28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (2237)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Jónsson):

Það hafa nú þegar nokkuð margir andæft framsöguræðu minni. Hv. frsm. meiri hl. (SSt) gaf þeim þm., sem það gerðu, þá einkunn, að þeir hefðu staðið sig svo vel, að í ræðu minni stæði ekki steinn yfir steini. En þó rótaðist hann í rústunum eftir megni. Það mun því vera mál til komið fyrir mig að reisa rústir þessar við að nokkru.

Þá vil jeg fyrst snúa mjer að ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Hann kom fyrst að því, að skólinn hjer framleiddi nógu marga stúdenta fyrir landið. Jeg er ekkert að deila um það, hvort stúdentarnir sjeu of margir eða fáir. Það mun vera erfitt að setja hæfileg takmörk um það. Ef gengið er út frá því, að stúdentar sjeu mátulega margir til að halda áfram embættisnámi, og þó þeir hafi lokið embættisprófi, fylli þeir aðeins í þau skörð, sem verða í embættisstjettinni, þá mun fjöldi þeirra vera meira en nógur. En jeg álít, að það sje gott, að það sje nokkur yfirframleiðsla á þessu sviði. Við það verða þeir undir í samkepninni, sem eru ver gerðir til þess að taka að sjer opinber störf.

Ef sett yrðu takmörk um stúdentafjölda, þá yrðu þau takmörk aldrei þannig, að gáfuðustu og efnilegustu mennirnir einir gengju mentabrautina; sumum yrði þá gert ókleift að komast yfir þröskuldinn, sem setja á, vegna fjárhagsörðugleika, en það eru oft og einatt ekki lökustu mennirnir.

Þá kom sami hv. þm. (JÞ) að því, að fyrir 2 árum hefðu nemendur mentaskólans að 2/3 verið úr Reykjavík, en 1/3 úr öllum hinum landshlutunum. Þarna sjest afleiðingin af því að hafa einn skóla. Jeg undrast þetta ekki og tel það lofsvert af foreldrum í Reykjavík að hafa áhuga á því að menta börn sín, en þetta sýnir, að Reykvíkingar standa betur að vígi en aðrir að láta börn sín læra í mentaskólanum. Hlutfallið mun ekki breytast við það, að tiltölulega verður miklu dýrara að lifa hjer í Rvík en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu.

Þá sagði þessi hv. þm. (JÞ), að þetta frv. færi fram á það að leggja niður gagnfræðaskólann á Akureyri. En þetta er ekki rjett. Í 1 gr. frv. stendur, að við gagnfæðaskólann á Akureyri skuli bætt lærdómsdeild. Gagnfræðadeildin verður því alls ekki lögð niður, heldur aðeins bætt við hana lærdómsdeild, og meir takmarkaður en áður fjöldi þeirra, sem ganga í gagnfræðadeildina. Hann sagði, að ef breyting þessi næði fram að ganga, þá yrði að synja helmingi þeirra, er sæktu um gagnfræðaskólann, um inntöku. En þetta held jeg að sje vel í lagt. Nú eru skólamál okkar að breytast, með byggingu alþýðuskólanna, sem fyrirhugaðir eru. Nú stendur til, að bygð verði viðbót við Eiðaskólann, og svo alþýðuskóli í Þingeyjarsýslu. Ef þessir skólar verða vel útbúnir, sem vænta má, þá hlýtur aðstreymi að gagnfræðaskólanum á Akureyri að minka, því að þetta verða nokkurskonar gagnfræðaskólar. Því hefir verið haldið fram af mjer og Sigurði skólameistara Guðmundssyni, að takmarka ætti töluna í bekkjum lærdómsdeildarinnar; jeg tók til 15 í bekk, en í gagnfræðadeildinni hafa oft verið um 30 í óskiftum bekk. Jeg hygg, að það sjeu engar öfgar, þótt jeg segi, að í gagnfræðadeildinni megi hafa með góðu móti 70–80 nemendur, þótt hún verði óskift.

