28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (2238)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Bjarni Jónsson:

Það er í rauninni samviskusök að vera 4. maður á móti þessum eina manni, enda myndi jeg ekki segja fleira í málinu, ef jeg þættist ekki vita, að nokkuð margir af hv. þm. muni vera sammála hv. frsm. minni hl. (ÞorstJ) og hafa í hyggju að greiða atkv. með frv. Það er þó ekki ætlun mín að fara nú að flytja nýjar röksemdir gegn rökum flm., því ýmsir aðrir hv. þm. hafa þegar gert það nægilega. Jeg vildi aðeins gera ofurlítinn samanburð á því örlæti, sem sumir hv. þm. vilja sýna í þessu máli, og sparnaðarviðleitni þeirra annarsstaðar. Þeir, sem fylgja þessu máli, vilja stofna 5 ný kennaraembætti á Akureyri. Var það rjett, sem háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) reiknaðist til um tölu þeirra. Má hann og vel vita um þessa hluti, þar eð hann var nemandi í latínuskólanum gamla um sama leyti og jeg var þar kennari. Hafði jeg þá á hendi 27–33 tíma kenslu á viku við skólann, og líkt var um aðra kennara, og svo myndi fara um þann fyrirhugaða skóla, því hann er í alla staði sambærilegur við hinn hvað þetta snertir. Voru mjer um þessar mundir borgaðar 1000 kr. fyrir mitt starf, og var það helmingi minna en mjer bar í samanburði við hina kennarana. Græddi landið þá á mjer 1000 kr. árlega, samanborið við laun lægstu kennaranna. Get jeg þessa bara til að sýna, að hann er ekki spánnýr þessi gróðavegur, að nota sjer neyð fátækra manna til að láta þá vinna fyrir hálft kaup. Skýtur þessi búhnykkur sparnaðarmannanna mjög skökku við þetta, sem hjer er á ferðinni, að stofna nú 5 ný kennaraembætti. Myndi hver kennari sjálfsagt ekki hafa minna en 7000 kr. laun, svo að samtals yrðu það 35 þús. kr., sem þessir örlátu menn ætla árlega að verja úr ríkissjóðnum í þessu skyni. Nú er það ljóst, að slíkur skóli getur ekki þrifist án bókasafns. Yrði því tæplega komið upp, svo að nokkur mynd væri á, fyrir minna en 100 þús. kr. á næstu árum. Skulum við segja, að þessari upphæð yrði skift niður á 5 næstu ár, og yrðu það þá 20 þús. kr. á ári, sem ríkissjóði þyrfti að blæða bókasafnsins vegna. Hjer við bætist svo aukin verkfæri og kensluáhöld, og má af þessu öllu saman sjá, að það er ekki lítið örlæti, sem þessir hv. þm. vilja sýna hjer. Lítur það dálítið undarlega út, þegar það er borið saman við það örlæti, sem lærða skólanum hjer hefir verið sýnt. Við hann og tvo aðra skóla hjer starfa 4 eða 5 kennarar, sem vinna fullkomið verk og hafa fullkomin laun, en eru þó ekki fastir kennarar. Er það sökum þess, að þingið hefir ekki haft einurð til þess að gera ný lög um þetta efni, og hefir því orðið að fara „út fyrir ramma laganna“, eins og einn hv. þm. nefndi það áðan, til þess að fullnægja þörfum skólans. Það virðist nú dálítið undarlegt, fyrst þingið hefir til þessa ekki haft einurð til að lögfesta þessa menn, að það skuli alt í einu vilja rjúka til að setja á stofn 5 ný kennaraembætti. Líklegra hefði verið, að hinir gömlu yrðu þó áður lögfestir. Og ekki tel jeg ólíklegt, að mörgum úti um landið finnist til um „órannsakanlega vegu“ þingsins, er þeir fara að bera þetta tvent saman.

