17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2203)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Stefánsson:

Jeg ætla ekki að gera aðrar tillögur til stjórnarskrárbreytingar að umtalsefni að þessu sinni en frv. það, sem hv. 1. þm. Skagf. (MG) ber fram; því jeg álít gagnslítið að deila um aðrar brtt., sem fram eru komnar, og mín ræða verður ekki deiluræða.

Af hálfu hæstv. forsrh. (SE) hefir þeirri mótbáru verið haldið fram gegn þessu frv., og tók hann það oft fram í ræðu nú nýlega, að næg reynsla væri enn ekki fengin á núverandi stjórnarfyrirkomulagi, eða hvernig það mundi reynast í framtíðinni. Reynslutíminn er þó orðinn 6 ár, að því er kemur til ráðherrafjölgunarinnar, og nokkuð mætti því spá í eyðurnar um það, hvernig hún muni gefast í framtíðinni, af þegar fenginni reynslu. Ef ráðherrafjölgunin hefði gefið, þó ekki hefði verið nema dálitlar vonir um batnandi stjórnskipulag, þá er vafasamt, hvort þessi fækkunartillaga hefði fram komið að þessu sinni. En eftir 6 ár er ekkert tekið að bóla á því, að fjölgunin verði landinu til aukins vegs eða þrifnaðar. Þá er sú spurning, hve lengi vjer eigum að biða eftir því, að vonirnar rætist um batnandi stjórnarfar sem árangur fjölgunarinnar. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) tók það rjettilega fram, að þetta hafi upphaflega verið ófriðarráðstöfun, aðeins til bráðabirgða, en við þetta hefir þó setið síðan og situr enn. Má það merkilegt heita, að enginn þeirra, sem móti þessari breytingu eru, skuli hafa ymprað á því, að þriggjamannastjórnin hafi reynst meiri lyftistöng fyrir hagsæld þjóðarinnar en gamla fyrirkomulagið.

Hjer er því ekki verið að tala um ónóga reynslu, heldur enga reynslu fyrir batnandi stjórnarfari á þessum 6 þríveldisárum. Það er því ekki mikið leggjandi upp úr framtíðardraumum þeirra, sem sjá gull og græna skóga landinu til handa í þessu þríveldi.

Í þessu sambandi verður mjer að spyrja: Hefir þriggjamannastjórnin reynst mikilvirkari en gamla stjórnin, landi og þjóð til sannrar hagsældar? Hefir umboðsstjórnin farið nokkuð betur úr hendi hjá henni, eða verið árvakari, ötulli og röggsamlegri en sú gamla?

Hefir undirbúningur löggjafarmálanna undir meðferð þingsins verið betri og rækilegri af hendi stjórnarinnar eftir en áður, og löggjafarstarfið þar af leiðandi auðveldara og kostnaðarminna?

Hefir þetta stjórnarfyrirkomulag skapað hreinni línur í flokkaskipun þingsins en áður voru?

Hefir samvinna hennar og þingsins hafið löggjafarvaldið til meiri vegs og virðingar hjá þjóðinni en það hafði áður, meðan einn maður fór með stjórnina?

Þetta eru spurningar, sem við verðum að fá svarað afdráttarlaust. Yrði þessum spurningum hiklaust og með fullum rjetti svarað játandi, þá væri vissulega vert að hafa þá trú á framtíð þríveldisins, sem gerði menn því fráhverfa að snúa sjer til hins gamla fyrirkomulags.

En hefir nú þessi 6 ára reynsla komið þingi og þjóð á þá trú, að með ráðherrafjölguninni 1916 hafi verið skift um til betra stjórnarfyrirkomulags en áður var?

Þessi 6 ára reynsla sýnir þvert á móti hið gagnstæða; og jeg er um engan hlut vissari en þann, að allur þorri hugsandi kjósenda sje nú kominn á þá skoðun, vegna reynslunnar, að full ástæða sje til fækkunar á ráðherrum, og muni því hiklaust svara öllum framantöldum spurningum neitandi. Enda sje jeg hvergi þær framfarir, sem vænta hefði mátt eftir, ef þetta hefði verið af rjettmætum ástæðum gert.

Ráðherrafjölgunin átti að skapa meira viðsýni, festu og kraft í stjórnina, og þar af leiðandi að gera hana færari um að gegna störfum sínum með dugnaði og meiri fyrirhyggju en áður var.

En hver hefir nú reyndin orðið?

Afleiðingarnar af þessari tilbreytni urðu miklu meiri sundrung en áður og sívaxandi ringulreið og samvinnuleysi, bæði meðal stjórnarinnar sjálfrar og þingsins. Það má segja líkt um þriggjamannastjórnina og stendur í gamla Balle um heiðingjana: „Þeir dýrkuðu marga hjáguði, en vissu ekki til hverra af þeim þeir skyldu snúa sjer með vissastri von um hjálp og aðstoð.“ Stjórnin hverfur frá einu flokksbrotinu til annars, án þess að hafa vissa von um stuðning hjá nokkrum þeirra. Hún er nú að verða að leiksoppi í höndum fleiri og færri smáflokksbrota, sem sum eiga mjög lítinn tilverurjett. Þó hefir þetta máttleysi stjórnarinnar aldrei farið eins um þverbak og nú; var þá þetta stjórnarfyrirkomulagsfargan svo langt komið, að hæstv. forsrh. (SE) gat ekki á síðasta þingi myndað stjórn úr þinginu sjálfu, heldur neyddist til, eftir langt þref og þóf, að taka utanþingsmenn í stjórnina. Sjálfsagt varð þetta vegna þess, að hann fjekk ekkert samkomulag um ráðherraefni úr þeim þingflokki, eða flokksbroti, sem þó þóttist styðja hann. Sýnir þetta betur en nokkuð annað máttleysi og fylgisleysi stjórnar vorrar.