Þá sagði hann, að jeg hefði sagt rangt til um tölu kennara, sem þyrfti við slíkan skóla, og komst að þeirri niðurstöðu, að þurfa mundi 9. (JÞ: Jeg sagði 7 fastakennara og 2 aukakennara). Við skulum nú athuga, hve miklu þetta munar. Í frv. er talað um 5 fastakennara. Nú eru þeir í rauninni 6; einn er að vísu ekki samkvæmt lögum fastur kennari. Auk þess eru 3 tímakennarar, sem hafa talsvert mikla kenslu, og sumir nálega eins mikla og fastir kennarar. Geri jeg ráð fyrir, að þeir kenni nálægt því, sem 21/2 fastakennarar myndu kenna. Þá ætla jeg, að áætlun mín sje rjett, að það þurfi ekki að bæta við nema sem svarar 11/2 kennara. Jeg vona, er hv. þm. (JÞ) athugar þetta, að hann sjái, að hjer er ekki um neina blekkingu að ræða, er svo nærri er farið hans eigin áætlun, því að á henni er þessi rökræðing mín um kennarafjöldann bygð. Hann sagði, að jeg hefði ekki tekið með í reikninginn, að deildunum fjölgaði við þetta. En jeg gat þess, að nú væri kent í 5 deildum, því að 2. og 3. bekkur eru tvískiftir. Það þarf ekki að bæta við nema einni kenslustofu.

Þá sló hann á þann strenginn, að það væri ekki vilji almennings að stofna ný embætti. Almenningur vildi engin ný embætti norður á Akureyri. Mjer er það fullljóst, að jeg er sammála því, að ekki beri að stofna ný embætti, nema í brýnustu nauðsyn. En mjer er spurn: Vill almenningur heldur stofna ný embætti hjer í Reykjavík en norður á Akureyri? Samkvæmt lýsingu hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) á aðstreyminu að mentaskólanum hjer má búast við því, að hjer þurfi að bæta við 2x2 embættum, og ef til vill mætti svo margfalda með 2, svo að kennaraviðbótin yrði tveir í þriðja veldi, Jeg býst ekki við, að almenningi muni vera ljúfara að stofna þessi embætti hjer en á Akureyri.

Þá gat hv. þm. (JÞ) þess, að þetta væri fjórðungsmetnaðarmál. Það er það ekki af minni hálfu. Jeg er ekki Norðlendingur og ekki þingmaður Norðlendinga. Fyrir mjer er þetta sparnaðarmál. Jeg vil, að fátækum og efnilegum ungmennum sje gert kleift að læra á þeim stað, sem ódýrastur er. Fyrir mjer er þetta löngun til þess að láta menn ekki gjalda þess, hvar á landinu þeir eru fæddir.

Þá kem jeg aftur að höfuðröksemd hans. Hann sagði, að ef skólarnir yrðu tveir, yrðu stúdentarnir helmingi fleiri. Jeg hefi sýnt fram á, að ef mál þetta gengur í gegn, þá yrði skólinn hjer minni en ella. Það er nú svo, að Norðlendingar og Austfirðingar, sem nú sækja Reykjavíkurskólann, mundu eingöngu sækja skólann á Akureyri. En þó svo nú væri, að stúdentatalan af Akureyri yrði algerð viðbót, sem ekki yrði nema því aðeins, að þeim yrði algerlega gert ókleift að sækja skólann hjer, þá tvöfaldaðist stúdentaframleiðslan ekki fyrir það. Þá sagði hv. þm., að allir gáfaðir og efnilegir menn, sem útskrifast hefðu frá Akureyri, hafi getað sótt hingað suður. Sje þetta nú rjett, þá eykst stúdentaframleiðslan ekkert, þó skólarnir verði tveir. Þar með er höfuðröksemd hv. 3. þm. Reykv. fallin um sjálfa sig.

