10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

2. mál, sýsluvegasjóðir

Einar Þorgilsson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra (KIJ) hefir rakið sögu þessa máls hjer í þinginu svo vel og greinilega, að jeg tel mig ekki þurfa neinu við að bæta. En nefnd þeirri, er væntanlega kemur til að fjalla um málið, vildi jeg mega benda á galla þá, sem mjer hefir frá upphafi sýnst vera á frv. Þar er gert ráð fyrir, að gjaldið eða gjaldstofninn hvíli á fasteignaeigendum eingöngu. En það er sýnilegt órjettlæti. Í öllum hjeruðum eru nefnilega færri eða fleiri efnamenn, sem ekki eiga fasteignir. Gæti jeg trúað, að þetta atriði komi mikilli óánægju af stað, næði það fram að ganga. Á þetta vil jeg benda nefndinni, þótt jeg, nú sem stendur, komi ekki auga á neinar sjerstakar leiðir til rjettingar þessum og öðrum göllum frv.

Um það, hvort frv. yrði í heild sinni til bóta, má auðvitað þrátta. Að minsta kosti hefir verið litið misjöfnum augum á það á þeim þingmálafundum, sem jeg hefi átt með kjósendum mínum. — Bragarbót virðist þó að því, þar sem sýsluvegagjöld eru mjög há.