04.04.1923
Neðri deild: 33. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2188)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Þorleifur Jónsson:

Eins og hv. frsm. stjórnarskrárnefndar (MG) skýrði frá, og sjest af nál., höfum við 4 nefndarmenn getað fylgst að í því að fækka þingum, þannig, að þing verði lögbundið aðeins annaðhvert ár.

Það er aðallega af sparnaðarástæðum, að jeg gat aðhylst þá tillögu. Þingin eru mjög dýr. Maður bjóst við, þegar þetta ákvæði var sett 1919, að þingin yrðu mun styttri, ef þau yrðu á hverju ári. En reynslan sýnir, að úr þeim hefir tognað fyrir því, þótt haldin hafi verið á hverju ári, og að þau hafa ekki orðið ódýrari en áður, enda hefir dýrtíðin verið mikil síðan þetta ákvæði var sett. Þjóðin stynur undan gjöldum við stjórnarkostnaðinn, og hún þarfnast sparnaðar þar, svo sem unt er og um munar að einhverju verulegu. Þótti oss verða mundu sparnaður að því að fækka þingunum og hafa þau ekki nema annaðhvert ár. Er jeg ekki hræddur um, að það hafi neitt ill áhrif á stjórnarfarið, þótt þetta gamla fyrirkomulag verði tekið upp aftur.

Þá ætla jeg að víkja að brtt. okkar hv. þm. S.-Þ. (IngB). Við gátum fylgt því, að þingum yrði fækkað af sparnaðarástæðum, en við getum ekki sjeð, að nokkur verulegur sparnaður yrði að því, þótt ráðherrum yrði fækkað ofan í einn. Þess vegna leggjum við til, að svo búið standi með tölu ráðherra sem nú er. Þótt ráðherrum yrði fækkað, svo sem frv. fer fram á, þarf enginn að búast við, að við það sparist tvenn ráðherralaun. Nei, það myndi verða að setja á stofn landritaraembætti, eða eitthvert embætti, sem svaraði til þess, og þyrfti að launa það eins hátt, svo að í mesta lagi myndu sparast laun eins ráðherra.

Landritarinn, eða hvað hann nú hjeti, þessi embættismaður, er í staðinn kæmi, myndi hafa nokkurskonar ráðherravald, en hefði þó enga ábyrgð fyrir þingi. Við hefðum í raun og veru tvo ráðherra, en annan þeirra fastan embættismann, sem ekki hefði stjórnskipulega ábyrgð. Jeg held, að það fyrirkomulag yrði ekki betra en það, sem nú er.

Þá er líka aðgætandi, að ef svo færi, að þingum yrði fækkað, mundi oft koma til stjórnarinnar kasta að ráða fram úr ýmsum vandamálum milli þinga, upp á sitt eindæmi, og jeg hygg, að þá yrði betra, að þrír en einn færu með völdin, og bæru ábyrgð gagnvart þingi og þjóð.

Yfir höfuð held jeg það, að nú orðið sjeu þjóðmálin orðin svo margbreytt, að oflagt sje á herðar eins manns að hafa forustu þeirra, og jeg hygg, að sá maður þyrfti að sjá flest með annara augum. Aðalverk hans yrði að undirskrifa það, sem haugaðist til hans og undirmenn hans kæmu með, og það líklega flest ólesið. Að lagasmíði býst jeg ekki við, að hann gæti unnið neitt að ráði, og hann þyrfti að vera fjölhæfur mjög, ef hann ætti að geta sett sig inn í hina margvíslegu málaflokka.

Tökum t. d. á þingi. Þá þyrfti hann að geta fylgst með og svarað til alls í öllum greinum atvinnumála, fjármála, samgöngumála, dómsmála, kirkju- og kenslumála o. s. frv., o. s. frv. Jeg held, hvað sem öðru líður, að um þingtímann mætti þetta engin liðleskja vera. Það er ekki nóg að mæta aðeins í þinginu, heldur verður hann að vera reiðubúinn að svara fyrirspurnum, og stjórn og nefndir þingsins þurfa oft að talast við. Yrði hann því að mæta oft á nefndafundum og ráðgast við þær. Hann yrði yfir höfuð að vera alt í öllu og svara til svo og svo margs. Þetta yrði erfitt, ef í lagi ætti að vera. Máske gæti afburðamaður komist fram úr því fá ár eða svo, en það yrði mikið strit og slit. Af þessum ástæðum hefi jeg þá trú, að stjórn landsins sje betur komin í höndum tveggja eða þriggja ráðherra en eins, en ekki af því, að jeg sje hræddur við neitt einveldi, eins og hv. 1. þm. Skagf. (MG) drap á.