Þá sagði hann, að eitthvað yrði að gera til þess að gera mönnum kleift að sækja skólann hjer, og taldi helsta ráðið að byggja heimavistir. Því verður ekki neitað, að það er mun hægra fyrir utanbæjarmenn að sækja skólann, ef nægilegum heimavistum er komið upp. En það hefir gagnstæð áhrif við það, sem hv. 3. þm. Reykv. vill. Því betur sem er um nemendur skólans búið, því fleiri sækja hann, og við það eykst stúdentaframleiðslan. Ef gengið er inn á þá braut, að gera mönnum eins hægt að sækja skólann hjer sem skóla á Akureyri, þá skapast svo mikið aðstreymi að þessum skóla, að stúdentaframleiðslan verður eins mikil og þó skólarnir væru tveir.

Jeg man svo ekki eftir fleiru í ræðu þessa hv. þm., sem jeg þarf að svara.

Þá kem jeg að háttv. 4. þm. Reykv. (MJ). Hann byrjaði á því, að vitanlega væri ekki hjer þörf á nema einum lærðum skóla, og talaði um það, eins og hv. 3. þm. Reykv., að ef skólarnir væru 2, yrði stúdentaframleiðslan meiri. En jeg hefi nú sýnt fram á það, að 2 skólar þurfa ekki að vera mikið stærri en 1, en meiri líkur til þess, að 2 litlir skólar sjeu betri en 1 skóli, jafnstór hinum báðum. Jeg veit, að margir skólamenn hafa sömu skoðun á þessu atriði og jeg.

Þá kom hv. þm. (MJ) með það, að nemendur, sem sæktu mentaskólann hjer, þyrftu ekki að ferðast til og frá skólanum að meðaltali nema 1/4 hluta strandlengjunnar. Vildi hann gera lítið úr því, að það yrði ódýrara hvað ferðakostnað snerti fyrir nokkra að sækja skóla á Akureyri en í Reykjavík, af því að ferðakostnaðurinn væri svo hverfandi lítill. Jeg hefi aldrei gert ferðakostnaðinn að neinu höfuðatriði í máli þessu. En vitanlega munar það nokkru á ferðakostnaði fyrir Norðlinga og Austfirðinga að fara til Akureyrar eða Rvíkur. Austfirðingar þurfa oft að ferðast norður fyrir land til þess að ná til Reykjavíkur. Þeir og Norðlingar þurfa að ferðast miklu lengra til þess að ná hingað en sem svarar 1/4 hluta strandlengjunnar.

Þó horfið yrði nú að því ráði að byggja heimavistir við mentaskólann hjer í Reykjavík, þá yrði hún þó altaf dýrari en heimavist við skólann norður á Akureyri. Því að allar lífsnauðsynjar eru miklu dýrari hjer. Þannig er t. d. mjólk 50–60% dýrari, kjöt 20–30% og nýr fiskur 100% dýrari. Sama verður og, sje það borið saman, hver munur er fyrir pilta, sem ekki geta notið heimavistar, að búa úti í bæ á Akureyri og hjer, því að á Akureyri kostar herbergi 20 kr., sem kostar 40 kr. hjer.

Að fara að flytja mentaskólann hjeðan til Norðurlands, get jeg ekki skilið að komið geti til mála, enda trúi jeg því ekki, að nokkur haldi því fram í alvöru, því að það væri ranglæti við höfuðstað landsins.

