05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (2271)

116. mál, friðun á laxi

Flm. (Jónas Jónsson):

Við háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf) berum þetta frv. fram. Ástæðan til þess er sú, að núgildandi laxaveiðilög frá 1886 eru að mörgu leyti orðin úrelt. í frv. eru nokkur nýmæli. Í þriðju grein er gert ráð fyrir banni gegn sprengingum og laxakistum í laxveiðiám. Því að töluverð óánægja er viða út af því að hafa laxakistur í veiðiám, sjerstaklega neðarlega í þeim, því að þær spilla veiðinni ofar, með því að hefta för laxins upp eftir. Þessu til staðfestingar hefi jeg látið prenta hjer, sem fylgiskjal, brjef til Alþingis 1918 frá allmörgum mönnum í Þingeyjarsýslu, sem veiði eiga í Laxá og í veiðiám, sem í hana renna. Og ókunnugum til skýringar skal jeg taka það fram, að nú um lengri tíma hafa verið notaðar laxakistur neðst í Laxá, og hafa þær verið taldar hindra göngu laxins upp eftir ánni og því spilla veiðinni fyrir þeim, sem veiði hafa átt ofar í henni.

Jeg skal líka taka það fram, að það virðist ekki heppilegt að hafa þau veiðitæki neðarlega í veiðiám, sem hindra göngu laxins upp eftir, því að hann þarf að komast upp í árnar til þess að hrygna. Að hefta göngu hans upp eftir ánum er því sama og fækka honum.

Jeg talaði nýlega við Hermann Jónasson, sem eflaust er einn hinn fróðasti í þessum efnum hjer á landi, og sagði hann, að við Kyrrahafsströndina í Ameríku væri laxinn ekki veiddur í ám, heldur í fjörðum og flóum úti fyrir árósum. Laxveiðiárnar voru því notaðar sem stórar klakstöðvar.

Brtt. okkar við (5. gr. laganna frá 1886 tel jeg til bóta. Því að þegar þau voru sett, var laxaklakið ekki þekt hjer eins og það er nú. En þar sem þingið er nú farið að styrkja menn til þess að kynna sjer það, og töluverður áhugi virðist orðinn fyrir því, er ekki nema rjett að setja lagaákvæði því viðvíkjandi. Breytingartillagan fer því í þá átt, að þeir bændur, sem veiði eiga í sömu veiðiánni, geti ímyndað með sjer klakfjelag, og að stjórn þess megi jafna kostnaðinum niður á fjelagsmenn.

Enn fremur er gert ráð fyrir, að hvert klakfjelag fái jafnmikla upphæð úr landssjóði eins og fjelagsmenn leggja sjálfir fram, ef Búnaðarfjelag Íslands vottar, að framkvæmdir fjelagsins sjeu gerðar með þess ráði og samþykki.

Jeg lít svo á, að klakfjelög þessi sjeu nauðsynleg, og að þau þurfi að reka með hjálp allra, sem veiði eiga í sömu ánni. En án heimildarlaga er það ekki hægt.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta mál nú, en legg til, að því verði, að umr. lokinni, vísað til landbúnaðarnefndar.