24.03.1923
Efri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

101. mál, hæstiréttur

Jón Magnússon:

Jeg ætla ekki að tala um frv. sjálft; aðeins gera athugasemd út af ummælum háttv. 5. landsk. þm. (JJ). Mjer virtist hann setja stofnun hæstarjettar í samband við einhverja fullveldisvímu, en það er ekki rjett. Sú ósk á sjer miklu lengri aldur. Jafnvel fyrir um 50 árum var farið að brydda mikið á henni, og síðan hefir hún altaf látið meira eða minna á sjer bera. En þegar fullveldið var viðurkent, þá fjellu burt þær hömlur, sem verið höfðu áður á framkvæmdinni, og þess vegna er það ekki alveg rangt, að setja flutning hæstarjettar í samband við fullveldið, en hitt er ekki rjett að segja, að fullveldið hafi verið orsök heimflutningsins, heldur gerði það hann aðeins mögulegan. Jeg vildi aðeins leiðrjetta þennan misskilning.