þá sögðust þeir, háttv. 3. og 4. þm. Reykv. (JÞ og MJ), vilja setja stíflu í þann mikla straum, sem fer inn í mentaskólann, með því að hafa skólann óskiftan lærðan skóla. Það er einmitt ein tilraunin til að gera norðan- og austanpiltunum, sem sækja gagnfræðaskólann á Akureyri, erfiðara með að halda áfram námi. Hlutföllin myndu því raskast þannig, að það yrðu fleiri Reykvíkingar, sem sæktu skólann í hlutfalli við nemendur úr öðrum hlutum landsins, en nokkru sinni áður. Því að þeir menn, sem hjer búa, þurfa ekki strax að taka ákvörðun um það, hvort þeir láti börn sín halda áfram námi gegnum allan skólann eða ekki. En menn úti um land yrðu að gera það strax. Af því myndi án efa leiða það, að eigi allfá fátækra manna börn ættu alls engan kost á að komast í mentaskólann, því að víða er það úti um land, að menn verða fyrst að láta börn sín í hina lægri skóla, eins og gagnfræðaskóla, til þess að sjá, hvað þeim er kleift, áður en þeir taka ákvörðun um að láta þau halda áfram námi.

Annars er þetta fyrst og fremst til þess að koma sem mestu djúpi á milli lærðra manna og ólærðra, til þess að koma upp tveimur stjettahópum í landinu, þar sem annar hópurinn sje yfirstjett, hinn undirstjett. Á milli þessara stjetta sje mikið djúp. Reynt sje að menta aðra sem best, en láta hina læra sem minst, og það, sem hún læri, sje hundavaðslærdómur, eins og hv. þm. Dala. (BJ) segir að eigi að vera hjá öllum þeim, sem ekki ganga lærða veginn.

Þá skal jeg snúa mjer að hæstv. forsrh. (SE). Hann talaði á móti þessu máli, af því, eftir því sem hann sagði, að hann teldi rjettast að taka öll skólamál landsins til nákvæmrar yfirvegunar á einu þingi. En því fer fjarri, að þetta raski á nokkurn hátt grundvelli skilamálanna. Og hins vegar býst jeg ekki við, að þau verði tekin til yfirvegunar á næsta þingi, og því síður afgreidd.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var sá eini, er virtist líta líkt á þetta mál og jeg, og jeg vil undirstrika það, sem hann sagði, að jeg er ekkert hræddur við það, þó að stúdentum fjölgaði svo, að nokkrir þeirra yrðu bændur, og jafnvel þó að nokkrir kandidatar yrðu það líka, því jeg er þeirrar skoðuna, að það geti verið gott fyrir sveitirnar að hafa nokkra góða bændur með svo hárri mentun.

Þá skal jeg víkja örlítið að hv. frsm. meiri hl. (SSt). Jeg hafði vitanlega svarað honum áður, en ekki sem skyldi.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði sagt, að hvergi væru efnamenn nema hjer í Reykjavík. En það sagði jeg alls ekki, heldur að engir nema efnamenn utan Reykjavíkur gætu kostað börn sín í skóla hjer. Þá upplýsti háttv. þm. það, að veturinn 1920–21 hefðu verið hjer í skólanum 17 nemendur frá Akureyrarskólanum, og það alt Norðlendingar. Þetta sýnir einungis, hve mikil mentaþrá Norðlendinga er og þrá þeirra að halda áfram á hinni lærðu braut. En þeir fara hingað af því, að þeir vita ekki, hve miklir erfiðleikar bíða þeirra hjer. Sýnir þetta jafnframt, að stúdentaframleiðslan hefði ekkert orðið meiri, þó að þessir menn hefðu átt kost á að fá sína stúdentsmentun norður á Akureyri. Þá er það alkunnugt, að fólk hefir beinlínis flutt utan af landi hingað til Reykjavíkur, til þess að geta frekar komið börnum sínum áfram til náms. Jeg skal ekkert tala um þá kosti eða lesti, sem á því eru að vera hjer í Reykjavík. En það dylst engum, að það er ekki heppilegt, að meginhluti þjóðarinnar safnist saman á einn stað.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. (SSt) með miklum hávaða um þann kostnað, sem þessi skóli mundi hafa í för með sjer, og sagði, að hann myndi ekki kosta tugi þúsunda, heldur hundruð þúsunda. En samt kom hann ekki með neinar tölur, sem hægt væri að byggja á.

