19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (2293)

55. mál, útflutningur hrossa

Pjetur Ottesen:

Mjer sýnist andúð hv. 1. þm. Rang. (GunnS) gegn rýmkuninni ástæðulítil.

Hann vill sporna á móti því, að útflutningur á hrossum geti undir nokkrum kringumstæðum átt sjer stað í apríl og maí, sökum þess, hve hross sjeu þá yfirleitt í slæmu útliti, en gætir þess ekki, að samkv. núgildandi lögum er útflutningur leyfður í byrjun júní, og mun þó flestum koma saman um, að þegar illa árar og vorharðindi eru og gróður kemur seint, sje útlit hrossanna og holdafar engu betra fram eftir júnímánuði, og á þetta ekki síst við á Norðurlandi, þar sem venjulega grær seinna. Er því í raun rjettri ekki hægt, hvað þetta snertir, að gera hjer upp á milli þeirra þriggja mánaða. Verður tryggingin fyrir því, að hrossin sjeu ekki send til útlanda í því ástandi, er spilt geti fyrir markaðinum, bara að byggjast á því, að eftirlitið sje gott með útflutningnum.

Held jeg, að ummæli hv. þm. (GunnS) um slakt eftirlit sjeu ástæðulaus. Er mjer ekki kunnugt, að hv. þm. þekki til um þetta annarsstaðar en hjer í Reykjavík, og þar er það gott að hans dómi.

En það er sanngirnis krafa, að útflutningur sje aldrei algerlega bannaður, ef sjerstaklega stendur á, eins og t. d. í vetur. Má segja stjórninni það til lofs, að hún mat hjer meira hagsmuni landsmanna en hinn strangasta bókstaf laganna. Munar það hvorki meira nje minna en 100 þús. kr. tekjum fyrir landsmenn, að undanþágan var veitt, og 40 þús. kr. er verðmunurinn milli þess, sem fjekst fyrir hrossin nú, eða fengist hefði fyrir þau í sumar, með því verði, er þá var á þeim. Held jeg fast fram, sem fulltrúi landbúnaðarins, að eigi sje girt fyrir það með lögum, að hægt sje að koma hrossum á markaðinn, ef gott verð býðst, og það því fremur, þar sem það á að vera trygt með eftirliti dýralækna við útflutninginn, að eigi sjeu flutt út nema gallalaus hross og í góðu útliti.

Nú er og allur umbúnaður í skipunum stórbættur frá því sem áður var, og svo vel um það búið sem kostur er á að tryggja sæmilega líðan hrossanna á leiðinni, enda er það nú miklu sjaldgæfara en áður var, að nokkuð verði að hrossunum á leiðinni, þó ilt komi upp á.

Vonast jeg til, að hv. deild fallist á frv., þar sem undanþága þessi kemur því aðeins til, að sjerstaklega standi á, og þess að sjálfsögðu gætt að hafa eftirlitið sem tryggast.