Því hefur verið haldið fram, að einveldi hafi ekki Jafnan þótt slæmt áður fyr. Jeg skal ekki neita því, að ýmsir einvaldar voru afburðamenn, er þjóðirnar gátu sætt sig við. En mönnum geðjaðist þetta fyrirkomulag ekki til lengdar, og jeg efast um, að það sje nú eftirsóknarvert.

En þetta er þó ekki aðalmótbára mín gegn fækkun ráðherra, heldur hitt, að jeg tel það ærið starf fyrir 3 merin að hafa á hendi stjórn landsins og forystu í þjóðmálum. Að vísu hefur hv. frsm. (MG) verið sjálfur í stjórn, og gætu menn því vænst þess, að hann væri öðrum fremur kunnugur þessum störfum. En mjer finst almenn skynsemi bendá í öfuga átt: að 3 ráðherrar muni hafa nægilegt að starfa og að starf þeirra sje svo nytsamt, að það borgi sig beinlínis að hafa slíka forystumenn fyrir öllum framkvæmdum.

Sumir líta svo á, að það væri þó betra, kostnaðarins vegna, að spara ein ráðherralaun og láta ráðherra vera einungis 2. Þeim, sem er ant um þetta, vil jeg benda á, að til þessarar fækkunar þarf ekki stjórnarskrárbreytingu, heldur má ákveða hana með einföldum lögum. Og þessi fækkun gæti verið umtalsmál.

Jeg vil því leyfa mjer að halda því að hv. deild, að hún samþykki brtt. okkar hv. þm. S.-Þ. (IngB) á þskj. 151 og fylgi því, að þingum verði fækkað, eða að það verði tekið út úr stjórnarskránni, að þing sje haldið árlega. Það getur ekki orðið til hins verra, því að ef eitthvað sjerstakt kemur fyrir og stjórnin sjer sig knúða til að kalla saman aukaþing, getur hún auðvitað gert það, svo sem títt var áður, meðan regluleg þing voru einungis annaðhvert ár. Hjer er ekki á neinn hátt bannað að gera það.

Ýmsir menn hafa haft það á móti fækkun þinga, að auðveldara væri að semja fjárlög fyrir 1 ár heldur en 2. Það er rjett, að svo gæti litið út. En þó að styttra sje að spá fram í tímann, þá. er það svo með núverandi tilhögun, að fjárlögin verða altaf spádómur, eða sjerstaklega tekjuhliðin, og hefir það þá ekki svo mikla þýðingu, hvort spáð er 1 eða 2 ár fram í tímann. Það hefir þegar komið í ljós, að ýmsar nauðsynlegar fjárveitingar hafa ekki verið teknar upp í fjárlögin, og þarf því að bera fram aukafjárlög, og sú mun verða raunin á, að þó að þing verði framvegis á hverju ári og fjárlög samin til 1 árs í senn, mundi þurfa að samþykkja fjáraukalög á hverju þingi.

Að þessu sinni skal jeg ekki fara mikið út í brtt. háttv. þm. Str. (MP). Aðeins skal jeg víkja að því, að hann ljet þess getið, og lagði mikla áherslu á, að vjer nefndarmenn hefðum bundist samtökum um að taka ekki rökum. Vjer höfum engum samtökum bundist um að varna því, að brtt. komi fram, enda var það ekki hægt. En í nál. stendur, svo sem rjett er, að 4 nefndarmenn ætli ekki að koma fram með frekari brtt. en þar greinir, því að við álítum, að víðtækari breytingar gætu valdið því, að alt málið kæmist á ringulreið.

Jeg skal svo láta staðar numið, en vænti þess fastlega, að hv. deild fylgi brtt. okkar á þskj. 151.