13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisraðherra (SE):

Um fyrsta atriðið í ræðu háttv. 2. þm. Reykv. (JB) skal jeg geta þess, að skýrslan verður birt og hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til að prenta hana. Getur verið, að rjett sje hjá háttv. þm., að það hefði mátt gera fyr, en nú verður bætt úr því.

Um annað atriðið er það að segja, að jeg er afarófróður í þessum efnum, og verð því að taka frest til andsvara.

Þriðja atriðinu í ræðu háttv. þm., hvort Spánverjar hafi krafist vínveitinga í Reykjavík, er fljótsvarað: Spánverjar voru ekkert um það spurðir, hvaða fyrirkomulag hjer yrði um sölu og veitingu vína. Jeg samdi reglugerðina, ásamt ráðunautum mínum í Kaupmannahöfn, á þann hátt, sem við hugðum helst í samræmi við lögin og samninginn við Spánverja: var Spánverjum síðan tilkynt, hvernig reglugerðin væri. Það var vitanlegt, að þegar Alþingi fjelst á, að flytja mætti vín inn í landið, selja það og veita, þá varð ekki hjá þessu komist. En í þessum efnum hefir verið gengið mjög stutt. Vínveitingar eru heimilaðar á fjórum stöðum, en hvergi komnar á nema í Reykjavík: úr hinum kaupstöðunum hafa komið umsóknir um veitingaleyfi, en ekki frá mönnum sem stjórnin hefir treyst, að hafi þær í lagi, og hefir þeim beiðnum því verið synjað. Um útsölur er það að segja, að bæjarstjórnir hafa risið á móti þeim, og vilja ekki gera tillögur um, hverjum sje falið að hafa þær á hendi. Þegar Alþingi hefir veitt undanþágu frá bannlögunum, og þetta er nauðsynlegt til þess að halda fiskmarkaðinum, getur landsstjórnin ekki tekið tillit til þess, þó að bæjarstjórnir sjeu með ýmsar tiktúrur. — Hún er annars mjög einkennileg, framkoma bæjarstjórna í þessu máli, og það víðar en í Reykjavík. Bæjarstjórnum er heimilaður tillögurjettur, og er það gert í góðu skyni, til þess að þær hafi eftirlit með, að útsölur væru í höndum góðra og áreiðanlegra manna. En þær þverneita að nota þennan tillögurjett. Slík mótmæli, sem vilja nema úr gildi aðalatriði málsins og eru einungis til þess að friða samviskuna, verða ekki tekin til greina. Jeg þykist hafa sýnt, að jeg er eins góður bannmaður og ýmsir þessara manna. En jeg hefi fallist á nauðsyn þessa máls, og vil því fylgja því fram, en kann ekki við neinn kattarþvott eða hálfvelgju, sem einungis er til spillis.