28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (2233)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Magnús Jónsson:

Jeg vildi ekki láta hjá líða að láta í ljós skoðun mína á þessu máli, enda þótt hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hafi vel og röggsamlega svarað ýmsu því, sem mjer fanst athugavert í ræðu hv. flm. og frsm. minni hl. (ÞorstJ).

Svo má líta á, að aðallega sjeu tvær leiðir til menta. Annars vegar er gagnfræðabrautin, og eru aldrei of margir, sem hana fara, og gleðiefni, að kappið eftir þeirri mentun er altaf að aukast. Hins vegar er hin svo kallaða lærða mentun, undirbúningurinn undir háskólanám, sem býr menn undir vissar stöður, og nám vísindalega lærðra manna. En það er heppilegt, að tala þessara manna sje takmörkuð, því að það hefir sýnt sig, að fari fjöldi þeirra fram úr nokkurn veginn ákveðinni tölu, þá verður námið þeim mestmegnis eyðsla á dýrmætum tíma, og margir slíkra manna verða sníkjudýr á þjóðinni. Með stjórþjóðum eru raunar altaf menn, sem svo eru efnum búnir, að þeir geta helgað líf sitt vísindanámi og vísindastörfum, án tillits til þess, að þeir hafi atvinnu við þau eða ekki. Hjá okkur, fátækari og fámennari þjóðunum, er venjulega öðru að heilsa; þar verður námið í flestum tilfellum „brauðstudium“, eins og það hefir verið kallað. Sje því ekki fjöldi þessara manna takmarkaður, fer annaðhvort svo, að þeir verða að beygja inn á aðrar brautir eða verða vandræðamenn sjálfum sjer og þjóðinni. Afleiðingin af þessu er sú, að vegurinn til gagnfræðamentunar á að standa öllum opinn og greiður, en inn á lærðu brautina á að vera þrengra hlið, og það svo úr garði gert, að inn um það gangi varla nema þeir, er vænta má mikils af. Því er það, að jeg og margir fleiri eru mótfallnir þeirri tilhögun, sem hjer er á mentaskólanum, að leiðin inn í hann standi opin á gátt og nemendur verði ekki varir við neinn þröskuld á leiðinni upp í lærdómsdeildina. Og er jeg þegar af þessari ástæðu mótfallinn frv., að það fer fram á að fjölga skólum með þessu fyrirkomulagi, sem jeg er á móti.

En svo er jeg yfirleitt ekki þeirrar skoðunar, að þörf sje á að fjölga skólum af þessari tegund. Ef hjer væri þörf tveggja stúdentaskóla, þá hlyti það að vera af einhverjum af þessum þrem ástæðum: Í fyrsta lagi, að hjer væri stúdentafæð of mikil nú með því að hafa einn skóla, í öðru lagi, ef um ókleifar vegalengdir í samanburði við fólksfjölda væri að ræða, og loks í þriðja lagi það, að þjóðin væri orðin svo fjölmenn, að einn stúdenta skóli yrði of stór og óhægur í rekstri.

En það hefir sýnt sig, að engin þessara ástæðna er hjer fyrir hendi. Öllum kemur saman um, að stúdentaframleiðslan hjer sje helst til mikil. Hefir mjer reiknast svo til, að um 20 nýir stúdentar árlega mundi vera nægileg viðkoma til þess að yngja upp menn í þeim stöðum, sem sjermentunar þarf við í. Og hvað vegalengdir snertir, þá er sú ástæða harla lítil. Flestir nemendurnir koma hingað með skipum, og í því horfi, sem strandferðirnar eru nú, verður ferðakostnaður þeirra hverfandi lítill í samanburði við námskostnaðinn yfir veturinn. Það, sem hjer kemur til greina, er 14 af strandlengjunni. Rvík og Akureyri skifta strandlengjunni í nokkurn veginn jafna 2 parta. Þeir, sem nú eiga lengst, verða því að fara ½ af strandlengjunni. En þeir, sem lengst þyrftu að fara, ef skóli væri einnig á Akureyri, hefðu í stað þess 1/4 strandlengjunnar að fara. En í flestum tilfellunum munar það engu.

