03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

55. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. 2. þm. Rang. (GGuðf) hjelt, að jeg hefði misskilið sig, en það gerði jeg ekki. Jeg var ekki að tala um ljóta hesta sem horaða og illa útlitandi, heldur illa skapaða. Og jeg vona að háttv. þm. viti, að allir hestar eru ekki eins að því leyti. En háttv. 4. landsk. þm. (JM) misskildi mig, því jeg talaði ekki um vont veður dag og dag, heldur yfirleitt vonda tíð, og ætti þá að varast útflutning, en hitt datt mjer ekki í hug, að hægt væri að fyrirbyggja, að hrossin lentu einhverntíma í vondu veðri. Fyrir þau annes er ekki hægt að synda á hvaða tíma árs sem er.

Þá finst mjer það skrítin mótbára hjá hv. þm. (JM), að hann ætli að vera á móti frv., ef brtt. hans verður feld. Jeg sje ekki betur en að þingið hafi það altaf á valdi sínu að breyta lögunum, og brtt. háttv. þm. getur því ekki verið neitt aðalatriði. Ef lögin reynast illa, þá er sjálfsagt að breyta þeim, en hvaða mun getur það gert, hvort út er flutt samkvæmt lögum eða með undanþágu frá stjórnarráðinu. Og það er lítil þörf á að fyrirskipa breytingu áður en sjeð verður, að breyta þurfi.