í slíkt fyrirtæki, ef hjer hefðu verið lögskipaðir endurskoðendur.

Þessu fyrirtæki má þó segja ýmislegt til varnar. En annað fyrirtæki sama fjelags er svo vaxið, að því verður engin bót mælt. Það er svo vaxið, sem nú skal greina. Sambandið tók upp á því fyrir nokkrum árum að setja á stofn verslunarskóla. Þó var þá annar verslunarskóli fyrir, og var sá miklu betri en Sambandið gat vænst af sínum skóla, því að fyrir honum átti að standa maður, sem hafði eigi minstu nasasjón af verslunarþekkingu. Þó að þar kenndu ýmsir góðir menn, svo sem þeir Jón Guðmundsson og Einar Jónsson, þá hlaut þó skólinn að verða snögt um lakari en hinn, sakir þess, hve ljeleg var forstaðan. Það er nú sagt, að þá er Sambandshúsið var í smíðum, hafi það átt að verða aðeins tvær hæðir, en þá hafi skólastjóri þessi talið stjórn Sambandsins á að setja þriðju hæðina ofan á handa skólanum og formanni hans. Er það allmerkilegt að líta á kostnað Sambandsins af þessu skólahaldi, bæði undan og eftir flutningi hans á aukahæð sína í Sambandshúsinu. Árið 1918–1919 var skólinn í húsi íðskólans, og auk þess var eitt kaffikvöld í viku í Goodtemplarahúsinu. Þá er reikningurinn svo:

Kenslulaun kr. 4976,00

Húsnæði, ljós, ræsting, hiti — 985,00

Ýmislegt — 243,78

Samtals kr. 6204,78

Af þessu fjekk skólastjóri þá aðeins 3000 kr. fyrir 18 stunda kenslu á viku og engin fríðindi önnur.

En árið 1919–1920 er skólinn orðinn töluvert dýrari samkvæmt reikningi 11. maí 1921:

Kenslulaun kr. 23079.00

Bækur og áhöld — 4872.00

Húsaleiga, ljós hiti, ræst-

ing — 5867.00

Samtals kr. 33818,00

Þar af komu 7000 kr. úr ríkissjóði. Þetta árið var skólinn sumpart í íðskólahúsinu, en að nokkru í Sambandshúsinu, en skjólastjóri mun nú hafa haft 9000 kr. í laun. Skólinn hefir þá kostað sambandið 26818 kr. þetta árið.

Næsta ár er reikningurinn sem hjer segir:

Kenslulaun ... kr. 17890.00

Húsaleiga, ljós, hiti, ræsting — 15423.44

Samtals kr. 33313.44

Þar af 7000 kr. úr ríkissjóði, en úr sambandssjóði 23612.44 kr. Nú kendi skólastjóri 12 stundir á viku, en hafði 9000 kr. laun, og auk þess ókeypis húsnæði, ljós, hita og ræsting, eða helminginn af 15423.44 kr., alls 9000 kr + 7711.72=16711.72 kr. Sami maður hefir og fengið 6000 kr. í ferðastyrk og fleira.

Margt af þessu mætti verja, ef hjer væri um góða og nauðsynlega stofnun að ræða. En þar sem skólinn er bæði ljelegur og gersamlega óþarfur, þá er hjer mjög óviturlega að farið. Jeg hefi því rakið þetta dæmi svo náið, til þess að gera mönnum ljóst, hversu mikil þörf er á lögskipuðum endurskoðendum. Þeir mundu hafa aftrað þessum aðförum í upphafi.

Jeg hefi valið þessi dæmi, sjerstaklega skólann, sakir þess, að þau sýna svo átakanlega sem verða má nauðsyn þess, að röksamleg endurskoðun fari fram árlega á stórum fyrirtækjum, sem fara með almenningsfje. Og auk þess er það hin mesta nauðsyn, að þetta fyrirtæki, Sambandið, sje rekið með allri gætni og hagsýni, þar sem mikill þorri bænda í landinu á alt sitt undir því, að hjer sje vel með farið. Væri og skaði, ef sá stórhugur og áræði í sjálfsbjargarviðleitni bænda fengi ekki að njóta sín, sem kemur fram í verslunarsamtökum þeirra. En jeg hefi ekki valið þessi dæmi af þeirri ástæðu, að þau sjeu einsdæmi, það er að segja að undanteknum amtmanninum, skólanum. Því er miður, að víða er svipað, ef leitað er, bæði hjá einstaklingum, fjelögum og ríkisfyrirtækjum. Því að sannast sagt hefir eigi annað verið sýnilegt hin síðustu ár en að menn hefðu gleymt að reikna. Hitt vita allir, hversu skaðlegt er að leggja stórfje í handahófsfyrirtæki.

Jeg vænti því, að hv. þingmenn sjái, að slík stjett manna, sem frv. þetta ræðir um, mundi verða einskonar brimbrjótur í ölduróti ógætilegra fyrirtækja, og leyfi frv. að ganga rjetta boðleið gegnum allar fyrirskipaðar umræður í þinginu og geri það að lögum.

*Þar af á húsinu 315000–114800=200200 krónur.