30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2157)

149. mál, löggiltir endurskoðendur

Þorsteinn Jónsson:

Það er gleðilegt, að hv. flm., þm. Dala. (BJ), er búinn að taka mikið aftur af því, sem hann bar hjer fram í deildinni í hinni skrifuðu árásarræðu sinni. Hann sagði t. d. um sumar tölurnar, að þær væru áætlunartölur. Þá má eins gera ráð fyrir, að þær sjeu það allar. Jeg er ekki sjerlega hræddur um, að margir af deildarmönnum hafi tekið mark á þessum ræðum hv. þm. Dala. (BJ) og árás hans á forstöðumenn Sambandsins. Því að um leið og hún er gerð á hendur Sambandsfjelögunum, er hún einnig gerð á stjórn Sambandsins og fyrverandi framkvæmdarstjóra. Og þó að hann haldi áfram að afsaka sig, þá hefir hann hjer gert það frumhlaup, sem er óbreytt framhald samskonar árása og annar hv. þm. hóf á síðasta hausti. Hv. þm. (BJ) finst það ekki vera árás á gerðir þess manns, sem var forstjóri Sambandsins, þótt hann segi, að farið hafi verið með fjármál þess í mestu óreiðu; að ráðist hafi verið í mjög óheppileg lóðarkaup og húsbyggingu; að einni stofuhæð hafi verið bætt við húsið, aðeins vegna eins manns, og að stofnaður hafi verið og starfræktur algerlega óþarfur skóli, á sama hátt fyrir þennan eina mann. Svona gengur hv. þm. (BJ) langt í ákúrum sínum í garð látins manns, þótt hann nefni ekki nafn hans. Það er sjálfsagt öllum vel ljóst, að framkvæmdir Sambandsins gengu ekki eftir ósjálfráðri vjel á síðari árum. Það var vandlega um þær hugsað og fyrirfram útreiknað og ákvarðað af framkvæmdarstjóranum sjálfum.