03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

55. mál, útflutningur hrossa

Sigurður Jónsson:

Jeg get hugsað mjer, að nefndin taki til íhugunar bendingu háttv. 4. landsk. þm. (JM), og einnig tel jeg sjálfsagt, að leitað sje álits Búnaðarfjelagsins. Það, sem mjer virðist einkum íhugunarefni í þessu máli, er það, hvort ekki sje heppilegra að dreifa hrossaútflutningi á lengri tíma en verið hefir, því það er alkunnugt, að landbúnaðarafurðir okkar, svo sem kjöt og gærur, seljast lakara vegna þess, að vörurnar hrúgast að mestu leyti á markaðinn á mjög stuttum tíma. Þetta held jeg að hafi aðallega vakað fyrir fhn. í háttv. Nd., og jeg felst á það, ef ekki koma knýjandi ástæður á móti. Um mannúðina ætla jeg ekki að tala að sinni. Jeg efast um, að það fyrirkomulag, sem frv. fer fram á, sje verra fyrir hrossin, nema síður sje, enda vona jeg, að svo verði sjeð um útflutning hrossa, að þau þurfi ekki að liða sjerlega mikið.