06.04.1923
Neðri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Ingólfur Bjarnarson:

Það eru bara nokkrar skýringar, sem jeg vildi gefa. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) gaf í skyn áðan, að mótbára okkar hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) gegn því að hafa aðeins 1 ráðherra, hefði verið í því fólgin, að við teldum, að af því mundi leiða einhverskonar einveldi, sem við hefðum óttast mjög. Þetta er ekki alls kostar rjett skilið eða frá skýrt. Aðalástæða okkar fyrir því að vera á móti ráðherrafækkuninni var auðvitað sú, að með þessu fyrirkomulagi hlyti að verða lakar sjeð fyrir framkvæmdum stjórnarinnar og starfsemi yfir höfuð en verið hefir, sem vitanlega er svo margháttuð, umfangsmikil og vandasöm, að ofætlun væri einum manni að inna það alt af hendi. Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) hefir annars skýrt þetta til hlítar, og get jeg því slept því að fara ítarlegar út í það. Hinu hjeldum við að vísu fram jafnhliða, að ef þingum yrði fækkað, þá yrði því fráleitara að hafa aðeins einn ráðherra, bæði sökum aukinna stjórnarstarfa, sem af þingafækkuninni leiddi, og svo hins, að af henni leiddi einnig aukið stjórnarvald, sem hæpið væri að telja heppilegt að leggja í eins manns hendur. Þau rök hv. 1. þm. Skagf. (MG), að aðeins hafi verið nauðsyn 3 ráðherra meðan stríðið stóð yfir, og sje nú því horfin, er það er á enda, eru að mínu áliti heldur hæpin. Því þótt heimsstyrjöldin sje nú liðin hjá, þá er vafasamt, að erfiðleikar þjóðarinnar hafi nokkurntíma verið meiri en einmitt nú, eða horfurnar jafnkvíðvænlegar. Þessi rök eru því næsta lítils virði til að sanna það, að við getum nú komist af með einn ráðherra. Hafi verið þörf á að hafa 3 ráðherra á ófriðarárunum, þá er áreiðanlega þörf á því enn, eftir þeim horfum, sem fyrir hendi eru. Jeg skal taka það skýrt fram, sem hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) mintist að vísu á, að við, sem berum fram brtt. á þskj. 151, tókum það skýrt fram í nefndinni, að við gætum vel felt okkur við að ráðherrum sje fækkað um einn. En við gerðum enga till. í þá átt, vegna þess, að það var samhuga álit nefndarinnar, að engrar stjórnarskrárbreytingar þyrfti með til að fá því framgengt.

Þá verð jeg að geta þess, að mjer þótti hv. þm. Str. (MP) gera heldur mikið úr samtökum nefndarinnar um að vera á móti öllum brtt. við frv. En hitt munum við hafa látið í ljós og lýst þar yfir, að við teldum óheppilegt að hugsa til nýrra og mikilla breytinga á stj.skr. að þessu sinni. Enda ekki sambærilegt að koma fram með alveg nýjar og stórfeldar gerbreytingar, sem lítill tími verður til að grandskoða, svo sem eru brtt. hv. þm. Str. (MP) á þskj. 229, eða þó farið sje fram á það eitt að færa þingafjöldann í sama horf og lengst af hefir verið og vel reynst. Þar er ekki um óþekta nýung að ræða. En það er það eina atriði, sem við hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) leggjum til, að breytt verði í stjórnarskránni.