Hv. frsm. minni hl. (ÞorstJ) hnýtti við ræðu sína hugleiðingum um það, hve nauðsynlegt væri, að bestu mennirnir færu lærða veginn og kæmust í trúnaðarstöður þjóðfjelagsins. Og náttúrlega er þetta hugsjónatakmark, sem við verð um að leggja kapp á að komast sem næst. En ef því takmarki ætti að verða náð, þyrfti líklega að koma upp skóla í hverri sýslu, og myndi ekki duga samt. Munurinn á fátækum og ríkum er eftir sem áður, og strax er nemendur fara að heiman, kemur kostnaður við skóladvölina, og fyrir þeim, sem nemur t. d. í Reykjavík, er kostnaðurinn nær alveg sá sami, hvort hann verður að fara eina dagleið eða sex til sjö að heiman. Það eru aðeins þeir einir, sem heima eiga í bænum, sem komast verulega ljett út af því. Það yrði því einungis verulegur hagnaður fyrir Akureyrarbúa sjálfa, að skóli kæmist þar á fót.

þá er sú ástæðan eftir, að þetta sje metnaðarmál fyrir Norðlendinga og fylsta sanngirniskrafa, þar sem skólarnir hafi verið tveir fram yfir 1800. Það er auðvitað gott og blessað að fá þessa röksemdafærslu, en jeg held ekki, að hv. frsm. minni hl. (ÞorstJ) hafi tekið nægilega mikið tillit til þess, hversu hjer er ólíku saman að jafna. Tímarnir eru æðibreyttir og menningin með, og farartækin önnur nú en þá. Þá var samgönguleysið svo mikið, að sakamenn gátu farið í annan landshluta og alið þar aldur sinn, án þess að upp kæmist, hverjir þeir væru. Og svo voru gömlu skólarnir í raun rjettri bygðir á forsendum, sem nú eru ekki lengur fyrir hendi. Þá mátti svo segja, að um tvö ríki væri að ræða að því er þessu við kom. Það voru biskupsdæmin. Skólarnir voru prestaskólar, og hvort biskupsdæmi varð að sjá sjer fyrir prestum. Kennararnir voru svo að segja til við stólana. Og þó var það aðalatriðið, að hjer var um aðskilinn fjárhag að ræða. Hvor dómkirkjan kostaði sinn skóla, og var því ekki nein ástæða til að blanda þessu saman.

Það ætti því að vera öllum ljóst, að þessar röksemdir fyrir tvískiftingunni eru nú með öllu horfnar. Það eru breyttar samgöngur, breyttur tilgangur með skólunum, breytt fjárhagsfyrirkomulag og yfirleitt breyttar aðstæður, er hafa valdið því, að skólarnir hafa verið sameinaðir.

Framsöguræða hv. flm. (ÞorstJ) er því miður ekki komin fram enn í lestrarsalinn, svo að jeg get ekki gengið nákvæmlega inn á rök hans, en af því að þau munu vera nálega alveg samhljóða þeim rökum, sem skólameistarinn á Akureyri, Sigurður Guðmundsson, hefir talið í langri og ítarlegri grein í Morgunblaðinu, þá vona jeg, að mjer leyfist að gera hana að umtalsefni hjer meðfram.

Aðalröksemdirnar hjá hv. flm. og Sigurði Guðmundssyni skólameistara hafa verið bygðar á kostnaðarhlið málsins. Get jeg ekki annað sjeð en þar sje reitt svo hátt, að það sje á takmörkum þess, sem er sæmilegt, og getur vel kallast tilraun til að blekkja menn, sem ókunnugir eru þessum málum. Þar er t. d. gerður samanburður á kostnaðinum við nám á Akureyri og hjer í Reykjavík og sagt, að reynt hafi verið að útvega námsmanni hjer húsnæði, fæði, ljós og hita, og ekki tekist að fá það ódýrara en 145 kr. á mánuði. Er þetta vel sennilegt. Á hinn bóginn er fæðiskostnaður Akureyrarsveina, er hafa með sjer matarfjelag, talinn 75 kr. Af þessu er svo dregin sú ályktun, að 70 kr. muni á vistinni hjer og á Akureyri. Jeg skal taka það fram, að mjer ofbýður ekki þessi tala, 145 kr., því maður er öllu vanur hjer í Reykjavík, en því vil jeg hiklaust halda fram, að samanburður þessi sje mjög rangur og villandi, þar sem ekki er tekið tillit til þess gífurlega mismunar, sem er á heimavist og bæjarvist. Hefði átt að bera saman bæjarvistir í báðum stöðum, ef áhuginn hefði verið á því að fá rjett mál fram.

