09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

60. mál, bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

í hv. Nd. hafa komið fram breytingar í þá átt, að lána megi nokkuð af tekjum bjargráðasjóðsins. Allshn. hefir athugað málið frá ýmsum hliðum, og sjer ekkert verulegt á móti því, að lánað væri úr sjóðnum, líkt og frv. fer fram á.

En allshn. hefir þótt rjett að koma fram með rökstudda dagskrá þess efnis, að leitað verði álits rjettra hlutaðeigenda, sýslunefndanna, um það, hvort fje bjargráðasjóðanna skuli lána út samkvæmt frumvarpinu. Í sambandi við þetta hefir nefndin lagt til, að athugað verði, hvort ekki sje rjett að láta bjargráðasjóðinn að einhverju leyti eða öllu ganga til ellistyrktarsjóðanna, til þess að ljetta undir með sveitarsjóðunum við framfærslu gamalmenna. Þetta nefndarálit er framhald af því áliti allshn., að nauðsynlegt væri að geta aflað ellistyrktarsjóðunum tekna, og að tilgangi þeirra yrði náð fyr með því að ráðstafa bjargráðasjóðnum á þennan hátt. Bjargráðasjóðurinn er nú um 400 þús. kr., en árlegar tekjur og rentur eru um 65 þús. kr. (misritast hefir í nál. 40 þús. í stað 65 þús.), en fyrir eru um 650 þús. kr. í ellistyrktarsjóðunum og væri sjóðurinn þá þegar orðinn rúm 1 miljón. Ef úthlutað væri á sama hátt og áður, og eftir þeim reglum, er gilda um úthlutun úr ellistyrktarsjóðum, mundu útborganirnar verða rúmum þriðjungi meiri en áður, eða rúmur þriðjungur af allri úthlutunarupphæðinni kæmi þá frá bjargráðasjóðnum.

Úthlutunin mun nú vera um 70 þús. kr., en ef 1/3 hluti af árstekjum bjargráðasjóðsins bættist áfram við höfuðstólinn, þá mun hann geta orðið mjög stór, en auk þess bætast við til úthlutunar fyrir ellistyrktarsjóðina rúmar 40 þús., svo að árlegar útborganir geta nú strax orðið um 110 þús. kr.

Ef þetta kæmist í framkvæmd, þá álít jeg máli þessu vera komið í betra horf, og öruggur styrkur fenginn, sem að allmiklu gagni mætti koma. Allshn. fer fram á, að leitað verði álits hlutaðeigenda um þetta, og leggur til, að dagskráin verði samþ. á þessum grundvelli.