24.03.1923
Efri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (2310)

55. mál, útflutningur hrossa

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg sje það, að enginn ætlar sjer að taka til máls um frv. þetta, og ætlaði jeg mjer eigi heldur að gera það, en jeg vildi aðeins leyfa mjer að beina því til hv. landbn., því væntanlega kemur mál þetta til hennar, að hún taki málið til rækilegrar íhugunar, því að það er fyllilega þess vert. Jeg furðaði mig mjög á því, er hæstv. stjórn veitti þessa undanþágu í vetur, því mjer virðist það á móti allri mannúð og öllu því, sem gert hefir verið í þá áttina að vernda skepnur fyrir illri meðferð. Því að þó að alt hafi farið slysalaust í þetta sinn, þá er eigi víst, að svo fari næst. Virðist mjer varhugavert að ýta undir stjórnina, eins og gert er með þessu frv., ef að lögum yrði, að leyfa útflutning að vetrinum, þar sem það, auk þess sem áður er fram tekið, gæti einnig orðið til þess að spilla hrossamarkaðinum í framtíðinni.