Til samanburðar við fæðisreikning heimavistarinnar á Akureyri skal jeg nefna það, að á mötuneyti stúdenta hjer, Mensa Academica, hefir fæðið kostað frá 92 kr. á mánuði og upp í 96 kr., og er þar í reiknaður allur kostnaður, húsnæði, ljós, hiti, starfslaun o. s. frv. En húsnæðið, sem hjer er tilfinnanlegur útgjaldaliður, mun ekki reiknað með í heimavistarkostnaðinum nyrðra. Fer þá munurinn að verða æðilítill, ef húsnæðið væri dregið hjer frá.

Það sjest líka, að þegar reiknaður er ferðakostnaður til Reykjavíkur, er altaf miðað við Akureyri. En nú mætti gera ráð fyrir, að skólarnir yrðu sóttir á víxl, þannig, að piltar úr suðurhjeruðunum sæktu til Akureyrarskólans og norðurpiltar til skólans hjer. Er sýnilegt, að allir yrðu að borga ferðakostnaðinn til Akureyrar, sem í þann skóla færu, nema aðeins þeir, sem heima ættu þar á staðnum. Jeg hygg því, að ferðakostnaðurinn sje liður, sem alveg verði að fella niður í þessu sambandi.

3. liðurinn er hrein blekking, þar sem verið er að tala um það, að skólatíminn nyrðra sje 1 mánuði styttri en syðra, því auðvitað má hve nær sem er spara þennan mánuð syðra líka, ef menn vilja.

Ef sá reikningur, sem hjer hefir verið komið með, að það væri 1000 kr. spámaður fyrir hvern nemanda að vera á Akureyri, á móts við það að vera í Reykjavík, væri rjettur, þá væri eðlileg afleiðing af því sú, að flytja ætti beinlínis skólann norður. En sannleikurinn er sá, að þetta er ekki rjett. Sumt er ódýrara á Akureyri, en aftur annað í Reykjavík, og nýlega hefir verið sýnt fram á það í grein í Morgunblaðinu, að heimavistarkostnaður syðra (í Flensborg) er minni en á Akureyri.

Þá hefir það verið sagt, að ekki þyrfti nema kennara í viðbót á Akureyri, þó að skólinn þar yrði gerður mentaskóli. Af því að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) gekk svo nákvæmlega frá þessu máli og sýndi fram á það, að þetta er blekking, get jeg verið fáorðari um, það. Það má kannske komast af með svo litla viðbót í byrjuninni, en þegar frá liði, kæmu áreiðanlega kröfur um fleiri og fleiri kennara, og mundi það þá verða notað sem röksemd, að svona marga þyrfti þá í Reykavík, og hvernig gæti samskonar skóli á Akureyri komist af með minna. Með öðrum orðum, þá yrði rökunum snúið við.

Mikið hefir einnig verið talað um húsrúmið og það, hvaða fjarstaða væri að nota ekki húsrúmið, sem nóg væri á Akureyri, í stað þess, að annars þyrfti að bæta við skólann syðra. En sannleikurinn er sá, að húsrúmið er alls ekki nóg á Akureyri. Það er meira að segja upplýst, að húsrúmið þar er ekki nóg fyrir gagnfræðaskólann einan, því að stundum hafi orðið að úthýsa umsækjendum vegna rúmleysis. En hvar er þá plássið fyrir mentaskólann? Jú, það fæst auðvitað með því að úthýsa jafnmörgum gagnfræðingum eins og þeir eru, sem í lærdómsdeildina koma. Með þessu er gagnfræðamentuninni hamlað og gagnfræðaskólinn beinlínis lamaður. Og jeg læt segja mjer það þrem sinnum áður en jeg trúi því, að samhuga vilji Norðlendinga sje fyrir þessu framferði. Það er vitanlegt, að Norðlingar hafa tekið ástfóstri við þennan gagnfræðaskóla, og mundi því þykja það hart að láta vísa frá honum unglingum sínum, eins og ætlast er til að þurfi að gera, ef breytingin kemst fram.

