28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Frsm. meiri hl. (Sigurður Stefánsson):

Þess gerist ekki þörf, að jeg haldi langa ræðu. Hv. 3. og hv. 4. þm. Reykv. (JÞ og MJ) hafa að ýmsu leyti tekið af mjer ómakið, með því að sýna fram á það, að ekki stendur steinn yfir steini í ræðu hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ). Jeg get því hlaupið yfir flest það, sem þeir tóku fram.

Á nokkur atriði vil jeg þó minnast. Skal jeg þá fyrst benda á hluttöku Norðlinga í mentaskólanum núna síðustu árin. Skólaárið 1920–21 voru teknir í 1. bekk lærdómsdeildar 12 sveinar, sem voru nærfelt allir fæddir í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum og voru því allir úr Norðlendingafjórðungi. 1921–22 voru 17 nemendur teknir í 1. bekk lærdómsdeildarinnar, sem voru undantekningarlaust Norðlendingar. Í samanburði við þáttöku hinna landsfjórðunganna í að sækja skólann hefir nemendafjöldinn jafnan verið mestur úr Norðlendingafjórðungi nú á síðari árum. Þótt sá fjórðungur sje stærstur, þá sýnist þetta þó ekki bera vott um, að efnahagur Norðlinga sje svo vondur, að menn standist ekki við að senda börn sín í mentaskólanum hjer. Og því fer fjarri, að um nokkra einokun Reykvíkinga sje að ræða; það hefir ekkert verið gert til þess, að svo yrði.

En það, sem hv. frsm. minni hl. (ÞorstJ) drap ekki á einu orði, það var fjárhagshlið málsins. En það er veigamesta atriðið í mínum augum, þótt jeg skilji vel, að þetta sje veikasti punkturinn hjá hv. frsm. minni hl., sem hann vill sem minst leiða umræðurnar að. Samviska þingmanna krefst þess af þeim, að þeir gæti hófs í meðferðinni á fje landsins, og þeirri skyldubyrði verður aldrei af þeim ljett, allra síst nú, þegar fjárhagsástand ríkisins virðist vera með allra versta móti. En það lítur nú stundum út fyrir, að hv. þingmenn fyllist svo miklu kappi, að forsjáin lýtur í lægra haldinu, og þeir gleyma því, hvernig á stendur. Mjer er sagt, að Framsóknarflokkurinn sje búinn að gera það að flokksmáli sínu að stofna þessa nýju stúdentaverksmiðju á Akureyri. Þeir vilja ráðast í annað eins fyrirtæki og það nú, þegar ríkissjóður hefir ekki einu sinni efni á að leggja fram fje til hinna bráðnauðsynlegustu umbóta á verklega sviðinu. Það er klipið utan af öllum fjárveitingum til þess, sem þjóðinni ríður mest á. Það eru óbygðar brýr, óbygðir vegir, ólagðir símar, og alt þetta er látið dragast ár frá ári, þó að þjóðin krefjist bráðlegra framkvæmda á þvi. Já, það er meira að segja hægt að fullyrða, að það sjeu tugir af óbygðum brúm, vitum og öðru slíku, sem verða enn að sitja á hakanum vegna fjárskorts. En þegar einhver hv. þm. fær þá flugu að stofna til nýrrar stúdentaverksmiðju, þá eru bændurnir sjálfir fremstir í flokki til að veita þeirri hugmynd liðsinni sitt. Ætli það væri ekki rjettara að láta slíkt bíða, en hlaupa ekki til þess að lítt hugsuðu máli. Það ætti öllum að vera ljóst, að jeg tala hjer ekki af neinum hjeraðametnaði. Jeg tel það sjálfsagða skyldu mína að líta hlutdrægnislaust á þetta mál, og einmitt þess vegna get jeg ekki með góðri samvisku verið því fylgjandi.

Sannarlega fanst mjer allundarleg sú játning hv. frsm. minni hl. (ÞorstJ) og annara helstu formælenda þessa frv., að ekkert gerði til, þótt neita þyrfti fjölda manna um inntöku í gagnfræðadeildina, til þess að nóg rúm væri jafnan fyrir lærðu deildina. Þessir hv. þm. vilja með öðrum orðum stofna lærða skólann á kostnað alþýðufræðslunnar. Þeir um það, en skýtur þar ekki nokkuð skökku við? Jeg lít svo á, að það sje hrópleg synd að stofna til þessarar nýju lærdómsdeildar, ef það getur ekki gerst með öðru móti. Mig mundi stórum furða á því, ef íslenskir bændur yrðu fjölmennir í flokki þeirra, er vildu leiða fræðsluna í landinu út á þá braut. Jeg segi fyrir mig, og hefi jeg ekki orð fyrir að vera neinn kjósendasmjaðrari, en ilt þætti mjer að þurfa að segja kjósendum mínum þá sögu, að jeg hafi verið því fylgjandi, að þetta yrði gert, á kostnað atvinnuveganna. Auk þess væri óheyrileg fljótfærni að gleypa við hugmynd þessari þegar í stað, þegar búið er að sanna með fullum rökum, að við getum vel látið úrlausn málsins bíða betri tíma. Það er þess vegna eðlilegt, að formælendur frv. vilji ekki tala um kostnaðinn, því að það er veika atriðið hjá þeim, sem þeir vilja ekki leiða inn í umræðurnar, og er því eina ráðið að þegja um það. Jeg vildi segja, að þarfara væri að eyða þeim peningum, sem í þetta færi, á annan hátt, sem sje að brúa heldur 1 til 2 ár á ári, eða leggja símalinur nýjar, þar sem kvartað hefir verið undan símaleysi.

