24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Jeg saknaði þess úr ræðu hæstv. forsætisráðherra (SE), að hann skýrði frá því, hvað ríkisstjórnin hefði aðhafst í þessu máli frá því á síðasta þingi, því ef marka má orð þeirra, sem atkvæði greiddu með þessu máli í fyrra, en þó töldu sig bannmenn, ætluðust þeir til þess, að undanþágan stæði aðeins sem allra styst. Og líkur mun verið hafa vilji landsmanna yfirleitt. En hins vegar hefir stjórnin gengið lengra en ástæða var til í framkvæmd laganna hjer innanlands, þar sem hún hefir sett upp áfengissölur á ýmsum stöðum, gagnstætt vilja hjeraðsstjórnanna. Það er ómögulegt að hugsa sjer, að krafa Spánverja hafi náð svo langt. Þegar búið er að láta undan með því að leyfa innflutning á vínum og vínið er fáanlegt í útsölu ríkisins, er kröfunni fullnægt. En hæstv. ríkisstjórn hefir gengið lengra. Hún hefir þröngvað ýmsum hjeruðum til að hafa vínsölu þvert ofan í yfirlýstan vilja þeirra. Og ber því að víta ríkisstjórnina fyrir þetta. Og það því fremur, sem allmargir eru þeirrar skoðunar, að lögin um takmörkun gegn áfengisveitingum, sem voru í gildi áður en bannlögin komu, komi í gildi við undanþáguna, og það sje því rjettur hjeraðsstjórna að ákveða, hvort vínveiting og vínsala skuli fara fram í hjeraði þeirra eða ekki. Þetta hefir ríkisstjórnin virt að vettugi, og ber einnig að víta hana fyrir það. Það er líka undanhald hjá hæstv. ríkisstjórn í þessu máli, að í frv. stjórnarinnar er kipt í burtu því ákvæði í núgildandi lögum, sem bindur undanþáguna við eitt ár, en með frv. stjórnarinnar er því eiginlega slegið föstu, að þessi lög eigi að standa áfram. Og þó að auðvitað megi taka þau upp á næsta þingi, þá er það þó ekki eins sjálfsagt eins og nú er. Og þetta undanhald er áreiðanlega ekki til neins góðs.