03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (2316)

55. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg ætla mjer ekki að bæta miklu við það, sem jeg hefi áður sagt um málið. Hv. 4. landsk. þm. (JM) talaði hógvært og vel um frv. Jeg vil á engan hátt gera lítið úr því, að gæta þurfi allrar varúðar um útflutning á vetrum. Álít jeg, að eigi sje viðlit að hugsa til útflutnings, ef harðindi ganga og ill veður. Háttv. 4. landsk. þm. (JM) tók það fram, að allra veðra væri von á vetrum, og er það fyllilega satt, en mjer finst satt að segja liðinn af hávetur, þegar komið er fram í apríl; að minsta kosti eru veðrin ekki verri þá en í des.–mars. Og eigi mundi jeg hvetja til þess að tíðka óþarfa útflutning á þeim tíma, sem hætt er við, að skepnunum liði illa. En jeg tel ekki litla nauðsyn á því, að geta flutt hross út á þeim tíma, sem best er að selja. Háttv. þm. (JM) fellst á, að það skifti í rauninni ekki miklu máli, hvort till. hans yrði samþ. eða ekki. Ef hún yrði feld, hefir næsta þing óbundnar hendur og þarf ekki að taka málið upp frekar en það telur nauðsynlegt. En sje till. samþykt, má næsta þing til með að taka málið upp. Jeg er síst á móti því, að landsstjórnin fengi tillögur Búnaðarfjelags Íslands, ef um undanþágu er að ræða; álít jeg rjett að ganga sem tryggilegast frá því atriði. En það hefir sýnt sig, að ómögulegt er að fara eftir lögunum eins og þau eru nú.

Hv. 2. þm. Rang. (GGuðf) sagði, að hv. Nd. hefði reynt að fyrirbyggja það, að flutt yrðu út ljót hross. Hvergi hefi jeg getað sjeð það. En hv. Nd. lagði bann við því að flytja út hross í apríl og maí, líklegast af hræðslu við það, að þau mundu farast. Háttv. þm. sagði, að minna gerði til um undanþágu, ef svo bæri undir, en að lögunum yrði breytt. Jeg legg eigi mikið upp úr því. Jeg er sannfærður um, að frv., eins og það er frá hendi nefndarinnar, er miklu betra. Háttv. þm. sagði, að sjer þætti vænt um, að fleiri en hann hefðu orðið til þess að tala máli hestanna. En það er nú óreynt enn, hvor okkar fer betur með skepnur. Þekki jeg þess mörg dæmi, að það er töluvert annað að tala fagurlega um hesta eða fara vel með þá.