17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (2206)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (SE):

Jeg spáði því, þegar þetta mál kom hjer á dagskrá, að það mundi ekki ganga í gegnum þessa hv. deild þegjandi og hljóðalaust. Þessi spádómur er nú þegar tekinn að rætast. Jeg skal svo víkja stuttlega að nokkrum atriðum, sem nú hafa komið fram. Þar sem einn háttv. þm. sagði, að nú væri fenginn 6 ára reynslutími fyrir ráðherrafjölguninni, og sú reynsla benti til þess, að betra væri að hafa einn ráðherra, eins og áður var, skal jeg benda á það, að mjög erfitt er að gera þennan samanburð, af því tímarnir nú og þá eru alls ekki sambærilegir. Viðfangsefnin eru nú öll önnur en áður, og svo margfalt flóknari. Sami hv. þm. (SSt) sagði það, að undirbúningur laga hefði orðið lakari með ráðherrafjölguninni. Þetta er alveg gripið úr lausu lofti. Stjfrv. eru engu síður vel undirbúin nú en áður, enda hefir stjórnin, ef hún vill, tök á meiri kunnáttumönnum í ýmsum málum en áður var, og hafa fyrverandi stjórnir mjög notið aðstoðar þeirra. Að því er snertir frumvörpin, þá fæ jeg ekki betur sjeð en undirbúningur þeirra sje yfir höfuð mjög ítarlegur, og vil jeg í því sambandi benda á sparnaðarfrv. stjórnarinnar. Annað mál er það, þó hv. þm. (SSt), sem annars lofsyngur sparnaðinn með vörunum, sundli, þegar hann horfir framan í jafnmikinn sparnað og hjer er á ferðinni. Það er ekki altaf verið að stinga upp á að leggja niður 9 hálaunuð embætti. Og í stað þess að gleðjast yfir þessu stendur háttv. þm. með hendurnar blóðugar upp undir axlir við slátrun á hinum mikilfenglega sparnaði. En þjóðin, hún græðir ekkert á því, þótt fagurlega sje talað um sparnaðinn, ef jafnan er tekið fyrir kverkar honum, þegar hann kemur fram í fullri alvöru.

Sami hv. þm. (SSt) mintist á það, að stjórnin væri eins og leiksoppur milli flokksbrotanna. Jeg veit ekki betur en stjórnin fari alveg sínar götur, og svo hefir mjer heyrst hljóðið, að allmörgum finnist stjórnin fara um of sínar eigin leiðir. Hv. þm. færði það líka sem dæmi upp á máttleysi stjórnarinnar, að tekinn hefði verið ráðherra utan þings. Jeg hefi aldrei heyrt kvartað um þetta fyr. Að minsta kosti hefir þessi hv. þm. ekki átalið þetta, meðan hann studdi stjórn, þar sem sjálfur stjórnarformaðurinn var utanþingsmaður. Þetta sýnir samræmið í orðum þessa hv. þm. Hann notaði einnig tækifærið til þess að koma því að, hvað virðingin fyrir þinginu færi þverrandi hjá þjóðinni. En jeg verð ákveðið að mótmæla þessum tilraunum til þess að troða því inn í meðvitund manna, hvað þingið sje lítilfjörlegt. Jeg held, að okkar þing sje í alla staði mjög heiðarlegt þing, og aðeins það er nóg til þess, að þjóðin mætti bera virðingu fyrir því. Annars er þingið yfirleitt mynd af þjóðinni, og ef hinn harði dómur hv. þm. (SSt) væri rjettur, þá væri nærri höggvið þjóðinni sjálfri. Annars er það orðinn hálfgerður móður að tala illa um þingið.

Jeg get svo lokið máli mínu, alveg eins og hv. 1. þm. Skagf. (MG), með þeim ummælum, að jeg er sannfærður um, að ef málið er skýrt frá báðum hliðum, þá mundi dómur þjóðarinnar verða mín megin.