27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

78. mál, lærði skólinn

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vildi óska, að mjer væri gefinn sá máttur mælskunnar, að jeg gæti farið með eitt ljelegt skólafyrirkomulag eins og hv. þm. ljeku færilúsína áðan, er þeir töluðu hana dauða.

Jeg get ekki komist hjá því, að byrja ræðu mína með því að minnast á skólamálið yfir höfuð með nokkrum orðum. Það hefir komið til álita, að menn sæju um fræðslu barna sinna til gagnfræðaskólaaldurs, en þó ekki náð fram að ganga, og því lendir á ríkissjóði að verja til þessa um hálfri miljón króna árlega að óþörfu. Þar á ofan verður svo að bæta því, sem skynsamlegast er að ofan á komi, gagnfræðaskólunum. Hefi jeg hugsað mjer þá í hverri sýslu, kostaða að 1/3 úr ríkissjóði, en að 2/3 af sýslunum sjálfum. Í þessu efni skuli allar sýslur jafnrjettháar. Reykjavík og Akureyri skulu líka kosta sína gagnfræðaskóla að 2/3. Gagnfræðaskólarnir skuli standa 3 vetur og veita undirstöðuþekkingu í öllum algengum námsgreinum, svo sem íslensku, reikningi, sögu Íslands, landafræði, eðlisfræði, eðlisvísindum og íþróttum bæði til gagns og gamans. Þá væri fengin sú undirstöðumentun, sem hver maður, er ekki tekur annað fyrir, á að geta látið sjer nægja; en toppurinn yrði svo kennaraskólinn.

Þar þarf að breyta svo til, að gagnfræðapróf yrði inntökuskilyrði, svo hann gæti verið eins og til hefir verið ætlast, reglulegur kennaraskóli, en ekki um leið gagnfræðaskóli, eins og nú á sjer stað um hann.

Þar yrði þá aðallega kendar ýmsar greinir kenslufræðinnar, svo sem uppeldisfræðin og undstöðufræðigrein hennar, sálarfræðin, sem er nauðsynlegt þekkingaratriði öllum barnakennurum og öðrum, sem við kenslu fást. Ætlast jeg til, að það verði traust undirstöðuþekking í þessum greinum, sem hjer yrði veitt, en ekki til nasasjónar einnar, eins og tíðkast hefir, og auk þessa fengi þessi skóli lengri tíma til að búa menn undir kenarastöðurnar og æfa þá í kensluaðferðum. Enn fremur koma hjer til, ofan við gagnfræðaskólana, allir aðrir skólar, svo sem verslunar- sjómanna- vjelfræða- og iðnaðarskólar. Þessi grein fræðslumálanna í landinu á að vera ein heild út af fyrir sig, með því höfuðmarkmiði að veita mönnum staðgóða undirstöðumentun í hagnýtum fræðum, til þess að verða að nýtum borgurum í þjóðfjelaginu.

Þá er hin grein fræðslumálanna, sem byrjar með lærða skólanum og endar á háskólanum og á að vera algerlega aðskilin og sjerstæð. Það er aðalatriðið, að þessum tveimur greinum sje ekki blandað saman; þar eð lærðir menn þurfa að fá aðra og enn betri undirstöðu þegar í byrjun, og þarf því að kenna þeim betur frá upphafi en þeim, sem ekki fara þann veg. Þetta er því aðaláhersluatriðið hjá mjer, að lærði skólinn verði skilinn frá gagnfræðaskólanum.

Jeg tók það fram um daginn, (í ræðu minni um Akureyrarskólann) að höfuðástæðan — þegar kensluaðferðirnar væru undanskildar — væri sú, að skólinn yrði gildra til að búa til lærða öreiga í landinu, með því fyrirkomulagi, sem nú er. Ef skólinn væri í lagi, mundu færri leggja á lærða veginn. Það yrðu ekki aðrir til þess en þeir, sem fúsir væru til að fórna sjálfum sjer, fyrir hugsjónir eða málefni, sem vildu lifa við sult og seyru og vanþakklæti, sem er hlutskifti slíkra manna. Það mundu færri verða til þessa, ef ekki væri þessi skólagildra. Gæti jeg vel trúað því, að innan fárra ára yrðu þeir svo fáir, að fremur mætti óttast hörgul á lærðum mönnum í framtíðinni.

Það er því meginregla þetta, að það má ekki kenna lærðaskólanemendum á sama hátt og kent er í gagnfræðaskóla. Það verður þegar frá byrjun að velja þeim, sem ætla sjer að verða að lærðum mönnum, erfið viðfangsefni og krefjast af þeim, að þeir skilji til hlítar alt það, er lýtur að náminu, og venja þá við það erfiði, sem þessu er samfara.

Þetta er aðalefni þessa frv., sem hjer hefir áður (í fyrra) komið fram í háttv. deild, og sem þáverandi mentaskólanefnd gerði ýmsar breytingar við og jeg nú hefi tekið upp í þetta frv. Það er því ekki neitt sjerlega nýstárlegt við þetta frv., að undanteknum ef til vill fáeinum nýyrðum, sem jeg hefi tekið upp í það. Nú tel jeg máli voru alls ekki stefnt í neitt óefni, þótt notuð væru hin gömlu orðin, en jeg vildi ekki láta þetta frv. svo frá mjer fara, að gömlu orðunum væri eigi slept.