Það hefir verið gerður samanburður á námskostnaði við skóla hjer og á Akureyri. Mun það vera rjett, sem hv. frsm. minni hl. (ÞorstJ) hefir sagt í því efni, að ýmsar nauðsynjavörur sjeu ódýrari á Akureyri en hjer. En það kemur dálítið í bága við afstöðu skólameistara til dýrtíðaruppbótarbeiðni embættismanna á Akureyri. Vildi hann þá gera lítið úr mismuninum á dýrtíðinni þar og hjer. Hefðu norðanmenn helst ekki átt að senda þetta skeyti um dýrtíðaruppbótina, úr því að þeir urðu þá að afneita því, sem þurfti að verða aðalstoð þeirra í þessu máli. En hvað sem því líður, þá mun jeg nú samt heldur trúa hv. þm. (ÞorstJ) en þeim í þessu efni. Þó er það einkennilegt, að ef borinn er saman námskostnaður á Akureyri og í Flensborg, þá verður hann meiri á Akureyri. Kemur þetta til af heimavistunum, sem eru í Flensborg. Er jeg því þeirrar skoðunar, að ef hjer væri komið upp heimavistum fyrir nemendur við lærða skólann, þá mundi munurinn verða sáralítill. Ef nú þeirri upphæð, sem það myndi kosta að koma upp bókasafni við Akureyrarskólann — (ÞorstJ: Skólinn á Akureyri á þegar gott bókasafn). Sje svo, þá hefir peningunum til þeirra bókakaupa verið stolið, því engin heimild hefir verið veitt til slíkra kaupa. Þykir mjer ótrúlegt, að skólameistarinn á Akureyri hafi í heimildarleysi tekið fje, sem ætlað var til annars, til að koma upp bókasafni við skólann. Kalla jeg fast sótt málið hjá háttv. frsm. minni hl., er hann vinnur það til að segja það, sem vel mætti gera skólameistarann að minni manni. Ætti hann, ef kostur er, að taka þessi orð sín aftur og játa, að safnið sje með öllu ófullnægjandi fyrir slíkan skóla, sem hjer er um að ræða. Jeg vík svo þar að, sem jeg hvarf frá fyr, að ef þeim 20 þúsundum, sem jeg gat um áður, yrði næstu fimm árin varið til þess að koma upp heimavistum við mentaskólann hjer, þá væri betur en ef þær færu til bókakaupa fyrir lærðan skóla á Akureyri. Svo stendur á, að mentaskólalóðin leyfir að bætt verði við bakhlið skólans tveim álmum, sem rúmuðu íbúðir fyrir 100 pilta, þótt vel væri um búið. Hefi jeg einu sinni komið fram með till. þessa efnis, en henni ekki verið sint. Er þó auðsætt, að ekki þyrfti að leggja í neinn ýkjakostnað til að framkvæma þetta. Nægja myndi það fje, sem jeg gat um áðan, að fara myndi til bókakaupa. Eftir 5 ár gætu þá heimavistirnar verið komnar upp og teknar að spara ærinn kostnað fjölda manns úti um alt land. Væri ríkissjóðnum bundinn ólíku ljettari baggi með þeim hætti en ef stofnaður yrði nýr lærður skóli á Akureyri.

Gera má líka annan samanburð á sparnaðinum og örlætinu innan þessa háttv. þings. Eins og menn vita, lagði hæstv. stjórn á öndverðu þingi fram frv. þess efnis að leggja niður sum helstu embætti landsins, svo sem landlæknisembættið, biskupsembættið og nokkur sýslumannsembætti. Er það undarlegt, að þetta skuli gerast á sama þinginu, sem ráðgerir svo að stofna 5 kennaraembætti norður í landi. Væri ekki nema vonlegt, þótt þeir athugulli af háttv. þm. þyrftu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir greiða atkv. með þessu frv. — Annars heyri jeg það sagt, að Norðlendingar leggi hið mesta kapp á þetta. Kvað skólameistarinn hringja þm. upp daglega til að stappa í þá stálinu. Hefir það jafnvel flogið fyrir, að skifta eigi á skóla þessum og járnbrautinni, og yrði þá ekki annað sagt en að skólinn yrði dýr, ef það bættist ofan á hitt. „Dýr mundi Hafliði allur,“ ef þessir 3 bekkir ættu að kosta alt þetta, og þá færi betur á því, að vel yrði stundað námið í þeim.

Háttv. frsm. minni hl. (ÞorstJ) vill ekki kannast við, að þetta sje metnaðarmál Norðlendingum. (ÞorstJ: Jeg vildi ekki kannast við, að mjer væri það neitt metnaðarmál). Nei, því get jeg trúað. Háttv. þm. er Austfirðingur, og ætti hann að hafa sömu aðstöðu til málsins sem jeg og aldrei að hafa flutt það. En öðru máli er að gegna um Norðlendinga. Það er fjórðungskappið, sem er hjer undirrótin. Það er sá gamli Hólaskóli, sem er að ganga aftur í hugum manna. En mönnum missýnist í þessu. Það stendur alt öðruvísi á nú en þá, Á Hólum var þá einnig biskupsstóll, og höfðu biskup og klerkar hans á staðnum ekki annað að gera þarfara en kenna við skólann, þegar þeir voru ekki að syngja sálumessur eða hafa yfir aðrar helgar tíðir. Var þeim hvort eð er nauðsyn að iðka sig í latínunni, svo mjög sem klerkar þurftu á henni að halda við guðsþjónustuna á þeim tímum. Ekki var þá heldur verið að píra úr ríkissjóðnum í þessa kennara, heldur gáfu ríkir foreldrar þeim hross góð eða jarðir að launum fyrir uppfræðslu sona sinna. Þá var gengið í vasa manna með trúarlyklinum, en með honum má ljúka upp mörgu, sem lykill ríkissjóðs gengur ekki að. Er því ekki saman berandi það hagræði, sem var að þessum skóla þá, og það, sem verða myndi nú, ef þá um nokkurt hagræði yrði að tala.