Fjarri fer því, að jeg með þessum ummælum mínum vilji áfellast hæstv. forsrh. (SE), eða þá heiðursmenn, sem síðan 1916 hafa setið í þriggjamannastjórninni, en hitt er víst, að hjá jafnfámennri þjóð og við erum er miklu hægra að fá einn duglegan og vitran mann í stjórnina en þrjá, og eins hitt, að það verður affarasælla að hafa einn duglegan og góðan mann í stjórninni en 3 meiri eða minni liðljettinga; en á því er því meiri hætta, sem þingið er í fleiri brotum og því enginn ráðandi meiri hluti til.

Og eitt er víst, að á þessum allra síðustu og verstu tímum stórhrakar virðingu þings og stjórnar í almenningsálitinu, og á þessu þingi hafa gerst þeir atburðir í stjórninni, sem drjúgum hljóta að auka á þetta virðingarleysi, atburðir, sem jafnframt því að hneyksla hvern alvarlega hugsandi mann hafa leitt í ljós ótrúlegan ókunnugleik meiri hluta stjórnarinnar á sínum eigin verkahring. (Forsrh. SE: Hvaða fyrirbrigði eða atburðir?). Jeg á við húsaleiguhneyksli fjármálaráðherrans, svo jeg nefni það berum orðum. Slík fyrirbrigði geta, eftir hlutarins eðli, naumast komið fyrir hjá einmenningsstjórn, enda er ábyrgðartilfinningin þar meiri og óskiftari en þegar fleiri fara með völdin og hver ýtir frá sjer á annan, með skírskotun til þess, að þetta eða annað heyri undir verkahring hins.

Svipað er að segja um þingafjölgunina. Reynslan er þar að vísu styttri. En kostir hennar hafa reynst miklu minni en við var búist. Það var gert ráð fyrir miklu styttri þingum með árlegu þinghaldi og því tiltölulega litlum kostnaðarauka. Sömuleiðis var gert ráð fyrir miklu meira og nánara eftirliti með stjórninni, áthöfnum hennar og ráðabreytni, sem hlyti að gera stjórnina miklu athugasamari um sinn gang. En hvorugt af þessu hefir ræst. Hitt hefir aftur á móti komið í ljós, að málin hafa eigi verið eins vel undirbúin af stjórninni og áður, og kemur það auðvitað til af þeirri einföldu ástæðu, að stjórninni vinst minni tími til undirbúnings þeim, þegar þing eru á hverju ári, þó aldrei hafi keyrt um þverbak í því efni eins og um frumvörp stjórnarinnar að þessu sinni, sem af flestum virðast talin lítt hugsuð flaustursverk, sem þingið verður að kasta í pappírskörfuna. Lagasmíð þingsins hefir og síst farið fram, sem naumast er við að búast, þar sem samvinnan við stjórnina er jafnlítil. Mikill hluti hvers þings gengur í það, að lagfæra og fella úr gildi lög frá árinu áður.

Þess er jeg líka fullviss, að kjósendur myndu þakka sínum sæla fyrir það, ef þingum og ráðherrum yrði fækkað, því að svo mun mörgum finnast, sem miklu meira beri á stórauknum kostnaði við þetta en verulegri framför í stjórn og löggjöf ríkisins. Jeg vil benda á það, að talin hefir verið ástæða móti þingafækkun, að þau myndu eftir sem áður verða háð á hverju ári, og benda menn þar til reynslu annars áratugs 20. aldarinnar. En það er aðgætandi, að öll aukaþingin frá 1912–1920 voru kölluð saman vegna breytinga á stjórnarskránni og fullveldisstofnunarinnar, nema aðeins eitt þingið, 1916, sem háð var vegna ófriðarráðstafana. Og þá munu menn yfirleitt hafa litið svo á, að fjölgun ráðherranna væri sem hver önnur ófriðarráðstöfun, sem gerð væri til bráðabirgða.

Að endingu vil jeg taka það fram, að það skiftir minna máli, hvernig stjórnarskipunarlög í stjórnfrjálsu landi eru, heldur en hitt, hvernig framkvæmd þeirra í stjórn og löggjöf er af hendi leyst. En eins afkastamiklir og vjer Íslendingar erum í lagasmiðinni, eins ósýnt er oss um að hlýða lögum vorum. Enda má ekki ætlast til, að í því lagamoldviðri, sem nú er, geti menn áttað sig á, hvað lög eru eða ekki. En sú er reynslan, að löghlýðnin minkar eftir því sem lögunum fjölgar. Rómverjar, sem að stjórnvisku stóðu samtíðarmönnum sínum flestum framar, sögðu: Því fleiri lög, því verra stjórnarfar.

Vjer erum að vísu komnir of skamt inn á fullveldisbrautina, til þess að nokkuð verði með vissu uni það sagt, hvernig oss muni í framtíðinni farnast framkvæmd þeirra hugsjóna, sem fullveldissáttmálinn og dilkur hans, stjórnarskráin, eru bygð á. En það hika jeg ekki við að fullyrða, að enn eru of litlar líkur, auk heldur reynsla, fengin fyrir því, að fullveldið muni fyrst um sinn verða þjóð vorri til þess þrifnaðar og frama, sem allir að sjálfsögðu bjuggust við í fyrstu. En öll vonbrigði um það eru sjálfra vor sök, en frá þeim ósköpum ætti hver góður Íslendingur að biðja guð að varðveita þjóð sína.