Svo er til ætlast með þessu frv., að skólinn verði 6 ára lærður skóli, eins og hann var áður. Kensla í kristnum fræðum er ætlast til að feld verði niður, sem óþörf námsgrein í þessum skóla, enda er þannig löguð kensla, frá sjónarmiði trúaðra manna, fremur til spillis trúmálum en hitt. Mjer er þetta ekki trúaratriði; lít hvorki á það sem trúaður eða vantrúaður maður; það var aðeins til þess að fá meiri tíma til annara hluta þarfari, sem þetta var felt burtu. Þannig er og dönskukenslan feld niður og látin víkja fyrir höfuðnámsgreinum skólans, íslensku og latínu. Jeg tek það fram, um gömlu málin, að jeg get ekki fallist á, að þau sjeu miklu betri sem grundvallaratriði og undirstaða til æðri mentunar en t. d. náttúruvísindi og stærðfræði. En jeg hefi aldrei gerst svo djarfur að leggja til, að um þetta yrði skift, þar eð jeg vissi, að ef ætti að fara að kenna þessi fræði svo í lagi væri, yrði það svo miklu dýrara, að fje fengist alls ekki til þess, þó þess væri farið á leit. Því þessi grundvallaratriði verður að kenna miklu vandlegar en hjer hefir áður þekst. Latnesk fræði eru á hinn bóginn ævagömul og mál þetta hefir verið kent hjer öldum saman, og því mörgum til að dreifa, sem kunna og færir eru til að takast á hendur kensluna. Í hinum fræðunum, náttúrufræði og stærðfræði, eru varla til hjer nógu margir menn, sem færir eru um að taka að sjer grundvallarkenslu í þeim greinum og auk þessa þarf að afla dýrra tækja, til tilrauna og æfinga í þessum greinum; enda ekki víst, hverjir við taka, þegar þeir eru fallnir frá, sem nú eru uppi fræðimenn í þessum greinum. Því þori jeg ekki að leggja til, að eðlisvísindin verði gerð að grundvallarnámsgreinum skólans, en mundi kjósa, að langtum meiri kröfur yrðu gerðar í íslenskum fræðum, svo að nálgaðist það, sem heimtað er til meistaraprófs. Fengju menn þar hæfilegra viðfangsefni og meiri þekking á fortíð og framtíð þjóðar vorrar.

Námsgreinir þær, sem jeg hefi nefnt eðlisvísindi, eru hinar sömu og áður hafa kendar verið, og legg jeg ekki áherslu á þetta atriði; hefi skift um nöfnin meira mjer til gamans. Hitt legg jeg áherslu á, að þessar tvær tungur, íslenska og latneska, verði kendar verulega vel og að skólinn verði óskiftur 6 ára lærður skóli.

Viðtökuskilyrði hvað aldur snertir set jeg lík því sem eru, 12 ár; en sje ekki ástæðu til að setja efri aldurstakmörkin. Skil jeg ekki að það þurfi að verða að meini, þótt eldri menn væru. Eiga menn að hafa jafnan rjett til náms, þótt fullorðnir sjeu; eða hví skildi ekki fertugur eða fimtugur maður mega stunda nám, ef hann vildi.

Þá kemur að breytingum viðtökuskilyrðanna frá því sem nú eru þau; þar hefi jeg gert það að skilyrði, að latína hafi verið lesin og auk þess gerður stíll. Hafði jeg í huga sem svaraði 100 bls. í Caesar eða öðrum ljettari sagnahöfundum; ætti það að vera nægilegt til þess að vígja mann á hina lærðu braut og hæfilegur prófsteinn, hvort hann væri hæfur til þessa eða ekki.

Viðvíkjandi dönskunni, þá hefi jeg gert hana að inntökuskilyrði, eða eitthvert annað Norðurlandamálanna, svo að nemandi gæti notað bækur á þeim málum eða skildi þær. Jeg hef ætlað kennurum skólans frjálsari hendur en milliþingafrv. gerði ráð fyrir. Skólaráðið tel jeg vera skólaóráð. Er sjálfsagt, að yfirumráð skólans sjeu í höndum kenslumálaráðuneytisins.

Jeg vildi biðja nefnd þá, sem fær þetta frv. til meðferðar, að athuga, að jeg hefi í ógáti kveðið svo á, að laun kennara skuli ákveðin í launalögum og veit jeg að það mun þá fært til betri vegar.

Eitt atriði þessa frv. er enn ótalið, sem jeg ætla að minnast á. Það er ekki einhlítt, að þeir, sem vilja gerast kennarar, hafi nægilega þekkingu í þeim fræðigreinum, sem á að kenna, heldur verða þeir einnig að hafa þá skapshöfn, sem nauðsynleg er hverjum þeim, sem við þau störf fæst. Það er alkunna, að menn geta verið fræðimenn góðir, þótt þá vanti algerlega hæfileika til að umgangast ungmenni eða nemendur. Því held jeg rjett að hafa eins árs reynslutíma fyrir kennara, áður en þeim er veittur starfinn.

Jeg geri ráð fyrir, að nái frv. þetta samþykki þingsins til að verða að lögum, ættu lögin að geta komið til framkvæmda á næsta vori. Veit jeg, að til þessa munu háttv. þm. klífa þrítugan hamarinn. Þar sem aðsókn að skóla þeim, sem nú er, er að sliga ríkissjóð. Hvað segja háttv. þm. um það, að um 70 nemendur ganga inn í skólann á þessu vori? Hvort mundi hjer engrar breytingar vera þörf ? Það eru því fult eins alvarleg athugunarefni, að taka kenslumálin til athugunar, eins og að vera bollaleggja um það, hvort hægt muni að skera einn sýslumann á háls, eða ekki!

Vænti jeg að frv. þetta fái greiðlega að ganga til 2. umr. og að því verði vísað til mentamálanefndar.