21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Bjarni Jónsson:

Jeg kann ekki við að láta þennan efnilega unga fara svo til 2. umr., að jeg segi ekki nokkur orð um hann. Það er þó ekki svo, að jeg ætli að amast við því, að frv. fari til mentmn. Jeg hygg hana svo vel skipaða, að óhætt sje að senda henni annan eins böggul.

Jeg vil fyrst minnast á þá miklu helgi, sem virðist hvíla yfir Akureyrarkaupstað — að minsta kosti í augum sumra háttv. þm. — fram yfir aðra staði á landinu. Svo mikill er sá helgiljómi, að honum hefir tekist að slá blindu jafnvel hin skygnustu sparnaðaraugu í þinginu. Þeir sömu sparnaðarmenn, sem skera vilja niður ýmsa nýtustu embættismenn landsins, þeir, sem skera niður fjárveitingar, sem hver heilvita maður hlýtur að telja sjálfsagðar, vilja endilega kosta gagnfræðaskóla bæði á Akureyri og í Reykjavík. Þetta skólahald hefir landssjóður efni á að kosta. Það er ætlast til, að allar sveitir landsins leggi sinn skerf til slíkra nauðsynja, þótt samtímis sje talið ómögulegt að stofna unglingaskóla í öðrum hjeruðum landsins, hversu mikil sem þörfin er. Í þennan æðri barnaskóla á Akureyri hafa verið sendir bæði þeir, sem óskuðu gagnfræðamentunar, og svo líka hinir, sem ætluðu sjer að stunda framhaldsnám við lærða skólann í Reykjavík. Er þetta algerlega öfug stefna, eins og jeg hefi svo oft haldið fram. Hin stefnan er sú rjetta, að greina þessa skóla í sundur og hafa lærða skólann út af fyrir sig, án sambands við gagnfræðaskólana. Í fyrsta lagi eiga nemendur, sem fara þessar tvær ólíku brautir, alls enga samleið á skólabekkjunum úr því að lýkur barnaskólanáminu. Það þarf að leggja alt annan grundvöll hjá þeim, sem ætla sjer í lærða skólann, en hinum, sem óskar almennrar þekkingar. Þetta eitt er næg ástæða til þess, að ekkert samband ætti að vera milli þessara skóla. Hjer við bætist svo hitt, að óþarft virðist að fara svo vel með þennan mannmarga kaupstað, að láta landið halda þennan skóla fyrir hann. Væri meiri ástæða til að gera þetta í sumum fámennari kauptúnum og sveitum landsins, sem sökum mannfæðar sinnar eiga örðugt með að halda slíka skóla. Þetta er svo augljóst, að hafi nokkur aðra skoðun á því, þá hlýtur það að vera af þeirri sök, að hann hafi ekki leitt hugann neitt að þessum málum.

Það er rjett, sem hv. flm. (ÞorstJ) tók fram, að framleiðslan af stúdentum sje orðin ærið nóg í þessu landi. En mig furðar á því, að hann skuli þá ekki líka sjá, að ekki sje ástæða til að gera gyllingar til að fjölga þeim. Ekki þarf að gera það þeirra vegna, því vitað er, að launin, sem þeir munu bera úr býtum, sem glæpast á þeirri leið, eru sultur og vanþakklæti. Hitt er engum efa bundið, að það hafa veiðst tugir í þá gildru, sem lögð var um leið og sambandi var á komið milli þessara skóla. Það er svo auðskilið, á hvern hátt slíkt verður.

Námsmönnum, sem annars höfðu ekki ætlað sjer lengra á þeirri braut, leiðist að sjá bekkjarsystkin sín fara fram úr sjer og til æðri menta, og svo lýkur, að kappið má sín oft meira en forsjáin. Þetta er svo margreynt, að enginn getur gert sig svo djarfan, að mótmæla því. — Og þó vilja nú hv. flm. þessa frv. endilega leggja nýja veiðibrellu.

Jeg vil ekki bera brigður á alt, sem hv. flm. sagði áðan. Rjett er það hjá honum, að ódýrara sje fyrir pilta norðanlands að sækja skóla á Akureyri en hjer í Reykjavík. En ástæðan, sem hann lagði einna mesta áherslu á, sameiginlega mötuneytið, haltrar hjá honum að því leyti, að hægt er eins að koma því á hjer; hefir enda verið stigið fyrsta sporið. Þá er eftir munur ferðakostnaðar og dýrtíðar, og verður hann varla svo mikill, að unt verði að launa marga kennara af honum.