Þá vil jeg enn benda á það, til samanburðar við þessa sparnaðarmenn, að jeg, eyðsluseggurinn, hefi nú borið fram frv. um að sundurgreina gagnfræðaskólann hjer og lærða skólann. Um leið yrði ljett á ríkissjóðnum þeirri gagnfræðakenslu, sem hjer er, og myndu við það sparast laun 12 kennara. Verður þá mismunurinn milli míns sparnaðar og sparnaðar sparnaðarmannanna 16 kennara laun, auk þess, sem að öðru leyti þyrfti að kosta til þessa fyrirhugaða lærða skóla. Er jeg meira að segja fús að leggja það til, að lagður verði niður gagnfræðaskólinn á Akureyri sem ríkisskóli. Er ekkert jafnrjetti í því, að ríkissjóðurinn haldi slíka skóla fyrir 2 sýslur á landinu, þegar aðrar sýslur landsins verða einar að bera allan kostnaðinn við unglingaskólana. Að vísu drægist frá þessum sparnaði mínum sá styrkur, sem jeg væri fús á að veita þessum skólum, en þótt hann næmi 1/3 kostnaðar, þó yrði sparnaðurinn mikill samt.

Mjer þótti annars dálítið undarlegt að heyra háttv. frsm. rninni hl. (ÞorstJ) brigsla mjer um það, að jeg vildi hamla því, að fátækir menn næðu til menta. Mun jeg ekki svara þessu öðru en því, að hafi till. mínar í þeim málum, það sem af er, ekki verið á þá leið, að þær sjeu einar færar um að hrinda þessum brigslum, þá eru þau mjer makleg. Ella munu þau ekki á mjer hrína.

Það, sem jeg tel annars aðalatriðið í þessum málum, er það, að sama kensla á ekki við þann, sem ætlar lærða veginn, og hinn, sem aðeins æskir gagnfræðamentunar. Annaðhvort verður þá gagnfræðaneminn dreginn inn í alt of tímafrekan lærdóm, eða hinn látinn byrja nám sitt með því að hlaupa á hundavaði yfir námsgreinarnar, sem er mjög gagnstætt þeirri námsaðferð, sem ber að hafa við þann skóla, sem á að vera undirbúningur undir vísindanám. Er broslegt að heyra menn halda því fram, að þetta, sem er hrein nauðsyn, stuðli að því að skapa djúp á milli stjetta landsins. Er þetta líkast því, sem reykvískur bolsiviki væri að tala. Lærðir menn hafa aldrei verið nein sjerstök stjett á þessu landi. Þeir hafa, sem betur fer, yfirleitt verið nógu lærðir til þess að ofmetnast ekki af lærdómi sínum.

„En það eitt nam hann þó,

sem vel vjer vitum,

að viskan er ei sæla,

en vanþekking í vanþekkingar stað.“

Jeg ætla svo ekki að minnast á fleira, sem háttv. frsm. minni hl. (ÞorstJ) sagði áðan, því hinir, sem hann hefir mælt til, geta svarað fyrir sig.

Þó vil jeg víkja að skoðun háttv. flm. (ÞorstJ) á barnaskólamentuninni og tillögum mínum. Vil jeg benda honum á, að það er ekki barnaskólamentun, sem bændur þrá mest fyrir börn sin; enda fer því svo fjarri, að um nokkra mentun sje að ræða í barnaskólum vorum, að það eru aðeins allra duglegustu og gáfuðustu börnin, sem sleppa þaðan óskemd. Jeg tek það fram, að jeg er á engan hátt að lasta barnakennara vora; þeir eru langflestir nýtir og góðir menn. En þeim er nær ætið fengið verkefni, sem þeim er ókleift að leysa af hendi. Það þýðir ekki að hrúga börnum tugum saman í eina deild, eins og fje í rjett, og fá svo einum manni alt til meðferðar. Þau þurfa að fá kenslu hvert eftir sínu gáfnafari og hæfileikum, og verður að flokka þau þannig. Kennararnir þurfa að hafa fengið þá sálfræðilegu undirstöðumentun í uppeldismálum, sem gerir þá færa um að gegna þessum störfum. Þeir eru maðurinn með vaxtöfluna, sem mörkuð er hið fyrsta sinn, og þar má enginn klaufadómur koma til eða fingraför á sjást.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að mínu frv., sem nú er fengin vissa fyrir að fram muni ganga á þessu þingi. (ÞorstJ: Það er algerlega vonlaust um það?) Já, mikið munar nú um hann, þennan háttv. þm.; jeg heyri nú, að hann muni ætla að snúast á móti því, en það skiftir litlu, því jeg veit, að meiri hluti þingsins er með því, og hefi jeg þó ekki smalað því fylgismönnum. Þar sem nú ekki er hægt að samþykkja bæði þessi frv., verður þetta frv., sem nú er til umræðu, að bíða þangað til skipað hefir verið fræðslumálum landsins samkvæmt því, sem ráð er fyrir gert í mínu frv. þýðir eigi að ætlast til að hafa tvo lærða skóla í senn með mismunandi fyrirkomulagi í þessu landi, til þess eins, að búa til of marga stúdenta.

Leyfi jeg mjer því að bera fram svo felda rökstudda dagskrá:

Þar sem frv. liggur fyrir deildinni um gerbreyting á hinum almenna mentaskóla, er sennilega verður að lögum, þá verður þetta mál að bíða þar til fyrirkomulag á slíkum skólum í framtíðinni er ákveðið. Tekur deildin því fyrir næsta mál á dagskrá.