24.03.1923
Efri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (2333)

101. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Háttv. deild er það kunnugt, að í fyrra var samþykt þál. þess efnis, að skora á stjórnina að rannsaka, hvort ekki væri fært að fækka dómendum í hæstarjetti um 2 og bera fram frv. í þá átt, ef slíkt teldist fært. Jeg hefi ekki sjeð mjer fært að flytja slíkt frv., og jeg hygg að það sje óheppilegt að fækka dómendum nú, þegar dómstigin eru aðeins 2, því vitanlega er minni trygging í rjettinum, ef dómendum er fækkað. Jeg hefi borið þetta undir hæstarjett sjálfan og hefir justitiarius og 3 af dómendunum lagt á móti breytingunni, en einn dómendanna, L. H. Bjarnason, hefir skrifað sjerstaklega um þetta mál, og jeg skil hann svo, að hann líti svo á, að því aðeins megi fækka dómurum, að dómstigum sje fjölgað. En verði nú bætt við einu dómstigi, þá má vera að tryggingin minki ekki, þó að um 2 dómendur sje fækkað í hæstarjetti, en þá sparast heldur ekki neitt.

Jeg býst við að frv. verði vísað til nefndar, og skal jeg þá gera henni nánari grein fyrir þessu máli.