23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Jakob Möller:

Mjer finst að háttv. flm. frv., 1. þm. Skagf. (MG), ætti ekki að gera þetta mál að meira athlægi en orðið er. En það verður það, ef nú á að fara að taka það út af dagskrá, til þess að bjarga lífi þess með „hrossakaupum“, og fella niður það eina atriði, sem enn er óbreytt í því. Frv. þetta yrði þá orðið mikið breytt, frá því, er hann flutti það í upphafi. Jeg tel það í sjálfu sjer ekki mikils vert, þó að felt sje úr stjórnarskránni ákvæðið um, að þing skuli haldið árlega. Jeg er sannfærður um, að það mundi verða gert eftir sem áður, enda mun þessi breyting ekki til annars ætluð en að sýnast. Ef till. hv. þm. Str. (MP), um að fella niður landskjörið og Ed., hefðu náð fram að ganga, þá hefði jeg því viljað vinna það til, að þetta ákvæði fjelli niður.

En eins og frv. er nú útlítandi, sje jeg ekki að það sje þess vert að treina í því lífið.