01.03.1923
Neðri deild: 9. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (2352)

31. mál, gjaldeyrislántaka

Bjarni Jónsson:

Jeg var viðstaddur á fundi þeim, er hv. 2. þm. Reykv. (JB) mintist á, og hafði hann ekki alls kostar rjett eftir ummæli bankastjórans. Hann sagði, að Íslandsbanki þyrfti engrar hjálpar við sjálfs sín vegna, heldur til þess að sjá hag landsins borgið. Svo átti að skilja orð hans, og vil jeg leiðrjetta, þar eð sá maður getur ekki borið hönd fyrir höfuð sitt hjer.

Háttv. meðflm. minn, 1. þm. Reykv. (JakM), hefir tekið fram afstöðu okkar til frv. þessa. Er í því gerð krafa til stjórnarinnar og bankanna um það, að stöðva gengið og varna því, að íslensk króna falli meira í verði, jafnvel þótt það kosti útgjöld af hálfu ríkissjóðs og bankanna.

Í sambandi við ummæli hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) vil jeg láta þess getið, að jeg er honum sammála um það, að hættulegt sje, að gengið hækki snögglega. Er aðalatriðið það, að stöðva gengið, en láta það svo hækka á mörgum árum, þegar haganlegast þykir.

Aðrar leiðir hafa líka verið nefndar til að stöðva gengið, t. d. kröfur Landsbankans um innflutningshöft. Er auðvitað, að með því fæst meiri munur innflutnings og útflutnings en ella, ef skynsamlega er með farið. En þá hygg jeg að skynsamlegast væri að banna innflutning einhverra vissra vörutegunda. Mætti t. d. nefna, ef stjórnin vildi skipa tóbakskaupmanninum að flytja ekki inn meira tóbak, eða þá skipa vínkaupmanninum að kaupa ekkert, nema ef þess væri krafist. Þetta ætti að geta bætt verslunarjöfnuðinn, og þessa pilta ætti stjórninni að vera innan handar að ráða við.

Mönnum hefir orðið tíðrætt hjer um margskonar lögmál, og skal jeg ekki fara út í neinar lögmálsþrætur. En eitt lögmál þekki jeg þó, og það er það, að sje um margar skuldir að ræða, sem fallnar eru í gjalddaga, þá minkar lánstraust skuldunauts. Ætti því að vera ljóst, að það muni ekki bæta lánstraust landsins, ef um 6 miljónir af lausum skuldum, föllnum í gjalddaga, eru að þvælast á markaðinum. Verða háttv. þm. að gæta þess, að hjer er ekki um nýja skuldastofnun að ræða, heldur um hagræðing á skuld, svo að hún komi ekki jafnþungt niður. Sýnist sjálfsagt og hættulaust, að stjórnin hjálpi bönkunum, ef þeir eru ekki einfærir um það, að festa gengið. Er því nauðsyn á, að stjórnin hafi heimild þessa, og hefði hún fyr legið fyrir, þá mundi hafa verið farið eftir ráðum okkar fulltrúaráðsmannanna, sem álitum, að það væri vilji Alþingis að hafa taumhald á gengismismuninum.

Annars er einkennilegt, hversu kalt andar altaf í garð Íslandsbanka. Er það broslegt, að jeg skuli altaf þurfa að halda uppi svörum fyrir stofnun þessa, sem jeg hefi í raun og veru verið á móti frá byrjun. En jeg vil ekki gera stofnuninni rangt til, og síst þegar það hefir tjón í för með sjer fyrir alt landið, því svo eru atvinnuvegir landsins fljettaðir orðnir við alla starfsemi bankanna, að tjón þeirra verður þjóðartjón. Er sök Íslandsbanka hjer engin önnur en sú, ef sök skyldi kalla, að bankinn starfar með útlendu fje, sem þó er ódýrara en nokkurt annað fje, sem við nú höfum völ á frá öðrum löndum, en sækjumst þó eftir. Ber og enn þess að gæta, að nú er bankinn algerlega kominn undir innlenda stjórn, og hvílir því á ábyrgð stjórnarinnar og er orðinn algerlega innlend stofnun.

Vil jeg gera athugasemd þessa, því að jeg veit, að úlfaþytur sá, er staðið hefir um bankann, er til bölvunar. Vil jeg láta sjá, að jeg þori að ganga á móti röngu máli með rjettum rökum.

Mjer kom það dálítið á óvart að hv. meðflm. minn (JakM) efaðist um það, að frv. þetta yrði samþykt. Enginn hlutur er sjálfsagðari en að það verði samþykt. Bjóst jeg við, að stjórnin mundi þiggja heimildina feginshendi, enda reynslan sú.

Hefi jeg ekki fyr lagt til þessara mála á þingi nú, enda sat illa á mjer, eftir vottorðið frá þeim hæstvirta. En því treysti jeg nú, að hv. þm. láti frv. ná samþykki. Vil jeg að síðustu geta þess, að ekki er nema eðlilegt að hv. 1. þm. Skagf. (MG) vilji sjá skýrslu hagstofunnar, enda má frv. vel bíða þess tíma.