Það, sem aðallega kemur þá til athugunar, er þetta, hvort landið sje svo fjölment, að nauðsyn beri til að hafa hjer 2 lærða skóla. Jeg hygg, að enginn blettur sje til á jörðunni með 95 þúsundir íbúa, sem hefir lærðan skóla fyrir sig. Til þess að ná sama hlutfalli og hjer er, yrðu að vera 2 lærðir skólar í hverri stærri götu í stórborgum erlendis, því eins og menn munu vita, er ein slík gata fólksfleiri en alt Ísland. Nú hafa aðrar þjóðir ekki tekið upp það ráð, og jeg held, að við ættum ekki heldur að gera það, en reyna að komast af með einn lærðan skóla. Hitt er annað mál, að þingið getur, ef því sýnist svo, jafnað kostnaðarmismuninn hjá hinum ýmsu landshlutum með því t. d. að láta þá nemendur, sem lengst eiga að, fá ókeypis far með strandferðaskipum vorum. Hefir þegar verið stigið spor í þessa átt með því að ákveða í fjárlögunum, að styrkveitingar til náms skuli ætlaðar þeim nemendum, sem eru utan af landi. Fara mætti lengra í þessa átt og veita þeim nemendum fleiri vilkjör af svipuðu tæi.

Undarlegt þótti mjer, þegar hv. flm. (ÞorstJ) fór að tala um það, hve sáralítill kostnaður yrði þessu samfara. Svo var að heyra, sem ekki þyrfti annað en bara bæta bekkjunum við. Vinna þá kennararnir við gagnfræðaskólann á Akureyri ekkert nú? Geta þeir bætt við sig nýjum námsgreinum að kostnaðarlausu? Eða hefir því fje, sem nýlega var veitt til skólans, verið varið til að fjölga þar bekkjum? Sje svo, þá hefir verið ólöglega með það farið. — Það gægðist þó fram hjá hv. flm. (ÞorstJ), að hann hefði á tilfinningunni, að einhver talsverður kostnaður myndi þessu samfara. Hann fór að tala um að takmarka nemendafjöldann, sem skólann sækti. Er það nú hugmynd! Eftir alt á að reka helming nemendanna til Reykjavíkur og láta þá sitja þar við þau súru kjör, sem hv. fhn. lýsti svo átankanlega rjett áðan. Við suma á að segja: Komið til mín, blessaðir, og við aðra: Farið frá mjer o. s. frv., rjett eins og stendur í einni postillu rjettlætisins. — Nei, þótt einhverjum kunni að þykja góð fyrirmyndin, þá verð jeg að hafna henni. Og mjer þætti ekki undarlegt, þótt einhverjum færi eins og bæðu þann að hafa á höfðinu, sem ætlaði að reka suma frá skólanum, en halda öðrum eftir við sældarkjör hans. Jeg verð í alvöru að halda því fram, að oss beri að hafa á þessu siðaðra manna hátt og láta oss ekki detta slíka fíflsku í hug. Það þarf og ekki að kenna mjer, hverju verði við að bæta slíkan skóla, til þess að úr honum verði viðunandi lærður skóli. Það agn er ekki nema fyrir fáfróða, að ekki þurfi við að bæta nema einum kennara. Jeg er of kunnugur skólamálum til þess að geta gleypt við slíku.

Jeg verð enn á ný að endurtaka það, að mjer finst það næsta undarlegt, að það sama þing, sem hefir knúið stjórnina til að koma fram frv. um jafnhneykslanlegan niðurskurð nýtra embættismanna landsins og nú hafa nýlega verið rædd, — að það sama þing skuli nú ætla að bregða sjer til að setja á stofn nýjan skóla með 5–6 nýjum kennurum, eða mönnum, sem gegndu slíkum störfum. Því varla er ætlandi, að meiningin sje að gera þá menn að föstum embættismönnum, svo tregt sem kennurunum hjer syðra hefir gengið að fá af þinginu slíkan nafnbótarauka, þótt engu væri þar með til kostað. — Já, sparnaðarhugsjón hins háttv. þings! Það er grátlegt gæfuleysi að hafa vakið upp slíkan draug, og þurfa svo að glíma við hann ávalt síðan.

En svona var það, — annars vegar þingfararjóðsóttin vægðarlaus og hins vegar óttinn við, að illa myndi ganga, ef engu slíku væri að veifa til að lina með hugi kjósenda. En þeir vöruðu sig ekki á því, þessir löggjafarstrútar, að þótt þeir styngju hausnum inn í runnann, þá skein á lappirnar og afturhlutann, og það er einmitt hann, sem kjósendurnir eru nú að byrja að virða fyrir sjer.

Jeg læt svo útrætt um þetta mál að sinni. Það fer nú til hv. mentmn., og fæ jeg vonandi tækifæri til að heilsa upp á það á ný, þegar það kemur þaðan aftur.