05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

31. mál, gjaldeyrislántaka

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Á öndverðu þinginu kom fram frv. um heimild til gjaldeyrislántöku, og var því vísað til fjhn. Nefndin skilaði áliti sínu, sem prentað er á þskj. 359. Hún lítur svo á, að stjórnin hafi fulla Heimild til lántöku í lögum nr. 76, frá 27. júní 1921, og þess vegna þurfi ekki að samþykkja ný lög um þetta. Þessi heimild er ekki tímabundin, að öðru leyti en því, að hún gildir á meðan fjárkreppan varir; og hún stendur vissulega enn þá. Þó að nefndin liti svona á, þá er hún hvorki að skylda stjórnina nje hvetja hana til lántöku. En meiri hl. nefndarinnar leggur það í vald stjórninni, og telur, að slík lántaka skuli aðeins gerð í ítrustu nauðsyn og þeim eina tilgangi, að halda jafnvægi á gengi íslensku krónunnar. Þó þannig, að ekki verði farið yfir 4 milj. kr.; og í öðru lagi er, samkvæmt nál., sett það skilyrði, að fyrirfram sje það trygt, að ekkert af lánsfjenu verði eyðslufje ríkissjóðs. Eins og nefndarálitið ber með sjer, þykir nefndinni mestu varða, að gengi hinnar ísl. krónu sje stöðugt, og að sem allra minstar sveiflur sjeu á því. Lágt gengi á krónunni er að vísu slæmt, og það verður að stefna að því, að færa það í lag með gætni og ýta því hægt upp á við. Sjerstaklega verður að varast stórar sveiflur, t. d. eins og þá gengisröskun, sem kom um síðastliðin áramót. Slíkar sveiflur álítur nefndin skaðlegar, hvort heldur þær leiða til bráðrar hækkunar eða lækkunar genginu.

Um till. þá til þál., sem kom fram snemma á þinginu, um verðgildi ísl. krónu, er þess að geta f. h. fjhn., að ef hin rökst. dagskrá, sem nefndin nú ber fram, verður samþ., mun nefndin ekki afgreiða þessa till. frá sjer sjerstaklega, því að af nál. sjest, að nefndin lítur svo á, að það sje ein af höfuðskyldum stjórnar og bankanna, að hafa gætur á genginu á þann hátt, sem jeg hefi tekið fram. Það, að till. þessi er komin fram, mætti kannske skoða sem vantraust á stjórninni, en þar sem hún er komin fram frá þm., sem studdu stjórnina til valda, ber víst ekki að líta svo á þetta mál.

Niðurstaða nefndarinnar er því á þessa leið: Að stjórnin megi nota þá heimild, sem hún hefir í lögum frá 1921, til gjaldeyrislántöku, ef brýn nauðsyn krefur; og í öðru lagi þarf það að vera trygt, að lánið komi að gagni. Í þriðja lagi setur nefndin það beina skilyrði, að ekkert af láninu verði haft að eyðslufje ríkissjóðs. Stjórnin hefir látið í ljós, að sjer þætti eins líklegt, að heimildin yrði ekki notuð. Í sambandi við þetta ber nefndin fram í þessu máli till. til rökstuddrar dagskrár, sein hún ráðleggur deildinni að samþykkja.