Eins og nú standa sakir, tel jeg það fyrstu skylduna að ljetta undir með atvinnuvegunum í landinu, og þá sjerstaklega landbúnaðinum, sem hefir verið og er uppistaðan í hinu íslenska þjóðfjelagi. En hvað ætli það hjálpi bændum, þó að Akureyri framleiði þetta 10–20 stúdenta á ári, í viðbót við þá offramleiðslu á þeim, sem þegar er orðið frá Reykjavíkurskólanum? Jú, að einu leyti. Sveitirnar fengju háskólamentaða bændur, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) tók í mál. Það ætti enginn að vera svo vitlaus að halda, að nokkur maður láti sori sinn ganga háskólaveginn til þess að verða bóndi. Á hinn bóginn er jeg alls ekki viss um, þrátt fyrir hávaða þann, sem verið hefir hjer í deildinni, að það sje eindreginn vilji Norðlinga að koma þessum skóla á fót. Um Vestfirðinga og Austfirðinga er það að segja, að þeir hafa aldrei kvartað undan því, að ekki væri mentaskóli á Akureyri, og eru þeir sjálfsagt sama sinnis nú og þeir hafa verið.

Hæstv. forsrh. (SE) tók fram, að hvorki fyrverandi stjórn nje hans stjórn hafi gert neitt í þessu máli, og væri því undirbúningurinn á því óhæfilega lítill, svo að þegar af þeirri ástæðu væru ekki tök á að koma málinu fram á þessu þingi. Jeg er nú ekki viss um, að undirbúningurinn sje svo lítill; að minsta kosti er hann betri en á mörgum öðrum málum. Árið 1920 voru 2 skólafróðir menn fengnir til að athuga málið. Nutu þeir fulls trausts manna í þeim efnum, og gáfu þeir rækilegt nefndarálit um það. En þeir litu á málið frá sjónarmiði alls landsins, eins og meiri hl. mentamálanefndarinnar 1921. Þess vegna fóru tillögur þeirra í sömu átt og frv. sem nú liggur fyrir þinginu, að leggja niður gagnfræðadeildina við mentaskólann og gera hann að óskiftum lærðum skóla. Frá Reykvíkingum eru skjalleg skilríki fyrir því, að þetta fyrirkomulag sje heppilegra, þó þeir missi þau hlunnindi, sem þeir nú hafa af gagnfræðakenslunni við mentaskólann.

Jeg ætla mjer ekki að fara nákvæmlega út í kostnaðinn af því að hafa mentaskólann tvískiftan, eins og nú er, en það er fullvist, að með tímanum mun hann ekki eingöngu nema tugum, heldur hundruðum þúsunda. Hæstv. forsrh. tók það mjög rjettilega fram, að fjárhagur ríkisins leyfði ekki slíkar framkvæmdir fyrst um sinn.

Jeg gæti trúað, að svo færi með bæði frv., að það ynnist ekki tími til að afgreiða þau á þessu þingi, en þá vil jeg endurtaka þá áskorun til stjórnarinnar, að hún rói að því öllum árum að lagfæra skólafarganið í Reykjavík hið bráðasta, eins og mentamálanefndin (Guðmundur Finnbogason og Sigurður Sivertsen) fór fram á. Það er aðalhnúturinn, sem fyrst þarf að leysa. Hæstv. forsrh. hefir nú lofað öllu góðu, og er hins besta af honum að vænta. Jafnframt væri ákjósanlegt, að ráðstafað yrði nánara gagnfræðamentun í landinu, því að það verð jeg að telja litlar umbætur, ef loka á nemendur frá gagnfræðamentun á Akureyri. Ef svo hefir verið mörg undanfarin ár með aðsóknina að skólanum á Akureyri, að þá hafi þegar orðið að úthýsa nemendum, þá yrði það ekki síður áfram, er lærður skóli yrði haldinn þar í sama húsinu, því að heldur ætti aðsóknin þá að fara vaxandi. Þetta benti jeg á í fyrri ræðu minni, en nú skal jeg aðeins geta þess, að verði frv. samþykt, þá gæti vel svo farið, að Norðlingar myndu litlar þakkir kunna hv. flm. þess fyrir það að hafa komið þessari breytingu á.

Nú ætla jeg ekki að lengja umræðurnar meira og býst ekki við að taka oftar til máls í þessu máli.