Þá sagði hann, að sig undraði, ef margir úr Framsóknarflokknum fylgdu þessu máli, þar sem þeir hefðu það efst á stefnuskrá sinni að efla verklega þekkingu í landinu. Út af þessu skal jeg fræða hv. þm. um það, að Framsóknarflokkurinn er alls ekki á móti mentun í landinu, þvert á móti. Meðal annars lítur flokkurinn svo á, að það sje nauðsyn fyrir þá, sem ætla að nema verkleg fræði, að ganga fyrst í gegnum lærdómsdeild mentaskólans, til þess að fá haldgóða undirbúningsmentun. Hjer eru ólagðir símar, óbygðar brýr, vitar, verksmiðjur o. fl. Fyrir sum þessi fyrirtæki vantar okkur einmitt góða menn til að veita þeim forstöðu.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (SSt), að það væri gagnfræðamentunin, sem síst mætti takmarka. Mjer þótti vitanlega vænt um að heyra þetta frá honum. En samt undraði mig að heyra hann segja þetta. Því að óneitanlega hefir þotið öðruvísi í þeim skjá áður, þó ekki væri nema fyrir tveimur árum, er þessi hv. þm. hjelt langa ræðu hjer á Alþingi og komst að þeirri niðurstöðu, að öll alþýðumentun, og öll mentun yfirleitt, væri hreint og beint spillandi. Og vildi hann aðeins láta tvo skóla lifa á öllu landinu, lærða skólann og háskólann, þó að þær stofnanir væru líka, að hans dómi, spillandi.

Annars er það gleðilegt, þegar menn, sem komnir eru á efri aldur, fá heilbrigðari skoðanir en þeir hafa áður haft, eins og nú virðist eiga sjer stað um þennan háttv. þm.

Þá þótti honum undarlegt, ef bændur, sem hann sagðist þekkja vel, gætu verið með þessu skólamáli. En jeg get fullvissað hv. þm. um það, að jeg þekki bændur betur en flestar aðrar stjettir í þessu landi, og get frætt hann um, að hin æðri mentun er engin grýla í þeirra augum. Margir þeirra vilja láta börn sín læra meira en þeir áttu kost á að læra sjálfir. Þeir hafa þá trú, að þá myndu þau geta framkvæmt margt af því, er þá langaði til að framkvæma, en gátu ekki.

Bændum er því fyllilega ljóst, að sönn mentun er undirstaða flestra gæða lífsins. Og jeg hefi heyrt eftir sumum Ameríkuförunum, að eitt á meðal þess, sem hafi rekið þá burtu úr landinu, hafi verið það, að þeir gátu ekki fengið þá mentun handa börnum sínum, sem þeir vildu.

Þá mintist hv. frsm. meiri hl. (SSt) á álit milliþinganefndarinnar í mentamálum og fór lofsamlegum orðum um nefndina. Jeg er alveg sammála honum um, að það hafi verið margt gott, sem hún kom með, þó að jeg væri því ekki öllu samþykkur, eins og t. d. með fyrirkomulagið á mentaskólanum. En flest annað gat jeg skrifað undir með henni. En þá vildi þessi hv. þm. ekki líta við frv. um barnafræðslu og kennaraskólann, sem nefndin kom með (SSt: Þetta er satt), en nú minnist hann ekki á þetta. Það gleður mig því ósegjanlega mikið, að þessi hv. þm., sem jeg annars met mikils, skuli hafa breytt svona um skoðun og sje nú að verða frjálslyndari en hann hefir hingað til verið í mentamálum.

Það, sem jeg svo vil leggja aðaláhersluna á og vekja athygli háttv. þm. á, er það, að stúdentafjölgunin við það, að lærðu skólarnir yrðu tveir, getur aldrei orðið meiri en sem svarar tölu þeirra fátæku og efnilegu pilta, sem hætta verða námi að afloknu prófi við gagnfræðaskólann á Akureyri, sökum dýrtíðar hjer.