21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

55. mál, útflutningur hrossa

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi láta frv. þessu fylgja nokkur ályktunarorð við 3. umr., án þess að ganga inn á einstakar greinar þess. Og vil jeg þá byrja með að geta þess, að jeg álít ómannúðlegt að flytja út hross á þessum tíma árs, sem hjer um ræðir. Menn verða að líta á það, að Ísland liggur úti í miðju Atlandshafi, og þessir hestar verða að velkjast í sjógangi um hávetur, þegar veður eru verst. Í öðru lagi vildi jeg geta þess við þingfulltrúa bænda, að ilt er að flytja út vöru á þeim tíma árs, sem hún er verst útlits, því að aldrei verður við því spornað, að eigi slæðist illa útlítandi hross með, fremur en á sumrin; lækkar þetta verðið á hestunum og spillir markaðinum yfir höfuð fyrir framtíðina. Sá lítilfjörlegi hagnaður, sem af þessum útflutningi getur hlotist fyrir einstaklinga um stundarsakir, jetur sig upp, og meira en það, í markaðsfalli erlendis.

Hugsum okkur skip landssjóðs vera að þræða hverja höfn að vetrarlagi til að sækja 10–20 hesta. Hvað mundi það kosta mikið meira í rekstri skipanna, heldur en nennir „brúttó“- söluverði hestanna? Það er ekki ólíklegt, að ríkissjóður yrði að hlaupa undir bagga til að bæta hallann af þessum þvælingi skipanna.

Menn vita, að ekki getur átt sjer stað, að hestar sjeu reknir langt að yfir landið að vetrarlagi. Þetta er svo óviturlegt, að fremur ætti að banna það með lögum en leyfa, enda þótt jeg játi, að betra sje að flytja hrossin út heldur en ef þau fjellu.