30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2155)

149. mál, löggiltir endurskoðendur

Þorsteinn Jónsson:

Eftir að hafa heyrt framsöguræðu hv. þm. Dala. (BJ), hefi jeg fulla ástæðu til að ætla, að þetta frv. sje flutt í alt öðrum tilgangi heldur en búast má við af að lesa það. Það lítur í raun og veru fremur sakleysislega út. En samkvæmt framsöguræðu þessa hv. þm. er það ljóst, að þetta er ákvarðað sem áframhald þeirra árása, er fyrir nokkru voru gerðar á Samband íslenskra samvinnufjelaga. En um leið og það er árás á Sambandið, hlýtur það fyrst og fremst að vera árás á fyrv. forstjóra þess, sem nýlega er fallinn í valinn.

Það mæltist illa fyrir, þegar annar háttv. þm., sem sæti á í Ed., hóf sína alræmdu árás síðastliðið haust á Sambandið. En því ver mun þessi árás mælast fyrir, sem það þykir vera ódrengilegra að níða látna menn en lifandi. Og eigi síst, þegar sá maður, sem hjer um ræðir, var álitinn vinna þjóðinni meira gagn en nokkur annar núlifandi maður. Eins og jeg tók fram, eru þessar árásir á Sambandið vitanlega ekkert annað en árásir á fyrverandi forstjóra þess.

Háttv. þm. las hratt upp ræðu sína, er hann hafði skrifaða, og þar á meðal margar tölur, til að sýna ágæti þessarar árásar sinnar; en þar sem hann bar svo hratt á, náði jeg ekki nema nokkrum af tölunum. Hús og lóð Sambandsins sagði hann að hefði kostað 675000 kr. En samkvæmt fasteignamati væri hvorttveggja ekki virt nema 331200 kr. Mismuninn á kostnaðarverði og fasteignamatsverði, 343800 kr., telur hann svo vera beinan skaða fyrir Sambandið. En nú er öllum ljóst, að fasteignamatið er ætíð miklu lægra en það verð, sem eignirnar ganga fyrir kaupum og sölum. Fasteignir eru nú oft seldar helmingi hærra verði en þær eru metnar.

Hjer er því ekkert annað á ferðinni en áframhald af þeim blekkingartilraunum, sem jeg áður drap á.

Þá kom hv. þm. að öðrum lið framkvæmdamála Sambandsins og rjeðst á skóla þann, sem Sambandið heldur uppi til þess að auka þekkingu landsmanna á samvinnumálum og búa menn undir að veita samvinnufyrirtækjum forstöðu. Taldi hann forstöðumann skólans alls óhæfan til að standa fyrir slíkum skóla og kvað hann bresta alla þekkingu á þeim málum. Hann vildi gera skólakostnaðinn að mikilli grýlu. Um þann kostnað hefi jeg ekki gögn nje skýrslur í höndum nú, og veit því ekki hvort hv. þm. hefir farið þar með rjettar eða rangar tölur. Þó að skólinn hefði kostað 33 þús. kr. á ári síðan 1919, þá hefði þm. ekki talið það gífurlegan kostnað, ef önnur fyrirtæki hefðu átt í hlut. Þó hann sje að reyna til að gera mikið úr, að skólinn sje bæði óþarfur og dýr og að illa sje farið með það fje Sambandsins, sem skólinn fær til afnota, þá finnur hann engan staf til sönnunar þessum framburði sínum.

Hv. þm. segir, að skólastjóri samvinnuskólans hafi haft 9000 kr. laun árið 1919, en það eru ósannindi, svo sem jeg vonast eftir, að geta sannað síðar. En við skulum nú láta þetta heita svo í bráðina, eins og hv. þm. vill vera láta; en í því sambandi væri vert að líta á, hvað þessi þm. hefir sjálfur haft í laun 1919. Jeg hygg, að gera megi ráð fyrir og láti nærri, að hann hafi haft helmingi meiri laun, að meðtöldum öllum bitlingum.

Þá kemur hv. þm. að því að sýna fram á hina óhóflegu eyðslu á fje Sambandsins á stjórnarárum Hallgríms Kristinssonar, t. d. að veittur hafi verið 6000 kr. utanfararstyrkur til skólastjórans; en þetta er ósatt. Hitt veit jeg, að hann var tvisvar sendur utan í nauðsynjaerindum Sambandsins. Um kostnaðinn við þær ferðir veit jeg ekki með vissu; en hitt veit jeg er rangt, að hann hafi fengið styrk til utanfarar í eigin erindum.

Enn fremur sagði hv. þm., að samvinnuskólinn væri ljelegri en verslunarskólinn, af því að forstaðan væri verri. En jeg vænti þó, þrátt fyrir þessa sleggjudóma þingmannsins, að hann mætti þakka fyrir, þegar ganga hans er öll, ef um hann yrði sagt, að hann hefði rækt störf sín eins samviskusamlega og skólastjóri samvinnuskólans hefir rækt sín störf.

Eitt var það, sem mjer kom dálítið á óvart. Jeg hefi álitið hv. þm. Dala. (BJ) drengskaparmann, en nú verð jeg að draga það mjög í efa, þar sem hann hefir kastað skugga á látinn mann, sem var einn af hinum allra þjóðnýtustu mönnum og naut fylsta heiðurs landsmanna. petta tel jeg ódrengilegt.

Og þar sem hv. þm. taldi þessu frv. aðallega beint til Sambandsins, þá vænti jeg, að hv. deild meti þessa árás hans að verðleikum, með því að fella þetta frv. hans nú þegar við þessa umr.