17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (2204)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi, bæði við 1. umræðu og fyrri hluta þessarar umr., lýst afstöðu minni til frv. og brtt., og þarf ekki að gera það aftur. En það, sem fær mig til að standa upp að þessu sinni, er eitt atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Hann talaði fyrst fastlega með frv. hv. 1. þm. Skagf. (MG), en lagðist aftur á móti gegn brtt. hv. þm. Str. (MP), en svo fór að lokum, að eigi var annað að heyra en að hann myndi neyðast til að greiða atkvæði á móti þessu öllu. Sjerstaklega talaði hann um þá breytingu, að þurfamönnum væri ætlaður kosningarrjettur. Þótti honum það með öllu óhafandi, og lýsti því svo, að með því væri verið að gera tilraun til að kollvarpa núverandi þjóðfjelagsfyrirkomulagi, og var aðalsönnun fyrir því, að svo væri, í því fólgin, að jeg væri þessari breytingu hlyntur. Hv. þm. (JÞ) vildi m. ö. o. nota mig sem nokkurskonar grýlu á hv. deild. Hefir þó sami hv. þm. stundum ekki veigrað sjer við að greiða atkvæði á sama hátt og jeg, þegar f. d. um stórar framkvæmdir hefir verið að ræða, og eins og mjer skilst, að hann líka muni gera í þessu máli.

Annars skil jeg ekki í því, að hið háa Alþingi þurfi svo mjög að óttast þetta ákvæði. Fyrir þingið 1921 kom frv. frá bæjarstjórn Rvíkur um breytingar á kosningalögunm, og var þar m. a. gert ráð fyrir, að þurfamenn yrðu ekki útilokaðir frá að kjósa. Frv. tók raunar nokkrum breytingum í Nd., en var samt sem áður samþykt þar og afgreitt sem kosningalög fyrir alt landið. Þetta sýnir, að Nd. hræddist þá ekki mikið þetta ákvæði, enda skiljanlegt, þar sem þingið hefir samþykt breytingar á fátækralögunum, sem gengu í sömu átt. En fróðlegt er að vita það, að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) var einmitt einn af flm. þessa frv., sem jeg gat um.

Það sýnir sig nú sjálft, að í raun og veru getur þetta aðeins haft hverfandi lítil áhrif á kosningarnar. Ef við áætlum, að hjer sjeu ca. 40 þús. kjósendur, sem láta mun nærri, sjer maður fljótt, hversu sáralitlu það munar, þó bætt sje við sem svarar 1–3 þús. kjósendum. Jeg skil því ekki, hvers vegna þessi hv. þm. legst svo fast á móti breytingunni, nema þá að það sje ánægjan af því að útiloka þessi olnbogabörn lífsins frá þátttöku í opinberum málum. Þessir menn þurfa þó hvorki að vera í sjálfu sje verri menn nje ógáfaðri en aðrir, þó að þeir fyrir óhöpp eða vanheilsu hafi orðið miður færir til þess að bjargast áfram, enda eru þeir það ekki. Það er að minsta kosti full ástæða til þess að rýma þessu ákvæði úr stjórnarskránni, og varla vansalaust að hafa það þar lengur. En ef til vill þarf heldur ekki stjórnarskrárbreytingu til að kippa því í lag, heldur aðeins víðtækari breytingar á fátækralögunum. Að þetta þurfi að hneyksla nokkum mann, er ekki auðvelt að sjá. Hitt er sýnilegt, að í þessu máli er hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) aðeins fulltrúi fyrir, eða rjettara sagt hljóðpípa nokkurra hjartveikra reykvískra sálna. En sje þetta árás á stjórnarfyrirkomulag landsins eða stjórnarskrárbrot, þá er því að svara, að Alþingi hefir þá gert sig sekt í því áður með breytingum á fátækralögunum. Þetta svar vil jeg láta nægja að þessu sinni.