Jeg gæti tekið margt annað fram, en verð að fara fljótt yfir sögu. En eitt er þó satt í þessu öllu saman og gerir skiljanlega þessa hreyfingu að sumu leyti. Og það er þetta, að ekki er alt með feldu um Reykjavíkurskólann. Veldur þar bæði um dvalardýrleikinn og fyrirkomulag skólans. En ef heimavistir kæmust á í Reykjavík, eins og á Akureyri, og ef skipulagi skólans yrði breytt, eins og jeg og fleiri höfum verið að berjast fyrir, mundi rætast úr þessu öllu. Þá stæðu skólarnir jafnt að vígi að því er þessa kostnaðarhlið á náminu snertir. Mundi það þá koma í ljós, sem jeg sagði fyr, að ekki eða litlu yrði ódýrara á Akureyri en í Reykjavík. Enda vill svo til, að öll tvímæli um þetta eru í rauninni tekin af með símskeyti einu merku, sem þinginu hefir borist frá Akureyri um annað mál, en var þar skýru ljósi yfir þetta líka. Meginmál símskeytisins hljóðar svo:

„Undirritaðir embættismenn og starfsmenn ríkisins á Akureyri höfum heyrt, að fyrir Alþingi liggi nú frumvarp um hækkun dýrtíðaruppbótar fyrir embættismenn og starfsmenn ríkisins í Reykjavík. Kröfu um hækkun dýrtíðaruppbótar teljum vjer sanngjarna, en oss blandast þó eigi hugur um, að vjer einnig eigum að njóta hins sama rjettar, því dýrtíðin kemur eigi síður hart niður á okkur, eins og launakjör vor eru, en starfsbræðrum vorum í Reykjavík. Krafa vor er því, að hið háa Alþingi láti okkur njóta jafnhárrar dýrtíðaruppbótar og starfsbræður okkar í Reykjavík.“

Undir þessu skjali standa m. a. nöfn skólameistarans á Akureyri sjálfs og kennara gagnfræðaskólans, sem besta útreikningana hafa gert um það í skólamálinu, hve miklu ódýrara væri að lifa á Akureyri en í Reykjavík.

Ýms önnur atriði gæti jeg tekið hjer, en jeg verð að sleppa því, svo sem um þessa ímynduðu einokunartilhneigingu Reykvíkinga á stúdentaframleiðslunni, og það, að við Reykjavíkurþingmenn sjeum að tala hjer og vinna aðeins fyrir okkar kjördæmi. En þetta er alls ekki svo. Því einmitt með því að breyta skólanum í óskiftan latínuskóla er verið að gera það m. a. að verkum, að Reykvíkingum er það ekki eins hægt og nú að fljóta svo að segja sofandi að því að verða stúdentar. Og með heimavistum á að vinna að því, að utanbæjarmenn standi sem líkast að vígi eins og Reykvíkingar. Við erum því með þessu að vinna á móti okkar kjördæmi í vissu falli, en við gerum það með landsins hag fyrir augum.

Það er hugsjónin að gera stúdentanámið sem auðveldast, að því er efnahaginn og námskostnaðinn snertir, bæði fyrir námsmennina og ríkið, en á hinn bóginn á að takmarka tölu þeirra, sem þessa braut ganga, með því að láta þá mæta ýmsum andlegum þrekraunum á leiðinni. En þetta samrýmist best með því að fylgja tillögum okkar um skólamálin: Einn lærður skóli, sem hlynt er að eftir mætti, en er kröfuharður við nemendurna.